Þegar þetta er ritað, fid. 20.11.2008, lítur út fyrir að samkomulag hafi náðst við Breta, Hollendinga og fleiri um uppgjör svokallaðra IceSave reikninga og þar með verið hrundið úr vegi þeim hindrunum sem þessar vinaþjóðir okkar, með styrk allra annarra ESB þjóða – 27 samtals - höfðu sett gegn því að við fengjum lán hjá Alþjóða Gjaldeyrissjóðnum – IMF. 

 

Það er margt í þessu ferli undanfarnar vikur sem vekur spurningar m.a. um hvort þessari niðurstöðu hafi verið náð með eðlilegum hætti, tekinn sá tími sem þurfti eða hvort legið hafi á að “sættast” við ESB þjóðirnar.

 

 

Það eitt að uppgjöri hafi verið náð á styttri tíma en tekur að gera upp gjaldþrot venjulegs fyrirtækis, svo og að því var hafnað að ágreiningur um ábyrgð Íslands færi fyrir dómstól eða gerðadóm er vægast sagt grunsamlegt. Málinu skyldi hraðað og Íslendingar einfaldlega ganga að kröfum þjóðanna eða þær kæmu í veg fyrir að við fengjum lánið stóra frá IMF. Burt séð frá allri “vináttu” var þetta því undarlegra sem við Íslendingar erum að undirbúa bótakröfur á þá sem sköðuðu okkur með hryðjuverkalögum – sem er einstakt í sögu siðaðra þjóða. Þarna er því um að ræða “sök og gagnsök” sem leysa hefði mátt fyrir gerðadómi að hætti siðmenntaðra þjóða. 

 

Nei, fjárkúgun skyldi það vera – Íslendingar skyldu sveltir til hlýðni – og alþjóðastofnun, IMF, fengin til að leggjast á árar gegn okkur.

 

 

"Við látum ekki kúga okkur."

 

Íslensk stjórnvöld höfnuðu þessu og eitt augnablik endurheimtum við stolt okkar þegar forsætisráðherra sagði að við létum ekki kúga okkur. Eitt augnablik létum við breska ljónið sjá í vígtennur hvítabjarnarins.

 

Ekki var samt liðin vika, þegar okkur var tilkynnt að “samningar hefðu náðst – fljótlega yrði allt komið í lag”. “Samningarnir” svokölluðu voru þeir að að við sögðum já.

 

Ingibjög Sólrún, sagði okkur að ef við hefðum ekki gert það hefði fjármálakerfi Evrópu verið í uppnámi – ef ekki hrunið. RUGL. Fjármálakerfi ESB er ekki einu sinni okkar vandamál. En etv. líður Ingibjörgu vel að hafa bjargað ESB frá efnahagslegu hruni - Það er fátt sem við gerum ekki fyrir vini okkar.

 

Þjóðin er öskureið,og lái henni hver sem vill. Fyrir utan skuldabagga sem við erum að binda blessuðum börnunum okkar, hefur upplýsingastreymi og samstarf við stjórnarandstöðuna og almenning allan verið skorið svo við nögl að til háborinnar skammar er. Svo, allt í einu, er búið að “semja”. 

Sú samstaða sem ráðamenn hvetja okkur til að sýna hvort öðru á greinilega ekki við milli þeirra og þjóðarinnar. Þessvegna m.a. hafa þeir þjóðina ekki með sér.

Þjóðin, sem borgar brúsann, hefur í ferlinu ýmsu verið leynd þó í raun séu þetta starfsmenn okkar að semja fyrir okkur. Sömu starfsmenn segja okkur svo að leita ekki sökudólga og þykjast sjálfir vera að rannsaka eigin vanrækslu og glappaskot. Bílstjóri sem ekur á ljósastaur og skipstjóri sem strandar fleyi sínu sleppa ekki svona billega. Heldur ekki harðhentur lögregluþjónn eða gjaldkeri sem dregur sér “smápeninga”. Ekki aldeilis.

 

 

Viðskiptavit ?

 

Stundum hefur undirritaður hallast að þeirri skoðun að stjórnmálamenn skorti viðskiptavit. Samningaviðræður eru sérstök tækni – sem lærist af reynslu og meðfæddu innsæi. Viðskiptavit hafa menn eða ekki. Í þessu felst munurinn á að koma út með milliveg, virðingu og óskaddaða vináttu annarsvegar og hinsvegar að að gefast upp og segja bara já. 

 

“Við látum ekki kúga okkur”. Setning sem hefði getað staðið við hlið: “Vér mótmælum allir”. 

 

 

Spurningar til forsætisráðherra:

 

Undirritaður vill nú spyrja forsætisráðherra – og væntir svara innan viku hér í Mbl.

 

1.Hvaða einstaklingar önnuðust viðræður við eftirtalda aðila, hver er menntun þeirra, starfsreynsla núverandi starf og flokkatengsl: Erlend stjórnvöld, IMF, ESB

 

 

2. Hvaða vandræði og vöruskortur blasa við okkur ef við, eins og mörg gjaldþrota fyrirtæki, segðum “Því miður, engir peningar til – við leysum málið, um leið og gagnkröfur okkar - enda verði viðskipti með eðlilegum hætti.

 

3 Mundi okkur í raun skort nokkuð sem við getum ekki án verið? Olíu og lyf, svo dæmi sé tekið má fá víðar en í Evrópu, fisk má selja gegn staðgreiðslu ef evrópskir bankar hafna samstarfi. Eða í öðrum löndum.

 

4. Hversvegna voru grunaðir auðmenn ekki settir í farbann og eignir þeirra frystar?

 

5. Því var fyrstu vikunum eytt í “alþjóðavandann” meðan íslensk alþýða fékk ekkert að vita hvað beið hennar?

 

6. Hvað eru heildarlánin mikil, til hve langs tíma, hvað verða vaxtagreiðslur og annar kostnaður mikill og hvernig nákvæmlega skiptist notkun þessa lánsfjár?

Hvaða skilyrði setja lánadrottnar?

 

7. Ef ríkissjóður seldi öll veiðileyfi, en gæfi þau ekki, hvað mundi það lækka lánsþörf okkar mikið?

 

8. Undanfarnar vikur hafa margir fræðimenn komið fram, talið bótaábyrgð ekki standast – af ýmsum ástæðum - en að við eigum hinsvegar sterka möguleika á bótum vegna hryðjuverkalaga Breta. Hafa allar þessar ábendingar verið afskrifaðar ? Á ekki einu sinni að taka þann tíma sem þarf til að kanna þær til botns ?

 

Að lokum: ESB? Vantar okkur 27 nýja “vini.”?

 

...............................................................................................................................................

BIRT Í MBL. 26.NÓV.2008

 

höf. er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningum 2004 - www.landsmenn.is - baldur@landsmenn.is