HRUNA-Jarlinn, hallur undir erlenda forsjá íslenskra þjóðarhagsmuna hefði eflaust notið sín vel sem foringi ESB-sinna, þyljandi þeirra gylliboða og loforðaspuna um sæluríkið sem þjóðinni muni hlotnast ef hún aðeins fellur fram og tilbiður ESB ráðstjórnarforsjárbáknið í Brussel, krýpur því til gerbæna og afsalar sínu fullveldi til gamalla nýlenduvelda, fyrir ESB-stórríkisbaunadisk.

 

Það er eðlilegt og sjálfsagt að Íslendingar hafi áfram sem hingað til víðtæk samskipti og samstarf við Evrópulönd, vinaþjóðir. En án alþjóðlegrar markaðsvæðingar (sölu) íslenskra náttúruauðlinda, án afsals fullveldis og skerðingar landsréttinda og án aðildar að Evrópusambandinu. Munu foringjar ESB-sinna ekki víla fyrir sér að endurtaka hrun þjóðveldisins? Gera Íslendinga að bónbjargamönnum í Brussel, ef það þjónar markmiðum foringjanna? Látum það ekki gerast. Gefumst aldrei upp á því trúnaðarverkefni fyrir ættarlandið og framtíð þjóðarinnar að vera fullvalda og sjálfstæð þjóð. Fórnum aldrei fullveldi og auðlindum Íslands, þó einhverjir pólitískir lýðskrumarar segðu að á slíkum óbótaverkum gegn föðurlandinu, mundum við stórgræða.

 

Góðir landsmenn, gjöldum varhug við áróðurskrumi ESB-aðildarsinna, þeirra fiðurrökum og sannleikssniðgöngu. Jafnframt öðrum hræðsluáróðri, hóta þeir nú landflótta fyrirtækja og hæðast að efnahagsráðstöfunum stjórnvalda. Nýjasti svartagallsrausáróðursbrandari ESB-sæluvistartrúboða er að vara við hættu á heimsstyrjöld! Gangi Íslendingar ekki hið snarasta í ESB, minni skal ábyrgðin ekki vera. Heimsfriði stefnt í voða af herlausri, friðsömustu þjóð heims. Hvað býr eiginlega að baki ESB-aðildarofstækinu?

 

Enn forðast áróðursforingjar aðildarsinna sem heitan eld að útskýra fyrir þjóðinni að neinu leyti, hvert ætti eða þyrfti að vera innihald þess sem þeir kalla ,,jákvæð niðurstaða samningaviðræðna“, sem þjóðinni er svo væntanlega ætlað að samþykkja skv. ráðleggingum (kröfum) þeirra ,,jákvæðu“, sem leita nú allra leiða til þess að komast hjá því að virða stjórnarskrána. Munum orð þjóðskáldsins og ráðherrans, um fósturlandið ,,allt sem vér höfum, höfum vér frá þér“. Það mun lengi enn verða svo.

 

Vegvísir.

 

Þegar við horfum næst á hina björtu ,,öndvegissúlu“ friðar skína í Viðey og hugleiðum möguleika á friði og frelsi alls mannkyns, ættum við að hugsa til öndvegissúlna fjölskyldunnar sem fyrst byggði í Reykjavík í leit að friði og frelsi, því frelsi og fullveldi, sem glataðist nokkrum kynslóðum síðar, vegna oftrúar á og dekurs ,,útrásarhöfðingja“ við erlent vald og varð orsök ánauðarfjötra, fátæktar og ófrelsis margra kynslóða, forfeðra okkar og mæðra.

 

Nær okkur í tíma en Einar-Þveræingur og Snorri Sturluson og hans ævarandi vegvísir, þjóðinni. Eru þeir alþingismenn sem báru gæfu til þess að hafna valtýzkunni, höfnun sem varð mikilvægur áfangi að heimastjórn og þeim miklu framförum íslensks atvinnulífs og þjóðfélags sem henni fylgdi, langt fram á 20. öldina. Kjósendur höfnuðu árið 1908 sambandslagafrumvarpinu, þau kosningaúrslit voru mikill sigur frelsishugsjóna aldamótakynslóðarinnar. Engum Íslendingi hefur komið í hug á hamingju og heiðursdegi Íslands 17. júní 1944, að innan fárra áratuga gætu landsmenn litið sér nær í mikilvægasta verkefni þjóðarinnar, varðveislu fullveldis og frelsis fósturlandsins, ásamt þjóðtungunni. Eyðum ekki síðasta áratugnum að aldarafmæli fullveldisins, við það fjörráðsverk að svipta þjóðina og komandi kynslóðir því frelsi og fullveldi, sem tók nærri sjö hundruð sumur að endurheimta.

 

Stjórnarskrá Íslands, tekur af allan vafa um að engar ESB-aðildarviðræður Íslands, geta hafist án samþykkis forseta Íslands og íslensku þjóðarinnar. Gæti réttkjörinn forseti Íslands, veitt gildi löggjafarmálum eða stjórnarerindi, sem hefðu það markmið að skerða fullveldi lýðveldisins Ísland?

 

Getur sjálfstæð þjóð sem á sitt ríki ,,fjarst í eilífðar útsæ“ hefur átt þar athvarf í nærri 1150 ár, oftast við erfið skilyrði en fyrir þrautseigju haldið velli ,,grætt“ eitthvað, verðmætara fullveldi og frelsi?

 

Er það okkur eitthvað vandara að sýna sömu þrautseigju og gengnar kynslóðir?

 

Höf. er vélfræðingur og fullveldisvinur.