Baldur Ágústsson:
Það sem þjóðin þarf og hefur allt of lengi beðið eftir, er að finna að stjórnvöld standi með almenningi en ekki með fáeinum mislitum sauðum sem a.m.k að hluta bera ábyrgð á því hvernig komið er.
Fólk, sem horfir fram á atvinnuleysi og er að kikna undan skuldum, stefnir jafnvel í gjaldþrot og heimilismissi, vill áþreifanlegar raunhæfar lausnir og sjá að kostnaður við þessar lausnir ss. erl. lántöku ríkisins verði borinn af þeim sem ábyrgðina bera. Þeim sem högnuðust á einokun, samráði og gegndarlausri græðgi meðan vinir þeirra á valdastólum litu í hina áttina.
. . . fella strax niður skatta eldri borgara af eðlilegum atvinnutekjum. Stígandi skuldir, frosinn fasteignamarkaður og hækkandi verð á nauðsynjavörum er ósanngjörn byrði á herðum þessa fólks sem á að hafa lokið starfsævi sinni og hefur auk þess búið við margsvikin loforð um margskonar félagslegar úrbætur. Það er lágmarks réttlæti að taka ekki skatta eða opinberar bætur af af þeim sem þurfa að vinna eftir að þeir ættu að geta verið farnir að njóta ævikvöldsins.
. . . styrkja velferðarkerfið: Mælum svo fyrir að lífeyrissjóðir byggi húsnæði fyrir eldri borgara ekki til að selja þeim heldur lána eða leigja. Eru lífeyrissjóðirnir ekki fullir af peningum sem einmitt þetta fólk á? Hafa ekki fasteignir reynst ein öruggasta fjárfestingin, þegar til lengri tíma er litið? Því skyldu sjóðir fólksins fjárfesta í erlendum pappírum meðan það sjálft býr við óöryggi í húsnæðismálum þegar aldurinn færist yfir?
. . . gæta sanngirni í sköttun fyrirtækja. Til eru vel rekin fyrirtæki sem búa við hækkandi verð á aðföngum og reksturskostnaði. Sum eru í eigin húsnæði sem eigendur þeirra reistu af dugnaði, með eigin vinnu og aðhaldi. Þegar ríkið hinsvegar ákvað á sínum tíma virði þessara bygginga, sem fasteignagjöld eru svo aftur reiknuð út frá, var miðað við söluverð þeirra ekki raunverulegan byggingarkostnað. Er nú ekki tímabært og sanngjarnt - þegar verð á atvinnuhúsnæði lækkar, eða það er jafnvel óseljanlegt, að endurmeta raunverulegt verðmæti þess og lækka þar með fasteignagjöld þeirra tilsvararandi ekki ári eða tveimur síðar heldur t.d. mánaðar- eða ársfjórðungslega. Það er varla miklu flóknara en að hækka höfuðstól verðtryggðra lána mánaðarlega? Í mörgum tilfellum gæti þetta tryggt áframhaldandi starfsemi fyrirtækjanna, framleiðslu, atvinnu starfsmanna og þar með skatt- og útsvarsgreiðslur; og það sem mest er um vert: Framfærslu þess og sjálfstæði.
Fleiri ábendingar?
Nýjar tölur sýna jákvæðan rekstur ríkissjóðs upp á 77 milljarða króna. Forsætisráðherra er hagfræðingur, hann hefur ráðgjafa sem líka er hagfræðingur og pyngju fulla af peningum. Ég spyr þessa menn: Hvenær - ef ekki á krepputímum þegar fjöldi fólks býr við fátækt, yfirvofandi atvinnuleysi, gjaldþrot og neyð er tímabært að slaka á klónni t.d með ofannefndum aðgerðum eða öðrum álíka?
Þessar ráðstafanir eru heilbrigðari og ódýrari en hruna gjaldþrota, fjöldauppsagnir, útgjaldaaukning vegna atvinnuleysisbóta og annað sem fylgir alvöru kreppu.
Þurfi ráðamenn fleiri ábendingar um hvernig er hægt að leysa þarfir almennings, og hvar í ríkisrekstrinum megi finna viðbótarfjármagn til þess, verð ég ábyggilega ekki einn um að koma með nokkrar hugmyndir.
Baldur Ágústsson
Höf. er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningunum 2004
baldur@landsmenn.is
www.landsmenn.is
Birt í Mbl. 28.9.2008