-reyndar bara í sjónvarpinu eins og meirihluti þjóðarinnar. Þessi spjallþáttur var mjög athyglisverður fyrir margra hluta sakir. Fyrir nú utan það að við bærum ekki ábyrgð á Icesave sem er náttúrulega lykilatriði og margir hafa haldið fram áður þá voru orðaskipti spyrlanna og Davíðs einkar athyglisverð.
Í spurningum sem að honum var beint mátti nefnilega heyra árangur þess heilaþvotts sem staðið hefur yfir af hálfu stjórnvalda í tæpt ár. Orðalag eins og nú vilja Hollendingar ekki fara með málið fyrir dómstóla og nú eru Bretar ósáttir við . . kom upp aftur og aftur. Þetta er auðvitað rétt en ekki kjarni málsins eins og Davíð reyndi margsinnis að útskýra með litlum árangri.
Ef Pétur heldur því fram að Páll skuldi sér milljón, en Páll er ekki sammála, hefur Pétur ákveðinn lagaleg úrræði; hann fer í innheimtumál fyrir dómstólum. Þar útskýrir hann hvernig skuldin varð til, leggur fram gögn um það að Páll sé skuldarinn og krefst greiðslu. Þetta er hans verk. Sönnunarbyrðin hvílir á þeim sem gerir kröfuna þ.e. Pétri. Það er ekki verk Páls að að afsanna að hann skuldi milljónina heldur verk Péturs að sanna að hann geri það. Því síður er það skylda Páls að greiða Pétri hina umdeildu fjárhæð bara af því að Pétur vill það.
Okkur getur þótt leitt að ESB löndin vilji frekar kúga okkur en það þýðir ekki að við þurfum að fallast á sjónarmið þeirra. Kúgun, hvers eðlis sem hún er, er reyndar oft merki um að viðkomandi telji ekki líklegt að hann fái kröfur sinar samþykktar fyrir dómstóli.
Stjórnvöld.
Íslensk stjórnvöld eru áfjáð í að mæta kröfu Breta og Hollendinga hið fyrsta. Það bendir til að það sé maðkur í mysunni. Þar getur margt komið til.
Auðvitað er það tæknilegur möguleiki að þau telji þetta besta kost fyrir okkur en því miður eru aðrar ástæður líklegri.
Það er áberandi þáttur í fari sumra íslenskra stjórnmálamanna að hafa einstaka ánægju af að hitta og eiga einhverskonar samstarf við erlenda stjórnmálamenn. Oft er þetta kallað að tilheyra fjölskyldu þjóðanna, taka þátt í alþjóðlegu samstarfi o.sv.frv. Auðvitað er sjálfsagt að eiga gott samstarf við aðrar þjóðir. Við verðum hinsvegar að gera okkur ljóst að við við verðum aldrei jafnokar þeirra á öllum sviðum þó ekki væri nema vegna smæðar okkar. Það er leitt að þurfa að segja það en þá grípa sumir stjórnmálamenn okkar oft til undirlægjuháttar gagnvart útlendingum. Það er eins og þeim liggi einhver ósköp á að samsinna þeim, fara þeirra leiðir bókstaflega sleikja sig upp við þá.
Ekki aðeins er þetta ekki samboðið okkur heldur er íslenskur almenningur látinn bíða á meðan. Það liggur meira við að halda sátt og vinskap við útlendinga en tryggja vinnu, mat og húsnæði fyrir Íslendinga okkar eigin bræður og systur.
En því miður er stundum annað á bakvið en einföld þátttaka í fjölskyldu þjóðanna. Stundum eru hagsmunir einstaklinga og sérstök áhugamál látin ráða. Margir hafa þegar sagt að stjórnvöldum sé svo í mun að koma Íslandi í ESB að jafnvel Icesave skuldin skuli nú lögð á þjóðina til að styggja ekki áhrifamiklar þjóðir þar ytra. Samt er ljóst að mörg ár munu líða þar til hin eftirsóknarverða Evra fæst, því fyrst verðum við að koma fjárhag okkar á réttan kjöl sem ekki verður auðvelt með Icesave á bakinu. Það blasir því við að okkur liggur ekkert á að láta innlima okkur í ESB.
Þegar blind löngun og minnimáttarkennd er farin að stýra málum okkar, gegn okkur sjálfum, er mál að stíga á bremsuna. Hér eru stjórnvöld farin að leika sér að fjöreggi þjóðarinnar sem fótbolti væri - og allt lagt undir.
Hvaða hagsmunir ?
Hægt er að gera langan lista um hvaða hagsmunir eru hér teknir fram yfir þjóðarhag. Sumir gera sér vonir um frama í Brüssel, aðrir fjárhagslegan ávinning, enn aðrir vilja sýna pólitískum andstæðingum hver hafi völdin o.sv.frv.. Ekkert af þessu verður þó sannað, a.m.k. ekki fyrr en það er of seint. Það eina sem við getum gert er að hefja okkur upp fyrir persónulega einstaklingshagsmuni, styrkja samstöðu þjóðarinnar og standa vörð um hagsmuni hennar. Þeir stjórnmálamenn sem geta ekki látið þjóðarhag ráða gerðum sínum eiga að vera menn til að stíga til hliðar og láta ekki eigin blindu skaða þjóð sína.
Slíkir eru menn að meiri.
Að lokum.
Ég get ekki lokið þessum pistli án þess að nefna að í áratugi, meðan ég rak fyrirtæki, átti ég mikil samskipti við m.a. Breta og Hollendinga. Aldrei rak ég mig á annað en fyllsta heiðarleika, hjálpsemi og greiðvikni. Enn á ég vini frá þessum tíma í báðum þessum löndum og góðar minningar um gagnkvæmar heimsóknir og traust. Ég hygg að margir aðrir Íslendingar hafi sömu sögu að segja. Það hryggir mig því að fáeinir bankaræningjar hafi getað spillt vinskap þjóðanna. Hvorki við Íslendingar, Hollendingar né Bretar eigum það skilið.
Eins og málið hefur hinsvegar þróast er það hlutverk alþingis að sjá til þess að það sendi ekki þjóðina á vergang og hafna Icesavekröfunni. Misfarist það lítur þjóðin til Forseta Íslands og væntir þess að hann skjóti málinu til þjóðarinnar.
Það er lýðræði.
Baldur Ágústsson