UMRÆÐA um lyfjaverð kemur reglulega upp á Íslandi og er oft minnst á óeðlilega hátt verð fyrir þessa nauðsynjahluti.
Ráðherrar síga í öxlum og verða þungbúnir ef þetta mál kemur upp. Hins vegar er það staðreynd, eins og margar kannanir sýna, að verð á lyfjum hér er sennilega það hæsta sem þekkist. Raunar furðulegt að greiða himinháa upphæð hér fyrir lyf og sömu lyfin fást í apótekum erlendis fyrir einhverja smáaura.
Á Íslandi standa tvö fyrirtæki að allri smásölu lyfja og hafa þau dreift apótekum sínum um allt land. Að vísu eru til stakir lyfsalar, sem af þrautseigju halda sínu og bjóða yfirleitt betra verð en þekkist hjá lyfsöluhringjunum. Ótrúlegt að þjóðin sem losaði sig úr einokun Danaveldis snemma á 20. öld skuli láta bjóða sér innlenda einokun í staðinn, hvort sem það eru lyf eða matvörur. Þekkt dæmi eru sýklalyf og sveppalyf. TR niðurgreiðir ekki þessa flokka. Fokdýr lyf, sem geta kostað öryrkja eða lífeyrisþega allt að sex mánaða tekjur. Vitiborið fólk sér að þetta er öllum ofviða, nema vera í hálaunaflokki.
En kannski eru bjartari tímar framundan.
Fyrir nokkrum dögum var boðað til fundar af heilbrigðisráðherra sem virðist hafa ýmsar lausnir í hendi. Meðal annarra var sú snjalla hugmynd um samnorrænan lyfjamarkað, hugmynd sem Baldur Ágústsson viðraði fyrir alllöngu á annars ágætri vefsíðu sinni baldur@landsmenn.is. Ennig kom sú yfirlýsing ráðherra að \"íslenski lyfjamarkaðurinn virkar ekki sem skyldi\". Mikið rétt, markaður sem okrar á fólki virkar ekki þannig. Á þessum fundi benti landlæknir á þá aðferð sem notuð er af lyfjafyrirtækjum og felst í því að halda ódýrum lyfjum af markaðinum. Allir nema peningamenn sjá það að auðvelt væri að aftengja markaðslögmálin. Löngu tímabært er að hætta að taka mark á grátandi lyfsölum og ætti ráðherra að gera gangskör að því að leysa þetta mál öllum til góða. Pétur Blöndal orðar þetta skemmtilega í Blaðinu 11. október og segir: \"Reglur um lyfjakostnað eru svo flóknar að maður spyr sig hvort nokkur hugsun búi þar að baki.\" Einnig talar Pétur um að skera beri upp allt heilbrigðiskerfið og byrjað verði á lyfjamálum. Góðar hugmyndir virðast vera víða og með endemum ef ekkert verður gert til að lækka lyfjaverð.
Kannski er hátt verð tilkomið af hluta af því að lyfjabúðir eru orðnar svo skrautlegar og margt manna samankomið til að þjónusta viðskiptamanninn. Stundum eins og þetta séu þjónustumiðstöðvar fyrir ófrítt fólk og illa lyktandi. Í æsku man ég eftir apótekum sem voru látleysið uppmálað. Þar voru eingöngu seld lyf afgreidd af ábúðarmiklum lyfsölum, helst gegn lyfseðli, allt annað fékkst í kaupfélaginu eða þartilgerðum snyrtivörubúðum. Aldrei var talað um hátt verð á lyfjum þá. Miklum upphæðum hlýtur að vera tilkostað í þessa glæsilegu speglasali sem sveitamenn kalla apótek. Á endanum kemur svo allur kostnaðurinn úr vasa þeirra sem þurfa nauðsynleg lyf og lyf eiga aldrei að vera munaðarvara sem aðeins hátekjufólk getur leyft sér. Lyf eiga að vera hluti heilbrigðiskerfinsins, sem ásamt lækniskostnaði ætti að vera ákveðin upphæð sem fólk borgar árlega og fær síðan afsláttarskírteini frá TR, þannig að greiðsluþáttur almennings lækkar.
Tími er kominn til að launþegar hætti að beygja sig undir okurverð á lyfjum og matvöru.
Höfundur er fv. liðsforingi.