Ragnar Önundarson:

Á FYRRI hluta árs 2005 ritaði ég átta greinar í Morgunblaðið og varaði við. Margir höfðu gefið sig gullæðinu á vald, en ég vonaði að einhverjir sæju að ekki er allt gull sem glóir. Greinarnar má skoða í greinasafni á mbl.is. Spáð var að ástandið gæti orðið erfitt eftir 2-4 ár. Nú eru 3½ ár síðan fyrsta greinin birtist. Ég nam staðar við þá sérstöku áhættu að ofmats eigna gætti í fyrsta sinn samtímis víða um heim síðan fyrir kreppuna miklu.

 

Samtenging fjármagns- og hlutabréfamarkaða ylli því að ef þessar sápukúlur spryngju í keðjuverkun mundi það valda harkalegri niðursveiflu í heimsbúskapnum. Ef þær spryngju eftir að framkvæmdum eystra lyki yrðum við býsna berskjölduð. Eins sá ég að bankarnir voru hættir að gera mun á alvöru vexti og skaðlegri þenslu. Ekki er unnt að reka skráð félög lengi flaskandi á þessu. Nú er einmitt sú skelfilega staða komin upp sem ég óttaðist. Sjálfskaparvítin eru verst. Það vill dragast að taka á þeim af því að afneitun þeirra varir svo lengi. Ekkert er nú framundan nema langvarandi erfiðleikar, e.t.v. í 4-5 ár. Síðustu fjörutíu árin hafa því miður orðið fjögur alvarleg samdráttarskeið á Íslandi með hastarlegri rýrnun kaupmáttar, 15-20%. Fjöldi Íslendinga varð gjaldþrota, en aðrir sem höfðu farið varlega stóðu áföllin af sér, aðþrengdir.

 

Nýfundnaland

 

Nágranni okkar í vestri nefnist Nýfundnaland. Það land er nú fylki í sambandslýðveldinu Kanada. Landið var ensk og síðar bresk nýlenda frá 1583 til 1907, þegar það varð sjálfstætt lýðræðisríki innan breska samveldisins. Á árunum eftir 1920 gáfu stjórnmálamenn landsins sig á vald ,,umræðustjórnmálum“ þess tíma. Stöðug upphlaup og hneyksli skóku þjóðfélagið. Forsætisráðherrann sætti ásökunum um spillingu og þurfti að segja af sér 1923. Hann komst þó aftur til valda 1928 af því að arftakinn varð með eindæmum óvinsæll. Fljótlega rökkvaði, Kreppan mikla fór í hönd. Atvinnulífið var fábreytt, einkum fiskveiðar og -vinnsla, auk pappírs- og jarðefnavinnslu. Umræðustjórnmál kyntu undir sundurlyndi og óánægju. Stóryrði og upphrópanir ollu því að almenningur missti trúna á framtíðina, landstjórnina og sjálfstæði landsins árið 1934. Sjálfum sér sundurþykkir stjórnmálamenn gáfust upp á að mynda starfhæfa ríkisstjórn og sneru sér til bresku krúnunnar með ósk um skipun landstjóra á ný. Sá skipaði síðan ríkisstjórn og hélst sú skipan allt til ársins 1949. Síðan hefur landið verið jaðarsvæði í Kanada. Ríkisstjórnin í Ottawa vill ekki skipta sér af hagþróun einstakra svæða. Ungt fólk frá Nýfundnalandi leitar því atvinnu í blómlegri byggðum. Það vill samt eiga sumardvöl í lítt snortinni náttúru heimahaganna.

 

Gamli sáttmáli

 

Við Íslendingar gleymum stundum að við höfum svipaða reynslu. Íslenska þjóðveldið var laust við allt erlent vald. Sögur herma af góðum lífskjörum og þjóð sem hafði aðferðir sem dugðu til að setja lög, fella dóma, setja niður deilur og framkvæma réttilega fengnar niðurstöður. Um langt skeið ríkti góðæri. Síðar harðnaði í ári og róstusöm tíð fór í hönd. Árið 1262 var málum svo komið að landsmenn voru ekki lengur bjargálna, áttu ekki skip og urðu að gera sáttmála við erlendan konung. Þeir gengu honum á hönd gegn því að fá að kaupa nokkra skipsfarma af nauðsynjum vor og haust. Gamli sáttmáli markaði endalok sjálfstæðis landsins. Tæp 700 ár tók að endurheimta það. Loforðið um skipakomur reyndist ekki haldgott.

 

Nýi sáttmáli

 

Um þessar mundir steðja erfiðleikar að. Bankarnir hafa gengið vopnum sínum framar í lánaþenslu og ítrekað framkallað óraunhæfar hækkanir eignaverðs sem þeir lánuðu jafnóðum aftur út á. Nú eru bankarnir útblásnir af lofti eins og sápukúlur og munu springa á sama hátt. Þetta er ekki þeirra einkamál. Þetta var skemmdarverk á hagkerfinu, til að refsa ríkinu fyrir að reka Íbúðalánasjóð í samkeppni við þá. Ekki þarf að gera því skóna að gæði erlendra eigna bankanna séu meiri en innlendra. Halda menn að íslensku bankarnir í London hafi náð bestu bitunum í samkeppni við stórbankana? Halda menn að yfirtökur Íslendinga á fyrirtækjum á tímum óraunhæfs hlutabréfaverðs hafi allar verið á réttu verði? Halda menn að dómgreind þessara manna sé betri í útlöndum en heima? Benda veisluhöldin til þess?

Landsmenn hrifust margir hverjir með. Skuldakóngar finna nú á sér að þeir eru komnir í áður óþekkta áhættu. Þeir líta ekki í eigin barm heldur sjá vesalings krónuna sem sökudólg. Hún reyndist þó bærilega á meðan menn kunnu fótum sínum forráð. Þeir fjalla um nauðsyn þess að gera Nýja sáttmála við kónginn ESB í Brussel. Að því búnu getum við líklega skemmt okkur við ,,umræðustjórnmál“, kannski næstu 700 árin eða svo. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af unga fólkinu, það fær vinnu í Evrópu. Þótt við verðum útkjálki og jaðarsvæði sem Brussel vill ekki skipta sér af munu krakkarnir hafa gaman af heimsækja okkur á sumrin.

 

Staðan í efnahagsmálum veraldarinnar fer nú enn versnandi. Ytri skilyrði þjóðarbúsins eru því að versna. Afneitun vandans og aðgerðaleysi, í von um að einhver ósýnileg hönd komi og leysi hann, er þyngri en tárum taki.

 

Höfundur er viðskiptafræðingur, bankamaður og fjármálaráðgjafi.