BALDUR ÁGÚSTSSON
Það er dapurt að horfa á ykkur, trúnaðarmenn Íslendinga, að störfum á alþingi nú þegar þjóð ykkar stendur frammi fyrir mestu vá sem hér hefur barið að dyrum um aldir. Þegar allt hefur verið skoðað stendur uppúr barátta um völd, ráðherrastóla og ESB. Umræðan og fréttirnar snúast nú um hvort ríkisstjórnin fellur þegar það sem skiptir máli er hvort þjóðin stendur. Á sama tíma og fullveldi þjóðarinnar, fjárhagsleg staða og menning er í stórhættu, er baktjaldamakk og þrýstingur á þingmenn að nota atkvæði sitt til að bjarga eða fella ríkisstjórnina. Framganga alþingis er farin að minna á Neró keisara sem mun hafa spilað á fiðlu meðan Róm brann - enda veill á geði.
\"VÖLDIN YKKAR\"
Hefur ykkur nokkuð dottið í hug að líklega stendur flestum á sama hverjir halda um valdataumana, ef þeir aðeins einbeita sér heilshugar að þörfum þjóðarinnar, og hætta valdabröltinu og undirlægjuhætti við Evrópuþjóðirnar. Að næsta bylting verði ekki krafa um að sitjandi stjórn fari frá, heldur að allir þingmenn fari heim og þjóðstjórn verði sett í valdastólana.
ICESAVE
Mikið hefur ríkisstjórnin og sumir þingmenn reynt að fá meirihluta alþingis fyrir því að veita ríkisábyrgð á greiðslu hina umdeildu Icesave reikninga undanfarna mánuði. Beitt hefur verið þrýstingi, skjöl falin og vitnað í fyrri gjörðir embættis- og stjórnar-manna. Það skyldi þó ekki henta stjórnvöldum að sökkva þjóðinni í skuldir, sem ESB síðan bjargar okkur úr gegn hagstæðum aðildarsamningi ?
1. Stjórnvöld segja: Íslendingar verða að standa við skuldbindingar sínar til að njóta trausts og vera þátttakendur í samfélagi þjóðanna.
2. Óraunhæft:
Í fyrsta lagi er ekki víst að Icesave falli undir það að vera skuldbinding. Um það deila fræðimenn, innlendir sem erlendir, og sýnist sitt hverjum. Eðlilegast væri að sjálfsögðu að leggja málið fyrir dómstól. Í öðru lagi: Traust sem glatast, endurskapast ekki með því að borga það sem ESB þjóðirnar sjá sem eðlilega kröfu á okkur. Til að borga þetta fé þurfum við svo að taka stór lán raunverulega langt fram yfir raunhæfa greiðslugetu okkar. Við það hrapar lánshæfiseinkunn okkar niður á botn. Fáir ef nokkrir vilja þá lána okkur fé og aðeins á verstu kjörum. Í a.m.k. mannsaldur verðum við hornreka, þjóðin sem barst á í ríkidæmi verður fátæklingarnir í ESB. Náttúruauðlindir okkar munu liggja undir ásókn og velferðarkerfið drabbast niður. Lífsgæði verða svipur hjá sjón og vegna smæðar, verða áhrif okkar í ESB nær engin. Ísland verður nýlenda, hráefnisuppsretta - þjóðin leiguliðar og vinnuhjú.
3. Ógeðfellt: Nú skal öllu fórnað til að styggja ekki Evrópuherrana. Með skuldaklyfjum á afkomendur okkar skal keyptur aðgöngumiði að ESB - sem óvíst er hvort þjóðin vill yfir höfuð ganga í enda hefur meirihluti ykkar þingmanna hafnað því að hún fái að ráða. Ekki eru vinnubrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart alþingi betri: U.þ.b. vikulega koma fram nýjar upplýsingar m.a. falin trúnaðarmál - sem ekki átti að leyfa ykkur þingmönnum að sjá. Þið áttuð bara að samþykkja. Þökk sé ykkur sem höfnuðuð því. Gagnvart útlendingum er lágkúran slík að íslensk stjórnvöld ráðfærðu sig, meira að segja, við þá, um hvort og hvernig væri best að sýna alþingi trúnaðarmálin.
Hvað sem forsætisráðherra kýs að segja okkur þá hanga Icesave, ESB og AGS saman. Um leið og við látum af ESB þráhyggjunni og horfumst í augu við hættur og gagnsleysi aðildar næstu tíu árin, fer pressan af Icesavemálinu. Sá samningur sem alþingi hefur verið að fjalla um var árangur samningafunda. Honum á einfaldlega að hafna. Vilji skuldareigandur krefja okkur um greiðslu hinnar meintu skuldar eru til lögformlegar leiðir til þess. Það er ekki hlutverk okkar að leysa þetta vandamál þeirra meðan Róm brennur hér heima.
Þjóðin var hrædd með því að landið yrði Kúba norðursins og alger einangrun frá öðrum þjóðum blasti við.
Þó forsætisráðherra hafi ekki svarað bréfum frá ritara og fleirum hingað til sjá Mbl. og landsmenn.is - þá krefst undirritaður nú opinbers svars við eftirfarandi spurningu, fyrir afgreiðslu Icesave frá alþingi:
Nákvæmlega hverju hafa erlendar ríkisstjórnir raunverulega hótað okkur ef við ekki greiðum Icesave. Fyrir hverju erum við að gefast upp? Opinbert svar óskast, stutt undirrituðum bréfum frá þeim aðilum. Fáist það ekki er óhætt að líta á þetta sem heimagerðan hræðsluáróður - og hann heldur ósmekklegan.
Til viðbótar Icesave, eru svo bankaránið og fréttir frá rannsóknarnefnd alþingis um að niðurstöður hennar verði birtar í nóvember og verði það: Verri fréttir en nokkur nefnd hefur þurft að færa. Þetta er ekki einu sinni rétti tíminn til að spá í Icesavemálið - eða viljum við ekki sjá heildarmyndina áður en við bindum okkur ?
ÞINGMENN
Undirritaður vill benda ykkur á einkar athyglisverða grein eftir lagaprófessor emeritus, Björn Þ. Guðmundsson, í Mbl. þ. 12.8.2009. Þar talar maður þekkingarinnar.
En er nú ekki tímabært að viðurkenna að þegar á vaxandi heildarskuldir er litið og tillit tekið til fallinna fyrirtækja, spár rannsóknanefndarinnar og brottflutnings vinnandi fólks þá yrði framtíð okkar byggð á hengiflugi? Þegar í slíkt stefnir er nauðsynlegt að kunna að sníða sér stakk eftir vexti, brjóta odd af oflæti sínu, þora að segja nei, sleppa því að borga óstaðfestar skuldir sem við hvort eð er munum ekki ráða við, hætta að berast á í samfélagi þjóðanna og snúa okkur að eigin þjóðfélagi, laga það og þrauka - fullvalda þjóð í besta landi í heimi. Reykjavík, 14.8.2009
Baldur Ágústsson
Höf. er fyrrverandi forstjóri og frambjóðandi í kosningum til forseta árið 2004
baldur@landsmenn.is
www.landsmenn.is