Eins og aðrir Íslendingar er undirritaður seinþreyttur til vandræða, eins og sagt er - en nú er

mælirinn fullur.

Því trausti sem þjóðin sýndi Samfylkingu og Vinstri Grænum í síðustu kosningum hefur verið

gróflega brugðist. VG hafa snúist í hálfhring í Icesave málinu. Formaður þeirra, Steingr. J.

Sigfússon fjármálaráðherra, taldi áður að Icesave reikningana ætti ekki að borga - og

Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ætti ekki að hleypa hér inn og af að þiggja, hefur nú gerst slíkur

umskiptingur að það hálfa væri nóg. Af hverju?. Án þess að nokkur endanleg “viðskiptaáætlun”

liggi fyrir vill hann, einhverjir flokksfélagar hans og Samfylkingin rjúka til og greiða þessa reikninga

Landsbankans með samningi við Breta og Hollendinga. Þessar vinaþjóðir okkar hafa ekki sýnt

okkur þá kurteisi að sækja þetta umdeilda mál fyrir dómsstólum, heldur verið með hótanir í okkar

garð - ef trúa má stjórnvöldum hér. Þeir virðast hafa sameinað ESB löndin gegn okkur og með

þeirra stuðningi fengið Alþjóða gjaldeyrissjóðinn til að taka þátt í að kúga okkur til að greiða hinar

umdeildu skuldir.

Steingrímur fjármálaráðherra veifar tölum - sem að vísu fara hækkandi með hverjum deginum - og

finnur út með umdeildum reikniaðferðum að við ráðum við að greiða Icesave. Það er hæpið enda

reiknað meiri tekjuafgangi en við höfum séð í mörg ár. Það hefur t.d. lengi ekki verið hægt að

greiða öryrkjum og öldruðum sæmandi framfærslu. Icesave eigum við hinsvegar að skrifa undir, þó

óvissan blasi við hverjum sjáandi manni. T.d. stendur nú yfir heimskreppa sem enginn veit hvernig

muni leika okkur hvað snertir útflutnings-verð og -möguleika. Fjöldi fyrirtækja á Íslandi er farinn í

gjaldþrot, sem dregur úr allri framleiðslu og leiðir til vaxandi atvinnuleysis, sem aftur leiðir til

lækkandi skattgreiðslna og rýrari ríkissjóðs. Íslendingar flytjast úr landi, ein fjölskylda á dag, þar

tapast landar okkar, hæfileikar og skattgreiðslur. Hefur ríkisstjórnin reiknað með því? Loks kórónar

ráðherrann málið með því að segja að Icesave skuldbindingarnar séu ekki það hættulegasta !

Hvað er það hættulegasta þá og hvernig eigum við að ráða við það, eftir að hafa bundið okkur í

Icesave ? Er það etv. trúnaðarmál ? Það lítur út fyrir að einhverjir hafi gleymt að áhættumeta og

forgangsraða.

Vinnubrögð stjórnarflokkanna eru með eindæmum. Leynimakk veður uppi og flest málinu

viðkomandi telst - eða taldist - trúnaðarmál. Trúnaðarmál ! Eitt og eitt viðbótarskjal er svo

afhjúpað, stundum eftir samráð við hina erlendu viðsemjendur. Hvílík lágkúra. Veit þetta fólk ekki

hver borgar því laun ? Ekkert, ég endurtek - ekkert, er leyndarmál fyrir Alþingi og þjóðinni sem

verið er að semja fyrir. Hver á trúnað ríkisstjórnarinnar, útlendingar eða þeirra eigin þjóð sem hefur

treyst þeim fyrir fjöreggi sínu?

 

Reynt var að fá Alþingi til að samþykkja Icesave án þess

að sjá leyndarskjölin. Svo er þjóðhollu fólki á þinginu

fyrir að þakka að það tókst ekki. Þökk sé því.

Síðan reyndi stjórnin að vísa til þess að greiðslu hefði

verið lofað af fyrri stjórn, sem væntanlega vísar til

viðræðna fyrrverandi fjármálaráðherra og

seðlabankastjóra við erlenda valdamenn. Því verður

seint trúað að þar hafi verið um skuldbindingu að ræða

m.a. vegna þess að til þess höfðu þeir ekkert umboð.

- Og, hefur einhver séð þessa “skuldbindingu” og

metið gildi hennar ? Nei afsakið, hún er víst

trúnaðarmál !

 

Svo er beitt hræðsluáróðri: “Ísland mun einangrast í menningar- mennta- vísinda-legu og

viðskiptalegu tilliti”. Rugl. Það verður alltaf hægt að senda fólk til náms og taka við erlendum

nemendum. Listamenn og vísindamenn eru hafnir yfir landamæri og milliríkjadeilur. Meira að segja á

 

meðan kalda stríðið stóð sem hæst höfðu vísindamenn í

 

 

Sovétríkjunum samstarf við starfsbræður sína í Bandaríkjunum.

“Ísland verður Kúba norðursins”. Hvaðan koma þær

upplýsingar ? Hvað felst í því ? Hverju hafa vinaþjóðir okkar

nú hótað ? Upp á borðið með það - skriflegt og undirritað. Eða

er þetta aðeins túlkun ríkistjórnarinnar á augnatilliti eða

hálfkveðnum vísum yfir kaffibolla í útlöndum ? Eða hræðsla ?

Eða hrein ósannindi ?

Hrein ósannindi voru það a.m.k. þegar þjóðinni var sagt að

Norðurlöndin vildu ekki lána okkur fé fyrr en gengið hefði

verið frá Icesave samningunum. Í nokkrar vikur eftir að frétt

birtist í Mbl. 9.6.2009 um að svo væri ekki, voru stjórnvöld

enn að segja þjóð sinni að Norðurlönd gerðu þessa kröfu.

Nei, því miður, það er ekki þjóðhollusta sem ræður för og orðavali þessarar ríkisstjórnar og

meðhjálpara þeirra a.m.k. ekki þeirra sem þessi mál heyra undir. Hjá þeim er efst á blaði að styggja

ekki valdamenn í Evrópu. Það er alveg sama hvort við köllum það undirlægjuhátt, hræðslu, löngun

í ESB eða eitthvað annað, þeir setja þjóð sína ekki í fyrsta sæti. Nú má fórna þjóðinni fyrir stóla í

Brüssel eða Reykjavík - nú eða fyrir aðgang að ESB sem ekki er þó einu sinni víst að hún vilji. Það

eru ekki allir haldnir þörf fyrir að skríða undir væng stórveldis. Þörf okkar fyrir stærri gjaldmiðil má

leysa fyrr og með minni útlátum og fullveldisfórnum en ESB býður uppá. Þeir vilja þó gjarnan

gleypa okkur og beita til þess bæði smaðri og gylliboðum - auk sálfræðilegrar brellu sem margir sjá

í gegnum.

Staðreyndin er sú að við höfum ekki margt að óttast.

Við höfum hita,rafmagn, mörg þúsund tómar íbúðir, menntað fólk til allra starfa, nær allar

matvörur skólakerfi og heilbrigðiskerfi. Við höfum landrými,vatn og orku sem aðrar þjóðir öfunda

okkur af. Það fáa sem við þurfum erlendis frá munum við finna, ef ekki í Evrópu þá annarsstaðar.

Ferðamenn munu áfram vilja skoða Ísland og kaupendur finnast að góðum fiski og annari matvöru.

Kjósi Evrópuþjóðir ekki eiga viðskipti við okkur vegna þess að við viljum ekki skuldbinda okkur til

að greiða umdeildar bætur, með fé sem við ekki munum eiga svo öruggt sé, þá verður svo að vera.

Við getum ekki stjórnað því hvernig aðrir koma fram við okkur - aðeins hvaða áhrif við leyfum því

að hafa á okkur. Munum það.

Áríðandi ábending til þingmanna: Áður en nokkuð er undirritað skyldi bjóða hingað tveim

bandarískum mönnum og hlusta á þá. Þetta eru próf. Hudson og Perkins. Sá fyrrnefndi gefur okkur

alveg nýja sýn á hvað er að gerast og hvernig hægt er að bregðast við. Perkins aftur á móti útskýrir

vel hvernig sjóðir og stórfyrirtæki haga sér gagnvart illa settum þjóðum. Sjálfur vann hann við að

semja þjóðir niður á hnén og hafa síðan af þeim auðlindir og “infrastructure”. Hann hefur skrifað

bók um þessa viðskiptahætti: “Confessions of an economic hitman”. Hudson og Perkins má sjá og

heyra, hlið við hlið, á blog-síðu Láru Hönnu Einarsdóttur: http://larahanna.blog.is/blog/larahanna/

Nú sem aldrei fyrr þurfum við Íslendingar að standa saman. Látum heyra í okkur.

 

Sendum öll tölvupóst til þingmanna; nöfn og netföng þeirra eru á vef Alþingis:

http://www.althingi.is/vefur/addr-s.html?teg_starfs=A

 

Baldur Ágústsson

fv. forstj. og forsetaframbjóðandi.

 

Netfang: baldur@landsmenn.is - Vefsetur: landsmenn.is

 

Baldur Ágústsson