Bréf til alþingismanna, Mbl. 11.12.2009
Þjóðin.
Íslensk þjóð stendur á tímamótum. Eftir mikla uppgangstíma blasir við mikið og vaxandi atvinnuleysi, fjárþrot heimila, fyrirtækja og ríkisjóðs. Gjaldþrotum fjölgar og fjölskyldur missa heimili sín. Landflótti er hafinn og á eftir að aukast.
Nokkrir tugir eða hundruð gráðugra einstaklinga hafa notað Ísland á siðlausan hátt til að auðgast sjálfir og um leið grafið undan eigin þjóð. Þeir hafa í raun gert hana gjaldþrota og með framferði sínu svipt hana því góða orði sem Ísland og íslendingar höfðu á sér um víða veröld. Ólöglegir viðskiptahættir, svik og þjófnaður í stórum stíl er smám saman að koma í ljós. Allt hefur þetta viðgengist í skjóli stjórnmála- og embættismanna sem með vanrækslu eða ásetningi bera mikla ábyrgð á þeirri stöðu sem þjóðin er nú í. Almenningur er reiður.
Sú bjartsýni og von sem heyrist víða um land og lýsir sér í nýjum sprotafyrirtækjum og hugmyndum um endurreisn atvinnulífs, er ekki stjórnvöldum að þakka. Hún kemur frá einstaklingum og hópum sem neita að leggja árar í bát og gefast upp. Hún er staðfesting þess að íslenska þjóðin er sérstök. Frá henni sjálfri munu lausnir koma milliliðalaust.
Þingið.
Alþingi íslendinga ásamt ríkistjórn á hverjum tíma, hefur ekki staðið sig sem skyldi. Þar liggur stór hluti ábyrgðarinnar. Einkavæðing og frjálshyggja hóf för sína þar, þá för sem nú hefur endað með skipbroti. Bankarnir voru seldir völdum aðilum án þess að setja um leið lög sem tryggðu að kaupendurnir tækju við allri ábyrgð á rekstri þeirra. Eignarhaldi og tekjumöguleikum ríkisins var þannig sleppt en ábyrgðin hvíldi áfram á herðum ríkisins, þ.e. þjóðarinnar, eins og nú hefur biturlega komið í ljós. Eftirlitsstofnanir sinntu ekki virku aðhaldi og eftirliti slökuðu frekar á því ef eitthvað var. Vitað er að ákveðnir einstaklingar vöruðu við yfirvofandi kreppu en á þá var ekki hlustað.
Þegar hrunið svo kom stóðu stjórnvöld uppi ráðalaus. Þegar þau voru innt eftir viðbrögðum var því svarað að málið væri á viðkvæmu stigi og ekki rétt að ræða það opinberlega. Þó kom þar, að formaður annars stjórnarflokkanna amk. taldi að sá hluti vandans sem snéri að erlendum bönkum og stjórnvöldum (Icesave) skyldi leystur á pólitískum vettvangi en ekki réttarfarslegum. Því runnu út frestir til málarekstrar. Pólitískar lausnir hafa ekki reynst auðfundnar, nema með afarkostum. Auk þess fjölgar þeim sérfræðingum sífellt sem telja að glatað fé erlendra sparifjáreigenda sé ekki á ábyrgð íslenska ríkisins. Vinaþjóðir okkar í Evrópu settu stein í götu okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ein þeirra beitti hryðjuverkalögum gegn Íslandi.
Annar stjórnarflokkanna knúði fram stjórnarslit og myndaði stjórn með öðrum eftir kosningar. Aðal áhugamál hinnar nýju stjórnar var að vísa seðlabankastjóra úr starfi og sækja um aðild að Evrópusambandinu ESB, hvað sem það kostaði. Það samþykkti Alþingi með naumum meirihluta eftir að sumir þingmenn höfðu verið beittir slíkum þrýstingi að tár runnu um hvarma þegar lengst gekk. Um leið samþykkti þingið að spyrja þjóðina ekki hvort hún vildi sækja um aðild að ESB og jafnframt að ef samningar um aðild næðust skyldu þeir bornir undir þjóðina en niðurstaðan yrði ekki bindandi heldur réði Alþingi því alfarið hvort Ísland yrði innlimað í ESB.
Síðan hrunið varð er nú liðið á annað ár. Stjórnvöld hafa ítrekað sagst ætla að slá skjaldborg um íslensk heimili og halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Það hefur ekki verið gert svo dugi. Um 4000 manns hafa þegar flutt úr landi og fyrirtæki draga saman seglin eða fara í gjaldþrot. Á sama tíma hafa stjórnvöld eytt ómældum tíma og fé í umsókn að ESB; kostnað við látlaus ferðalög, þýðingar og samninganefndir. Stjórnvöld vilja með lögum, byggðum á vafasömum forsendum, binda okkur skuldabagga hinna umdeildu Icesave reikninga allt til að liðka fyrir og flýta innlimun Íslands í ESB. Svo er hluta þingmanna fyrir að þakka að það hefur ekki enn gerst en að því mun koma.
Offors, frekja og hroki, svo og leynimakk og ósannindi hafa einkennt framgöngu núverandi stjórnvalda. Spurt er: Er stjórnin vanhæf ?
Forsetinn.
Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er hornsteinn stjórnarhátta okkar. Í henni er lagt fyrir að lög frá Alþingi öðlist gildi við undirritun forseta Íslands. Forsetanum er hinsvegar gefið vald til að hafna lögum og skal þá vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Hr. Ólafur Ragnar Grímsson hefur, einn forseta, synjað lögum samþykkis með tilvísan til grunnstoða lýðræðisins og gjár milli þings og þjóðar. Ennfremur samþykkti hann fyrir nokkrum mánuðum lög um greiðslu Icesave með þeirri athugasemd að þeim fylgdu nauðsynlegir fyrirvarar. Nú, þegar þessir fyrirvarar hafa að mestu verið fjarlægðir að kröfu viðsemjenda, væntir þjóðin þess að fá að greiða atkvæði um hin nýju lög.
Með ákvörðun um það stígur hinn þjóðkjörni forseti vor á þann stall sem þjóðin vill sjá hann á sameiningartákn, hafinn yfir allt annað en að tryggja framgang réttlætis og lýðræðis í sinni tærustu mynd.
Baldur Ágústsson