ég hef, eins og margir aðrir, skrifað ykkur áður vegna Icesave. Ég hef ekki legið á þeirri skoðun minni að svo mörg álit fróðra manna hvetji til að ekki sé greitt, að lágmark sé að Bretar og Hollendingar sanni og sæki sitt mál fyrir dómstóli - og þá væntanlega í Reykjavík.
Vel má vera að þessar þjóðir þvælist þá fyrir okkur í viðskiptum en fráleitt er að halda að allar ESB þjóðirnar - hvað þá aðrar þjóðir - telji stætt á að berja og svelta smáþjóð til hlýðni fyrir það eitt að vilja að ágreiningur við stórþjóðir verði leystur fyrir dómsstóli. Það mun ekki bæta orðspor þeirra á heimsvísu, sérstaklega ef við skýrum vel bankahrunið/ránið, ágreininginn, fámenni Íslands í samanburði við skuldarupphæðina, sem er ekki mikið fé í augum stærri þjóða en allir sjá að getur riðið smáþjóð að fullu.
Alþingi samþykkti Icesave með ákveðnum skilyrðum. Þeim vilja þessar tvær þjóðir ekki taka. Við eigum ekki að lítillækka okkur og eyða tíma í að eltast við þessar þjóðir til að \"leita lausna\". Það er þeirra að sækja málið. Þjóðin hefur ekkert að óttast, síst af öllu ósannaðan hræðsluáróður. Enn erum við fullvalda þjóð - engin þjóð mun ráðast inn í landið og gera \"fjárnám.\"
Við þurfum ekki að óttast tal um að við verðum \"Kúba norðursins\". Við eigum einstakt land og getum að lang mestu lifað af því - það sem á vantar eins og sum lyf munum við fá utan ESB ef ekki innan og greiða með þeim gjaldeyri sem við öflum með útflutningi og erlendum ferðamönnum. Olíu og benzín er líklegt að Rússar séu tilbúnir selja okkur - jafnvel lána eftir þörfum. Samskipti og verslun Íslendinga og Rússa á sér langa og jákvæða sögu.
Álit annarra þjóða á Íslendingum mun vaxa ef við höfum kjark til að spyrna við fótum og krefjumst eðlilegrar málsmeðferðar og neitum að láta berja okkur og hræða til hlýðni.
Ég skora á Alþingi að vísa Icesave þegar frá og snúa sér að því að tryggja gang fyrirtækja og skjaldborg heimilanna sem nú hefur verið fullan meðgöngutíma á teikniborðinu.
Þær raddir heyrast að ákv. stjórnmálamönnum liggi mikið við að styggja ekki erlenda valdamenn til að tryggja hraða meðferð umsóknar um aðild okkar að ESB. Því vil ég ekki trúa að menn vilji leggja miklar byrðar á þjóð sína til að hraða inngöngu í bandalag sem ekki er einu sinni víst hvort hún hún vill ganga í. Þessu tvennu má ekki blanda saman.
Fari svo að alþingi ákveði, þrátt fyrir allt, að semja um Icesave er ma. bráðnauðsynlegt að halda rétti til að sækja málið fyrir dómstóli á Íslandi síðar og að skrifleg gögn séu til þar sem fram kemur að við göngum þvinguð til samninga og hverju ESB og þjóðirnar tvær hafa hótað ef við göngum ekki til samninga. Væntanlega eru þessi gögn þegar til hjá ráðuneytum og öðrum sem fært hafa okkur fréttir af hótunum td. um vöruskort, afskipti af AGS ofl. Ef slík gögn eru ekki til er auðvelt fyrir andstæðinga okkar að halda því fram að samningur hafi ekki verið þvingaður fram og því ekkert við hann að athuga.
Nú, sem aldrei fyrr, þarf íslenska þjóðin að geta treyst alþingi.
Virðingarfyllst, Baldur Ágústsson
baldur@landsmenn.is