Ármann Kr. Ólafsson alþingismaður:

 

ALLIR þeir lögfræðingar sem ég hef rætt við eru sammála um að ábyrgð ríkissjóðs Íslands nái ekki lengra en Tryggingasjóður innistæðueigenda getur staðið undir. Það sé algjörlega skýrt í tilskipun Evrópusambandsins frá 1999 og Alþingi innleiddi. Í því ljósi má segja að Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hafi teygt sig fulllangt með bréfi sínu til breskra yfirvalda þar sem hann sagði að íslensk stjórnvöld myndu, ef á þyrfti að halda, styðja Tryggingasjóð innistæðueigenda til að afla nægra fjármuna þannig að sjóðurinn gæti staðið við lágmarksbætur færi svo að Landsbanki og útibú hans í Bretlandi féllu.

Í kjölfar bréfsins segir fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen svo í margumræddu símtali við Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands að bankarnir hafi tryggingarsjóð sem íslenska ríkið muni styðja við.

 

Með þetta tvennt í farteskinu hefði átt að vera útilokað fyrir Darling að segja að Íslendingar ætluðu ekki að borga og beita síðan hryðjuverkalögunum og frysta eignir Landsbankans með öllum þeim afleiðingum sem það hafði í för með sér.

 

Í ljósi þeirrar valdbeitingar tel ég að yfirlýsingar viðskipta- og fjármálaráðherra séu úr gildi fallnar. Með aðgerðum sínum brenndu bresk stjórnvöld upp nánast allar eigur íslensku bankanna og í raun allra Íslendinga. Með aðgerðum sínum hafa Bretar gert íslenska ríkinu ókleift að gangast við þeim skuldbindingum sem bresk stjórnvöld fara fram á. Þau verða að taka afleiðingum eigin gjörða. Bresk stjórnvöld hafa fyrirgert öllum rétti sínum á hendur íslenska ríkinu, bæði lagalegum og siðferðilegum.

 

Uppgjör við Litla-Bretland vegna Icesave hefur farið fram. Það uppgjör átti sér stað þegar hryðjuverkalögunum var beitt gegn Íslendingum og eigur Landsbankans hirtar. Uppgjör að öðru leyti mun fara fram síðar.

 

Höfundur er alþingismaður.