FRÁ því að Danir hugðust flytja þjóð vora á jósku heiðarnar hefur hún ekki séð það svartara en nú. Kúgun og arðrán sem Danir lögðu á þjóðina fullkomnaði náttúran með óáran. Íslenskir stórbændur, prestar og embættismenn mögnuðu svo ömurleikann hver með sínu lagi. Að sárfátæk fámenn þjóð sem bjó í hreysum skyldi lifa af svo langdregnar hörmungar ætti að stappa stálinu í þá sem nú þurfa að súpa seyðið af afglöpum stjórnmálamanna.
Því miður hafa valdhafar guggnað í samningum við tvö fyrrverandi nýlenduveldi og samið af sér með skelfilegum afleiðingum fyrir Íslendinga. En það á engum að koma í opna skjöldu, því í mörg ár hefur þjóðin þurft að þola þinglið, sem lagt hefur meiri áherslu á eigin hagsmuni en þjóðarinnar. Aðdragandinn að sigri Samfylkingarinnar voru kosningaloforðin. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir varð forsætisráðherra lýsti hún yfir að kjör aldraðra og öryrkja yrðu ekki skert. Og ég sem hélt að enginn gæti orðið fólkinu verri en stóriðjuflokkarnir.
Icesave er nú aðalmálið. Án þess að leysa það nær Samfylkingin ekki helsta áhugamáli sínu, sem er að koma Íslandi undir ESB-valdið. Þar yrðum við valdalaust peð sem hefði lítið með sín mál að gera, hvað þá viðskipti við löndin utan ESB. Þessa stundina eru stjórnvöld að ganga frá samningum við Breta, verstu óvini okkar, og Hollendinga. Náist samkomulag, gætu núlifandi Íslendingar hafnað í ævilangri þrælkunarvinnu.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er vopn í höndum Breta og Hollendinga og er okkur stórhættulegur. Norðurlandaþjóðirnar og ESB hafa sýnt sitt rétta andlit og vona ég innilega að þjóðin sjái hve ESB er okkur fjandsamlegt. Tungumál okkar og menning mundi fjara út í þjóðahafinu og auðlindum stolið.
Leyfi mér svo í lok greinar að vitna í lærða menn. Einar Már Guðmundsson er án efa besti málsvari Íslendinga. Því miður er hann valdalaus. Einar segir: Í rauninni er vandi Icesave-skuldbindinganna ekki vandi þjóðarinnar, heldur eigenda þess einkavædda banka sem rakaði til sín fé í gegnum Icesave-reikningana.
Hafsteinn Hjaltason segir: Verjumst af alefli afturhalds- og tortímingarstefnu ESB-samsóknarkrókálfanna. Andvaraleysi verður dýrkeypt. Er okkur, sem njótum allra þeirra framfara sem orðið hafa frá endurreisn Alþingis, einhver vorkunn að sýna nægja þrautseigju í erfiðleikum? Einu sinni var sagt að þjóð sem fórnaði frelsi, fullveldi og auðlindum fyrir gróða og öryggi ætti ekkert af því skilið.
Er Ísland rusl í augum Breta og Hollendinga, spyr Vigdís Hauksdóttir.
Hagfræðingurinn James K. Galbraith segir: Skrípaleikur að leggja á slíka byrði. Fáránlegt er að ímynda sér að Ísland eða eitthvert annað land geti tekið á sig gjaldeyrisskuldir sem jafngilda 300-400% af vergri landsframleiðslu. Reyni stjórnvöld að axla slíka skuldabyrði muni vinnufærir einstaklingar flytja af landi brott.
John Perkins
Fáir eru jafnfróðir um AGS og John Perkins. Hann segir lönd hafa verið hneppt í efnahagsfjötra til að ná síðan tökum á auðlindum þeirra. Perkins fór um heiminn á árum áður sem efnahagslegur böðull og útvegaði ýmsum ríkjum hærri lán en þau réðu við að borga. Þar með voru þau gengin í gildru skuldareigenda. Hann ráðleggur Íslandi að neita að borga skuldir sem það ber ekki ábyrgð á.
Holland og Bretland eiga að deila byrðunum með Íslandi, segir sænski seðlabankinn.
Bretar hafa alla tíð kúgað minnimáttar. Þeir eru engra vinir, en falskir þegar hentar.
Haft var eftir einum ráðherra okkar, að íslenskir bankamenn væru verstir meðal vestrænna þjóða. Hvernig væri að bæta atkvæðamestu stjórnmálamönnunum í þann hóp?
Höfundur er fv. húsasmíðameistari.
Albert Jensen