Baldur Ágústsson:

 

Nú þegar forseti Íslands íhugar hvort hann eigi að staðfesta Icesavelögin, velta bloggarar fyrir sér hinum ýmsu hliðum málsins. Varla sést svo frétt um málið að henni fylgi ekki tíu til tuttugu bloggfærslur og er það vel. Allar mögulegar skoðanir koma fram – með og móti Icesavesamningnum og með og móti afskiptum forseta.

 

Af ummælum flestra bloggara, auk 60.000 áskorunarundirskrifta, má ráða að fólki ofbýður. Ofbjóði ábyrgð þjóðarinnar á skuldum einkafyrirtækja, ofbjóði framferði og undirlægjuháttur ríkisstjórnarinnar gagnvart útlendingum með vafasaman málstað, ofbjóði leynimakk og ósannsögli. Og ofbjóði þá ekki síst sú ákvörðun stjórnarflokka sem kenna sig við “lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag grundvallað á virkri þátttöku almennings”, að ákveða á þingi að kjósendur skuli ekki spurðir um Icesave, ekki spurðir hvort þeir vilja fara í aðildarviðræður við ESB, og loks að þjóðaratkvæði um hugsanlega innlimun í ESB sé ekki bindandi fyrir alþingi.

 

Flestir hallast núorðið að því að ríkisstjórnin hyggist binda Icesave-greiðslubyrðina – ósannaða og óhagstæða – á bak þjóðarinnar með hraði, svo hún geti haldið áfram því verki sínu að innlima Íslendinga í ESB hvort sem þjóðin vill eða ekki. Allt þetta mál er því miður hið ógeðfelldasta – og hættulegt.

 

Hér má læra.

 

Ýmsir hafa gegnum tíðina lagt til að embætti forseta Íslands verði lagt niður. Hætt er við að sú skoðun hafi myndast vegna ágreinings um framgöngu þess forseta er nú situr, Ólafs Ragnars Grímssonar. Menn skildu varast að rugla saman embættinu og einstaklingnum er því gegnir á hverjum tíma.

 

Á þessu augnabliki horfa líklega hátt í hundrað þúsund Íslendingar til forseta síns í von um að hann tryggi þeim réttlæti og ákvörðunarrétt um alvarlegt mál sem sem skilið getur milli lífs og dauða þjóðarinnar, eins og við þekkjum hana. Forsetinn og vald hans til að koma ákvörðunum þingsins í þjóðaratkvæði, er nú síðasta varnarlínan milli þjóðarinnar og þess hyldýpis sem stjórnvöld og erlendir vinir þeirra hafa búið okkur.

 

Ef embætti Forseta Íslands hefði verið lagt niður hefðu handhafar forsetavalds væntanlega ráðið málinu. Þetta eru nú forseti hæstaréttar – sem enginn veit hvernig hefði kosið, Ásta Ragnheiður forseti alþingis og Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. Þar sem meirhluti ræður hefðu tvær þær síðastnefndu undirritað lögin “sem forseti lýðveldisins”.

 

Hvernig sem Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti, fer með vald sitt í þessu máli, skulum við vera þakklát fyrir embætti forseta Íslands og þau völd sem það hefur.

 

Pólitískir vinir forseta.

 

Oft heyrist sagt að Ólafur Ragnar geti ekki beitt sér gegn óskum núverandi stjórnvalda, þetta séu allt gamlir flokksfélagar og gæluverkefni þeirra. Hann muni standa uppi vinalaus ef hann synjar lögunum. Svo kann að fara ef hann á óþroskaða vini. Þá má spyrja: Vill hann eiga vini sem ekki skilja að hann er fyrst forseti þjóðarinnar – svo Ólafur vinur þeirra. Vini sem ekki skilja þá hugsun sem liggur að baki því að við skipsskaða fer skipstjóri síðastur frá borði og lífvörður kastar sér fyrir kúlu sem ætluð þeim sem hann á að verja.

 

Ég treysti því að forseti – eini valdamaðurinn sem kosinn er beint af þjóðinni allri – láti ekki vini sína rugla sig í svo alvarlegu máli sem þetta er. Að hann sé fastur fyrir þegar kemur að formsatriðum, hugsi til framtíðar þjóðarinnar og sjái til þess að synjun þýði þjóðaratkvæði – ekki neitt annað.

 

Baldur Ágústsson