OPIÐ BRÉF TIL FORS . . . SVÖR:
Opið bréf til forsætisráðherra, frambjóðenda og kjósenda birtist 17.4.2009 í Mbl. Óskað var svara við spurningum um stærð kreppunnar og áætlanir stjórnvalda og frambjóðenda um lausn þessa mikla vanda. Nú, þegar fáir dagar eru til kosninga eiga kjósendur rétt á að fá spilin á borðið.
EF við fáum það ekki, um hvað erum við þá að kjósa - varla kreppulausnir.
Greinina - hið opna bréf - má finna neðar hér á síðunni. Svör sem berast verða birt hér - undir "fréttir" á hádegi miðvikudaginn 22.4.
LÍTTU VIÐ !
22.4.2009:
Góðir landsmenn,
Eins og fram kemur hér að ofan leitaði undirritaður til ríkisstjórnarinnar og frambjóðenda í opnu bréfi er birtist í Morgunblaðinu þ. 17. þ.m. Og lesa má í greinasafni hér á vefsetrinu.
Þessir aðilar, sem nú sækjast eftir atkvæði okkar í komandi kosningum, voru spurðir hvernig þeir sæju vanda þeirrar kreppu sem nú ríður yfir, hvernig skuldir og skuldbindingar okkar sundurliðast og hvaða áætlanir væru fyrir hendi til að binda endi á ástandið. Allir voru þeir beðnir að senda inn skýrar upplýsingar eigi síðar en á hádegi 21.4 sem síðan yrðu birtar á www.landsmenn.is á hádegi 22.4. - og um leið sendar fjölmiðlum. Þetta kann að virðast stuttur fyrirvari en því frekar má áætla að björgunar-áætlun liggi fyrir, sem stutt er til kosninga og allir þessir aðilar vilja að þjóðin treysti þeim fyrir stjórnartaumunum að þeim loknum.
Það er leitt frá því að segja að ekkert framboðanna notaði þetta tækifæri til að sýna kjósendum að það hefði lausnir á þeim vandamálum sem það vill fá umboð kjósenda til að leysa úr - ekki boðaði heldur nokkurt þeirra “forföll”, bað um lengri frest eða óskaði frekari skýringa á spurningunum.
Aðeins framboðin sjálf geta svarað því hvort þessu veldur áhugaleysi, vanhæfni, annir, þekkingarskortur á því verkefni sem bíður eða eitthvað annað. Hitt vita kjósendur nú, sem marga grunaði áður, að allt tal um hjól fyrirtækjanna og skjaldborg heimilanna er að mestu aðeins það - almennt tal.
Kjósendum hefur ekki verið gefin nein ákveðin, tæmandi áætlun um greiðslu skulda, upphæðir eða bjargráð sem sýna heimilum og fyrirtækjum hvernig og hvenær vandinn verður endanlega leystur. Því síður er ljóst hvað lausn þessa mikla vanda kostar okkur í peningum, lífsskilyrðum eða jafnvel sjálfstæði þjóðarinnar.
Af hendi undirritaðs var hið opna bréf tilraun til að fá stjórnvöld til að sýna vandann - og að þau vissu hver hann er, svo og von um eitthvert - eða öll - framboðanna sýndu að þau skildu vandann til hlítar og biðu upp á góðar, ábyrgar og endanlegar lausnir. Það hefði hjálpað kjósendum að ráðstafa atkvæði sínu.
Þessi tilraun hefur þó ekki verið alveg til einskis - það eitt að engin svör bárust, er svar útaf fyrir sig.
Með góðri kveðju,
Baldur Ágústsson
.............................................
HIÐ OPNA BRÉF, BIRT 17.5.2009
Hæstvirti forsætisráðherra,
Fyrir nokkrum mánuðum taldi fyrirrennari yðar í formannsstóli Samfylkingarinnar nauðsynlegt að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, m.a. þar sem “allt of hægt gengi að koma heimilunum til hjálpar í kreppunni og láta hjól atvinnuveganna snúast”.
Minnihlutastjórn með Vinstri grænum var sett á laggirnar, með stuðningi Framsóknar og kosningar ákveðnar 25. þ.m.
Allar kosningar snúast um stefnu og lofuð viðbrögð flokkanna í þeim málum sem hæst ber. Nú er það að sjálfsögðu “kreppan”. Orð eins og skuldir, ábyrgðir, atvinnuleysi, gjaldþrot og fleiri slík svífa í umræðunni en endanlegt yfirlit um heildarvandann virðist enn skorta - milljörðunum fjölgar og álit sérfræðinga stangast á.
Til að kjósendur geti valið þá sem bjóða upp á raunhæfustu lausnirnar þarf þetta stærsta vandamál aldarinnar að liggja morgunljóst fyrir, en á það skortir mikið.
Því snýr undirritaður sér til yðar, forsætisráðherra, og spyr um “viðskiptaáætlun”, ríkisstjórnarinnar t.d.:
1. Hver er endanleg, samanlögð upphæð “kreppu-útgjalda” og hvernig skiptist hún í:
A. Erlent; skuldir/ábyrgðir/kostnað við lán og kostn. v. uppgjör.
B. Innlent; sama, að viðbættri margskonar neyðaraðstoð.
C. Annað ?
2. Eru uppgjörsnefndir,alþingi og ríkisstjórn nú þegar sammála um hvaða kostnað og kröfur Íslendingum ber að greiða ? Og það sé þegar fullreynt að lögum.
3. Hvernig hyggst ríkistjórn yðar – sem nú sækist eftir endurkjöri – greiða þetta fé:
A. Greiðsluáætlun.
B. Lán eru nefnd, hver er heildarlánsfjárhæð við lántöku ?
C. Hver verður heildarendurgreiðslan með vöxtum og kostnaði.
D. Hvenær verður lokagreiðsla innt af hendi ?
E. Hverjir lána það fé sem þarf og með hvaða kjörum og skilyrðum ?
C. Telja ríkisstjórn og alþingi að fullreynt sé að þetta sé nauðsynleg lánsfjárupphæð og bestu fáanleg kjör ?
4. Hvaða tekjum frá þjóðinni sjálfri er reiknað með í greiðsluáætlun alþingis og ríkisstjórnar árlega – og samtals – að teknu tilliti til eftirfarandi:
A. Hvaða breytingum á sköttum og öðrum greiðslum einstaklinga og fyrirtækja er gengið út frá ?
B. Hvað gerir greiðsluáætlun ráð fyrir að margir Íslendingar flytji frá landinu á næstu árum og hve miklu tapi er reiknað með að það valdi ríkissjóði?
C. Hefur í greiðsluáætlun verið gert ráð fyrir því tapi ?
D. Annað ?
5. Hvaða ráðstafanir – sundurliðað - hefur ríkistjórn og alþingi þegar gert til að:
A. Auka framboð á atvinnu ?
B. Koma í veg fyrir að fjölskyldur missi heimili sín vegna fjárhagsvandræða.
C. Koma í veg fyrir gjaldþrot vel rekinna fyrirtækja ?
Háttvirtu frambjóðendur,
Til að kjósendur geti valið milli frambjóðenda þurfa þeir skýr svör um hvernig viðk. metur stærð vandans og hvernig hann hyggst leysa hann – nákvæmlega og hvenær.
Ofanritaðar spurningar eru því ekki aðeins sendar forsætisráðherra heldur einnig formönnum annarra flokka og framboða - þ.16.4. Þeir eru beðnir að svara öllum spurningunum – þó þannig – að þar sem spurt er um mat og áætlanir alþingis og ríkisstjórnar er að sjálfsögðu átt við mat og áætlanir viðkomandi flokks, td. hver vandinn er og hve stór, hvernig flokkurinn ætli að leysa hann; hvaða ráðstafana flokkurinn muni grípa til, komist hann til valda, til að koma í veg fyrir að fjölskyldur missi heimili sín vegna fjárhagsvanda o.sv.frv
Vegna þess kapphlaups sem oft á sér stað síðustu dagana fyrir kosningar er ekki sanngjarnt að vænta svars stjórnarflokkanna einna opinberlega. Öll svör óskast því send undirr. á neðanskráð netfang, eigi síðar en á hádegi þ. 21.4.2009, og verða öll birt samtímis á hádegi þ. 22.4. á www.landsmenn.is – og í framhaldi af því etv. send fjölmiðlum.
Sérstaklega er þess óskað að svörin séu skýrt sett upp með spurningunum , því svar hvers framboðs verður sett á vefsíðuna eins og það berst. Undirskrift, nafn og kennitala áb.manns þarf að koma fram.
Óski einhver eftir að bæta texta við svar sitt, t.d. nánari skýringum, verður það birt, allt að 1000 slög að lengd.
Ágætu kjósendur,
Fáist ekki annarsvegar svör sem skýra vel stöðu mála og þau verkefni sem krefjast úrlausnar – og hinsvegar hvernig einstakir flokkar og framboð hyggjast leysa þau, er í raun tilgangslaust að halda kosningar. Það er svipað því að gefa veikum manni lyf án þess að vita hvað er að honum.
Hafi það hálfa ár sem liðið er frá bankahruninu ekki nægt flokkunum til að geta nú svarað ofanrituðum spurningum, erum við betur sett með utanþingsstjórn og faghóp sem hefði ákveðinn tíma til að skilgreina stöðuna og hafa síðan kosningar þegar nýjir flokkar og gamlir hafa hana á hreinu og geta hver boðið sína lausn. Þá fyrst er hægt að ætla kjósendum að velja.
Kosning án nákvæmrar lýsingar á því neyðarástandi sem ríkir og valkosta í lausnum gerir lítið annað en festa valdaglaða menn og konur á þingi til fjögurra ára. Á meðan mun vandinn mjög líklega vaxa okkur endanlega yfir höfuð.
Hér gæti reynt á Forseta Íslands – í fleiri en einum skilningi.
Höf. er fv. forstjóri og
frambjóðandi í forsetakosningum 2004
baldur@landsmenn.is
www.landsmenn.is