SENN fer sumri að halla og enn fékk ég tækifæri til að ferðast um Ísland og hef notið einstakrar náttúru í óbyggðum. Þessi forréttindi eru ekki sjálfgefin og þau ber að þakka. Því miður hafa ekki allir þessa möguleika, t.d. af fjárhags- eða heilsufarsástæðum, aðrir eiga ekki heimangengt og enn aðrir hafa ekki áhuga. Sú var tíðin að ekki var lagst í ferðalög nema eiga erindi og gildi lands var metið eftir hefðbundnum nytjum, en þau duga ekki til að mæta nútíma kröfum. Landgæðum ber þó að viðhalda og nýta með sjálfbærum hætti. Víða hefur gróðurþekja látið á sjá og jafnvel fokið burt, mest vegna óblíðra náttúruafla og þar þurfum við að koma til hjálpar. Afkomendur okkar og erlendir ferðamenn munu örugglega sækjast eftir að skoða þetta land og nýta um ókomna tíma ef rétt er á haldið, og af því má hafa miklar tekjur.

 

Vanmetin auðlind

Því meir sem ég kynnist Íslandi geri ég mér betur grein fyrir því hversu brýnt það er að meta gildi lands og að fórna því ekki með vanhugsuðum framkvæmdum. Engin slík neyð vofir yfir að við þurfum að ganga á þennan fjársjóð og það með slíku offorsi að fólki gefst ekki ráðrúm til að átta sig eða koma við vörnum. Þekking á ýmsum sviðum og skynsamleg nýting á náttúrunni er í sjálfu sér atvinnuskapandi. Óspillt náttúra er vanmetin auðlind, en þar ber margt að varast ef ekki á illa að fara. Margir telja sig ekki geta skoðað landið nema af uppbyggðum malbikuðum vegum og vera snöggir að því. Með þessu fólki hef ég enga samúð. Einnig er algengt að fólk láti sér fátt um finnast þótt heilir landshlutar og stór byggðarlög séu ekki í almennilegu sambandi við þjóðvegakerfi landsins. Fólk sem þar býr hefur þarfir og á nákvæmlega sömu kröfu til góðra samgangna og við hér á höfuðborgarsvæðinu. Það á rétt til að sækja nauðsynlega þjónustu og ferðast á milli byggðarlaga án þess að hætta sér og sínum um hættulegar skriður, snjóflóðasvæði og snjóþungar heiðar. Víða er veðursæld mikil og gott að búa en veðurfari á heiðum breytum við ekki. Því ættum við að gera áætlun um jarðgöng þar sem þeirra er þörf og hafa bora í gangi allan ársins hring og láta einskis ófreistað til að jafna búsetuskilyrði. Það er hagur allra að halda uppi góðum samgöngum. Uppbyggðir hálendisvegir yrðu hins vegar mjög hættulegir og reyndar dauðadómur yfir töfrum margra landsvæða.

 

Sjálfur hef ég hitt nokkra sem nýttu sér malbikið til að skoða hið rómaða svæði sem Hálslón er nú að kæfa. Þeir sem fóru ekki út fyrir þennan veg sögðust ekki hafa séð sérstakar fórnir, enda lá malbikið ekki um 40 ferkílómetra fjölskrúðugt gróðurlendi né með einstæðum farvegum Jöklu og Kringilsár.

 

Hlutverk

Því hefur verið haldið fram að þeir sem berjast fyrir verndun svæða hafi ekki skilning á þörfum landsbyggðar en komi allt í einu auga á náttúrugersemar þegar fórna skal landi í þágu stóriðju og hlaupi þá upp til handa og fóta og standi gegn framþróun, eru bara á móti og bendi ekki á neitt í staðinn. Í staðinn fyrir hvað? Fyrir óafturkræf náttúruspjöll, skuldir og mengandi stóriðju í eigu erlendra auðhringa. Það liggur í hlutarins eðli að náttúruverndarsamtök standa fyrir náttúruvernd, þeim ber engin skylda til að standa fyrir atvinnusköpun. Framtíðarlandið hefur þó skorið sig úr og verið óþreytandi að benda í ýmsar leiðir til nýsköpunar í atvinnulífi. Stjórnmálamenn bera hins vegar víðtæka ábyrgð og ekki óeðlilegt að þeir séu rukkaðir um hugmyndir.

 

Aðgengi og kynning

Á ferðum mínum um víðerni Snæfells hefur mér oft verið hugsað til þess hversu lítið mál hefði verið að auðvelda ferðafólki að skoða svæðið fyrr með því að lagfæra vegslóðir og brúa Jöklu og Jökulsá í Fljótsdal. Ef þetta hefði verið gert í tíma hefðu fleiri verið búnir að skoða virkjunarsvæðið og óvíst að af framkvæmdum hefði orðið. Til samanburðar bendi ég á að með brúargerð Jökulsár á Fjöllum og Kreppu á sínum tíma opnuðust einstök svæði.

Þótt tekist hafi að bjarga Eyjabökkum höfðu ekki margir farið þar um, enda blautt og erfitt yfirferðar. Um fegurð og lífríki Eyjabakka eru vandfundin orð til að lýsa. Það þurfti þó að berjast fyrir friðun þar og í því máli held ég að mestu hafi skipt fallegar myndir af svæðinu.

 

Ég leyfi mér að vona að nú hafi einnig tekist að bjarga Þjórsárverum, Langasjó og Jökulsá á Fjöllum en fullyrði að það hefði ekki tekist nema fyrir þrotlausa baráttu og mikla kynningu á þessum mögnuðu svæðum. Slíka kynningu fengu þó ekki lífæðarnar Kelduá og Jökulsá í Fljótsdal með sínar einstöku fossaraðir. Úr byggð að fyrirhuguðum uppistöðulónum neðan Eyjabakka er dagleið að ganga með hvorri á fyrir sig. Það er svo sannarlega þess virði að leggja slíka göngu á sig og síðustu forvöð, því samkvæmt áætlun verður náttúrulegt rennsli ánna stöðvað nú í haust.

 

Lokaorð

 

Það er nöturlegt til þess að hugsa, að til að verja einstæða náttúru skuli þurfa að berjast við okkar eigin ríkisstjórnir og að það stríð skuli enn standa yfir, því ekkert lát er á hernaði gegn landi sem er einstakt á heimsvísu.

 

Höfundur er lögreglufulltrúi og félagi í Íslandshreyfingunni.

 

(Myndaval: Baldur Ágústsson)