Nokkurt fjaðrafok hefur staðið undanfarnar vikur um sölu lyfja á netinu. Íslenskur læknir, búsettur í Svíþjóð, hefur boðið lyf þaðan gegn lyfseðlum íslenskra lækna – sum fyrir brot af því verði sem sjúklingar greiða í lyfjaverslunum á Íslandi. Fljótt á litið er hér um vandaða og ábyrga þjónustu að ræða. Læknirinn býður lyf keypt hjá viðurkenndum söluaðila. Hann les lyfseðla og lyf saman til að koma í veg fyrir misskilning og tungumálavandamál. Þá útvegar hann ekki róandi lyf og svefnlyf, sterk verkjalyf og lyf sem eru viðkvæm fyrir flutningi. Á vefsíðu sinni – minlyf.net – sýnir hann dæmi um mismunandi verð sem m.a. ræðst af því hversu mikinn hlut af verði hvers lyfs Tryggingastofnun Ríkisins greiðir. Á síðunni nefnir læknirinn verð nokkurra lyfja og tekur saman dæmi um “blandaðan pakka” sem hann getur boðið á hálfvirði miðað við verð á Íslandi.

 

Það munar um minna.

Það vita allir að sjúklingar og aldraðir eru í flestum tilfellum ekki ríkir og þeim sem treysta á elli- og örorku-lífeyri er naumt skammtað. Afgreiðslufólk í lyfjaverslunum segir mér dæmi af fólki sem framvísar lyfseðli en verður svo að snúa frá þegar verðið kemur í ljós. Slíkt er sorglegt og má segja að þar hafi botninum verið náð í einu ríkasta velferðarþjóðfélagi veraldar. Lyf á hálfvirði eru því himnasending fyrir flesta.

 

Bannað.

Nú hafa yfirvöld á Íslandi hinsvegar fundið lög sem banna lyfjasölu á netinu og farið fram á að hinn íslenski læknir leggi þessa starfsemi niður og loki síðu sinni. Í stað þess að gera snögga athugun á starfsemi minlyf.net, setja um hana ramma og leyfa síðan, er einfaldlega sagt NEI. Áfram skal greiða tvöfalt verð fyrir lyf á Íslandi.

 

Á sama tíma berast þær fréttir að Landspítali – Háskólasjúkrahús eigi í viðvarandi vanskilum við lyfja- og hjúkrunar-fyritæki og skuldi þeim nú um 700 milljónir króna. Það skyldu þó ekki fleiri en einstakir sjúklingar vera að kaupa of dýr lyf ?

 

Norrænt samstarf.

Fyrir rúmu ári, skrifaði undirritaður grein um “samnorræn lyfjakaup”. Greinin nefndist “Lyfjaverð – einkavæðing” og var Morgunblaðið svo vinsamlegt að birta hana þ. 21.5.2006.

 

Greinina má einnig finna í greinasafni á vefsíðunni – landsmenn.is . Í þessari grein er rifjuð upp athyglisverð saga og starfsemi Lyfjaverzlunar Ríkisins. Lyfjaverslunin var í eigu þjóðarinnar í tæp 50 ár. Hún flutti inn lyf og framleiddi bæði töflulyf og stungulyf og seldi sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum – á kostnaðarverði. Skv. lögum og reglum var hún til þjónustu við þjóðina og leyfðist ekki að að hagnast á starfseminni. Illu heilli var Lyfjaverzlun Ríkisins lögð niður eftir 1990.

 

Undirritaður leggur til í nefndri grein - og aftur nú - að öll norðurlöndin taki nú þegar höndum saman og framleiði lyf, eða geri sameiginleg magninnkaup til að ná hagstæðustu verðum. Lyfin verði með merkingum á öllum norðurlandamálunum þannig að flutningur birgða milli landanna sé öruggur og einfaldur hvenær sem aðstæður gera slíkt æskilegt td. ef upp kemur faraldur í einhverju landanna eða þurrð verður á einstökum lyfjum. Hvorki sjúklingar né heilbrigðisyfirvöld mega vera háð “einokun” og ofurvaldi einstakra lyfjaframleiðenda.

 

Nýr heilbrigðisráðherra.

 

Um leið og Guðlaugi Þór Þórðarsyni er óskað til hamingju með traust kjósenda í nýafstöðnum kosningum og ábyrgðarmikinn ráðherradóm vill undirritaður hvetja hinn unga ráðherra til dáða á sviði lyfjainnkaupa. Þörfin er brýn og það er löngu tímabært að samstarf norðurlanda snúst um fleira en heimsóknir, veislur og bókmenntaverðlaun.

 

Það þarf kjark og frumkvæði til að fara ótroðnar slóðir en aðeins þannig verða framfarir. Kjark sem þjóðin treystir því að ráðamenn hafi. “Lyfjasamstarf” er eitt af mörgu sem þjónað gæti hagsmunum allra norðurlandabúa – orðið áþreifanleg framför.

 

Að lokum.

Við Íslendingar berum okkur stundum saman við nágrannaþjóðir okkar og kjör þeirra. Það er reyndar ekki alltaf auðvelt en eitt dæmi skal nefnt: Í Bretlandi fá allir sem orðnir eru sextugir ókeypis lyf. Hvað sem heimilislæknirinn skrifar á lyfseðilinn er afhent án þess að nokkur greiðsla komi fyrir. Sama gildir um lyf handa þeim sem yngri eru en haldnir ákveðnum alvarlegum sjúkdómum.

 

Þann dag verður fagnað er sjúklingar á Íslandi geta kvíðalaust lagt inn lyfseðil án þess að óttast að fara lyfjalausir heim.

 

Höfundur er fv. forstjóri og f

rambjóðandi í forsetakosn. 2004

 

baldur@landsmenn.is