Í dag fögnum við fullveldi okkar sem sjálfstæðrar þjóðar – einhverrar minnstu þjóðar í heimi. Þjóðar sem í sjöhundruð ár var undir aðra seld, þjóð sem byggði hrjóstruga eyju á mörkum hins byggilega heims. Forfeður okkar og formæður háðu baráttu við grimmt veðurfar og oft enn grimmari landstjóra hinna erlendu valdhafa. Náttúruhamfarir, farsóttir og fátækt tóku sinn toll. Stundum blikaði á sverð eða atgeir þegar höfðingjar urðu ósáttir eða leituðu hefnda. Þá fór svo að sumir stóðu ekki upp úr valnum, komu fallnir heim, þvert um hestbak, og þá “þurfti” aftur að hefna.

 

Í dag erum við Íslendingar tvisvar sinnum fleiri en við vorum árið 1944, árið sem við fengum fullt frelsi. Þrátt fyrir erfiðar aldir höfum við náð þróuðustu þjóðum heims í lífskjörum, ef frá eru taldir tímabundnir erfiðleikar núna. Mannauður er mikill. Við erum vel menntuð þjóð, tæknivædd eins og best verður, jafnt í heilbrigðisþjónustu sem samgöngum, fjarskiptum sem afþreyingu og menningarmiðlun. Landið gefur okkur hita og rafmagn, fisk og aðstæður fyrir margskonar landbúnað. Við getum verið sjálfum okkur nóg um flest sem við þurfum. En það sem mestu skiptir er að við erum frjáls. Frjáls til að stjórna landi okkar og lífi.

 

Frjáls til að leita hamingjunnar með hverjum þeim hætti sem við kjósum. Við erum enn með minnstu þjóðum heims – sem er hreint ekki svo slæmt. Það gefur okkur sveigjanleika og þá fjölskyldutilfinningu að geta tekið á saman. Fundið að vandi eins er vandi allra. Við höfum okkar eigið “ástkæra, ylhýra mál” og eigum sterkar rætur í þúsund ára sögu, menningu og trú.

 

Í dag er góður tími til að hugsa. Horfa yfir árin og aldirnar og hugsa um hvernig þjóðfélag við viljum eiga. Líta uppúr vandamálum líðandi stundar, horfa fram á veginn og velta því fyrir okkur hvert við viljum stefna. Viljum við frelsi eða viljum við fela öðrum forræði okkar ? 

 

Höfum við heilbrigt stolt til að rækta menningu okkar, tungumál og siði eða viljum við renna saman við aðrar þjóðir og þá fjölmenningu sem fylgir alþjóðahyggjunni ? Sjáum við kosti þess að vera lítil þjóð við ysta haf þar sem gnótt rýmis gefur okkur svigrúm til að gera það sem okkur lystir og færir okkur nær náttúrunni ? Kunnum við að meta kosti þess að hafa ekki her og geta haldið okkur “langt frá heimsins vígaslóð”? Höfum við löngun til að tryggja afkomendum okkar öryggi, menntun og vinnu ? Erum við tilbúin til að sníða okkur stakk eftir vexti og meta, eða endurmeta, hvað er okkur raunveruleg verðmæti og temja okkur þann lífsstíl sem þarf til að eignast þau ? Þetta er okkar land og því fylgir sú ábyrgð – og réttur - að taka ákvarðanir.

Spurningarnar eru margar og þeim þarf að svara. Annars fljótum við að þeim ósi er aðrir ákveða.

 

Í dag er gott að tala við Íslendinginn í brjósti okkar – hlusta á hjartað.

 

Gleðilega þjóðhátíð !

Baldur Ágústsson