Frá Hrólfi Hraundal: "ÞAÐ ER ljóst að Jóhanna ætlar ekki að tala fyrir samstöðu Íslendinga með þessu dæmalausa Evrópuþvaðri sínu. Hún ætlar að nauðga okkur með illu inn í þetta stjörnuríki sitt, sem er það eina sem hún horfir á og sér ekkert til hliðanna."

 

ÞAÐ ER ljóst að Jóhanna ætlar ekki að tala fyrir samstöðu Íslendinga með þessu dæmalausa Evrópuþvaðri sínu. Hún ætlar að nauðga okkur með illu inn í þetta stjörnuríki sitt, sem er það eina sem hún horfir á og sér ekkert til hliðanna. Samfylkingin lætur okkur bíða í meira en 80 daga eftir kosningum og svo er haldið áfram að þrasa um Evrópusamband. Öllum sem á horfa hlýtur að vera ljóst að á Íslandi er enn allt í upplausn, þannig að það er varla mikil von um vaxtalækkanir eða annað það sem til bóta mætti horfa fyrir þjóðina. Vinstri grænir stóðu fast á því að hafna Evrópusambandsaðild en þó mátti sjá á Steingrími að hann ætlaði með einhverjum ráðum að komast framhjá því loforði. Sem betur fer þá lítur út fyrir að innan flokksins sé fólk sem ekki ætlar að svíkja kjósendur sína. En þó að Jóhanna sé hvorki stór né þung þá kemur í ljós að hún er þvílíkt þvertré að við hana verður ekki samið, enda haldin einskonar áráttupest.

 

Undarleg rök Mörg rök Evrópusinna fyrir aðildarumsókn, eru að bara með umsókn, þá leysist öll okkar vandamál. Við munum fá flýtimeðferð og allar okkar kröfur muni verða samþykktar, en það gildi bara núna. Vegna þess að einhverjir tilteknir aðilar séu þar innan stjórnar núna, en ekki síðar. Um hverskonar samband er þetta fólk að tala? Meinar það virkilega að þarna ríki einhverskonar einkavinapólitík? Hvernig verður sú einkavinapólitík þegar Tyrkir verða þar inni? Þó að mér hafi ekki hugnast innganga í þetta samband, þá trúi ég ekki að það sé svo rotið sem þetta öfgafólk lýsir. Hvað ætli Bretar segðu ef við fengjum full yfirráð yfir okkar lögsögu en þeir fá aðeins að veiða um ¼ hluta í sinni lögsögu?

 

En það er sama hvað sagt er, Jóhanna er eins og hross með augnhlífar. Á meðan hún rótast áfram með hjólalausan vagninn, þá bíðum við eftir að eitthvað vitrænt fari að gerast, eins og til dæmis að koma hjólunum undir eða setja bjöllur á útrásaruppana. En í því sambandi er rétt að athuga, að við ættum að gæta okkar á útrásarvinum Bessastaðabóndans.

 

Almennrar sáttar þörf

Að troða upp á Íslendinga ofsatrú Jóhönnu á guðina í Brussel gengur þvert á trúfrelsið í landinu. Það er alveg eins með Evrópusambandsaðild og breytingar á stjórnaskrá að það þarf að vera rík sátt um svoleiðis mál og þau verða ekki unnin á heiðarlegan og vitrænan hátt með samfélagið í upplausn. Er virkilega ekki til innan Samfylkingarinnar fólk sem getur komið viti fyrir manneskjuna? Brussel fer ekki neitt og guðirnir þar vilja fá Ísland, en þeim er nokkuð sama um okkur. Það þarf að fara að hætta þessu dæmalausa þvaðri um mál sem vel má bíða. Það minnkar óvissu og svo þarf að fara að framkvæma bráðaðkallandi verk. Annars er lítil von til að virðing og traust aukist okkur til handa.

 

Höfundur rekur vélsmiðju á landsbyggðinni. 

 

Hrólfur Hraundal