Guðrún Sæmundsdóttir skrifar:
Í gegnum alþjóðlega gjaldeyrissjóðinn drottna ESB herrarnir Gordon Brown og félagar yfir íslendingum. Núna fá íslendingar ekki greitt út annan hluta láns AGS, fyrr en þeir gangast við því að undirgangast ICEsave klafann. Völd AGS/ESB eru mikil hérlendis og til að herða þumalskrúfuna enn frekar banna þeir stýrivaxtalækkun.
Hvað ætlum við að láta bjóða okkur þetta lengi? Til að leysa ICEsave deiluna er eina ráðið að bjóða kröfuhöfum eignir Landsbankans erlendis, sem að Jóhanna Sig. heldur fram að dekki 95% af skuldunum, það væri síðan kröfuhafanna að koma eignunum í verð.
Losum okkur undan AGS/ESB pyntingum og komum þjóðlífinu í gang með lækkun á stýrivöxtum, brettum upp ermar og spýtum í lófana, við höfum fullt af tækifærum til að rétta okkur við og hér nefni ég nokkur.
Fyrir um þremur áratugum keyptum við olíu af Rússum fyrir síld. Vöruviðskipti væri góð leið núna á meðan að við erum að vinna okkur uppúr kreppunni. þar eru möguleikar á að nýta okkar vel menntaða og reynslumikla banka/viðskiptafólk í að afla alls innflutnings í vöruviðskiptum. Þau hagnast með því að stofna greiðslumiðlunarfyrirtæki sem tekur prósentur af viðskiptunum. Ríkið getur hvatt til vöruviðskipta með því að lækka innflutningsgjöld á öllum innflutningi sem greiddur er með íslenskum vörum.
Við getum hæglega stundað vöruviðskipti t.d. með því að kaupa allan pappír bæði WC og skrifstofupappír fyrir sjúkrahús skóla og stjórnsýsluna af Svíum eða Finnum í skiptum fyrir fisk og ylræktarmatvæli sem þeir gætu síðan nýtt á sínum sjúkrahúsum og skólum. Pappírsútflutningur er Svíum og Finnum mjög mikilvæg útflutningsgrein og núna í kreppunni yrðu þeir fegnir að geta tryggt sér með þessum hætti íslensk pappírsviðskipti.
Einnig gætum við fengið öll lyf frá norðurlandaþjóðum fyrir heilbrigðisstofnanir og tryggingaþega í samskonar vöruviðskiptum við Dani, Svía og Finna. Með þessu móti myndum við bæta rekstur ríkisspítalanna sem og efla atvinnu og verðmætasköpun hérlendis.
Nú og svo má nýta það hvalkjöt sem ekki selst fyrir peninga, í vöruviðskiptum við Japani. Það væri fínt að fá þaðan bíla og tæknivörur fyrir hvalkjöt.
Við eigum einnig að pakka vatni í neytendaumbúðir fyrir arabalöndin og Kína. Við getum leitað samstarfs við þarlend fyrirtæki um að pakka undir þeirra merkjum eða þá að fá þarlenda markaðssérfræðinga til að hanna vatnsumbúðir, en Arabar og Kínverjar hafa aðrar ímynd af fersku vatni heldur en jökla og blá fjöll, einsog við höfum hingað til nýtt við markaðssetningu vatns. Við vatnspökkunina gætum við jafnvel nýtt aflögð frystihús og mjólkurvinnslur ásamt gosverksmiðjum til að byrja með. Vatnsútflutningur til Kína og Arabalandanna myndi til viðbótar pökkunarstörfunum skapa mörg hundruð störf vegna umsýslu við flutninga og hafnarvinnu, ásamt störfum við viðskipta og fjármálahlið þessa útflutnings.
Samkvæmt upplýsingum frá Eimskip er flutningskostnaður á einum lítra af vatni til Sameinuðu Furstadæmanna kr. 6.60 ef við slyppum við markaðssetningu með því að pakka undir arabískum merkjum værum við ábyggilega með áhugavert \"konsept\" .
Einn lítri af Evian vatni kostar 60 krónur útúr búð í Kína. Í vatninu felast miklir möguleikar og ætti að vera frumkvöðlum tilefni til að vinna viðskiptaáætlun og fá inn fjárfesta.
Á meðan að við erum utan ESB megum við niðurgreiða orku til gróðurhúsanna og iðnfyrirtækja þeim tengdum. Við gætum framleitt allt hráefni í pakkasúpur og sósur til útflutnings, t.d. tómatduft þurrkað grænmeti eins og lauk gulrætur sveppi aspas og einnig þurrkaða ávexti eins og rúsínur og sveskjur. Súpa er sannkölluð kreppufæða og það væri athugandi að framleiða hráefni fyrir Maggi, Toro og Knorr.
Vínberjaræktun gæfi skemmtilega möguleika í rauð og hvítvínsgerð, þá ættum við að vera orðin sjálfbær með nánast allt áfengi. En nú þegar framleiðum við vodka og bjór hérlendis.
Nýleg sænsk rannsókn sýnir að 70% vínberja á ESB svæðinu eru menguð af skordýra/illgresiseitri. Hvaða áhrif hefur slíkt eitur á heilsu okkar og barnanna okkar? Allt innflutt grænmeti og ávextir er mengað af þessu. Er þetta eitur krabbameinsvaldandi? Auðvelt er að rækta vínber í gróðurhúsum ásamt kivi, bönunum og jarðaberjum. Síðan væri hægt væri að nýta aflögð frystihús til vinnslu eða frystingu ávaxta og grænmetis.
Núna verðum við að taka höndum saman og rífa okkur uppúr þessari kreppu!
Áfram Ísland!