Eftir Gunnar Skúla Ármannsson lækni

 

ALÞJÓÐAGJALDEYRISSJÓÐURINN er byrjaður að setja klærnar í holdið. Boðaður er niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og þar með á Landspítalanum. Rætt er um 9% niðurskurð á LSH árið 2010 og það gæti þýtt að segja þyrfti upp 4-500 manns um leið og fjárlög landsins öðlast gildi. Hvíslað hefur verið um frekari niðurskurð næsta sumar. Ljóst er að árin 2011 og 2012 þarf að skera jafn mikið niður og árið 2010, eða jafnvel meira. Það stefnir í að 700-1000 manns verði sagt upp á LSH fyrir lok árs 2013. Það eru nærri 20% af 5000 manna liðsafla Landspítalans. Meðan Ísland fer eftir prógrammi AGS mun þetta gerast.

 

Ef við könnum sögu AGS þá er hún ekki góð. Þau lönd sem hafa lotið stjórn hans hafa upplifað mikinn niðurskurð á velferðarkerfinu. Stefna þeirra hefur leitt af sér lækkun launa, atvinnuleysi og gjaldþrot heimila og fyrirtækja. Hagur almennings í þessum löndum hefur versnað verulega, sjúkdómar og dauðsföll aukist.

 

Við skulum líta til nágranna okkar í Lettlandi. Þeir fengu, eins og við, auðveldan aðgang að lánsfé. Aðallega frá sænskum bönkum. Úr varð mikil bóla sem síðan sprakk. Núna er þar kreppa og sænsku bankarnir vilja fá skuldirnar endurgreiddar með vöxtum. AGS er mættur á staðinn til að sjá til þess að skuldirnar séu greiddar til baka með niðurskurði og skattpíningu. Laun kennara voru lækkuð um 25% 1. september síðastliðinn. Skattar hafa hækkað. Nú þegar er búið að loka 36 skólum og 13 sjúkrahúsum. Komugjöld hafa aukist. Heilbrigðisráðherrann hefur jafnvel stungið upp á því að greiða eingöngu fyrstu tvo legudagana en síðan greiða sjúklingarnir afganginn.

 

Forstjóri gasfélagsins er búinn að gefa það út að ef reikningar verði ekki greiddir verði lokað fyrir gasið í vetur. Ríkisstjórn Lettlands reynir eftir bestu getu þessa októberdaga að slást við AGS. Lettar eru reiðubúnir að skera niður um 275 milljónir latta en AGS krefst 500 milljóna niðurskurðar á næsta ári. Lettar hafa staðið upp í hárinu á AGS nokkrum sinnum en ekki haft erindi sem erfiði.

 

Ísland á ekki fyrir skuldum sínum og því munu koma til meiri lán frá AGS í náinni framtíð. Afleiðingin af því verður afnám þeirrar heilbrigðis- og félagsþjónustu sem við höfum þekkt hingað til. Í öðrum löndum sem AGS hefur stjórnað hefur millistéttin snarminnkað, fátækt aukist og örfáir verið ríkir. Er þetta það sem við viljum? Er svona mikilvægt að greiða skuldir óreiðumanna, skuldir sem þú og ég vissum ekkert um fyrr en þær fóru fram yfir eindaga?

 

Nei, segi ég. Lýsum yfir einhliða greiðslustöðvun í 5-10 ár. 27 ríki hafa gert það á síðustu 30 árum. Ræðum við lánardrottnana og semjum um skuldirnar til langs tíma og niðurfellingu á hluta þeirra. Notum andrýmið til að byggja upp heilbrigt atvinnulíf sem skilar afgangi í kassann og er að öðru leyti sjálfbært.

 

Gunnar Skúli Ármannsson, læknir