Baldur Ágústsson

 

NÚ BRÁÐNAR ICESAVE HRATT „

 

SKJÓTT skipast veður í lofti“ segir máltækið. Þó að upphaflega hafi það sjálfsagt verið sagt ferðamönnum og sjómönnum til viðvörunar leyfi ég mér að nota það í tengslum við títt nefnda Icesave-deilu. Þrátt fyrir að það mál sé ekki í höfn – og enn margt að varast – hefur skyndilega rofað til með þeim áhuga sem erlendir fjölmiðlar fengu á málinu, Íslendingum og Íslandi.

 

Ný sýn blasir við fréttamönnum; skilningur á því hvað þjóðin er lítil og kröfurnar á hana risavaxnar. Einnig er réttmæti krafnanna í vaxandi mæli dregið í efa og regluverk ESB um þær talið ófullkomið ef ekki beinlínis orsakavaldur í málinu öllu. Þá fjölgar þeim erlendis sem ekki telja það sæma tveimur fyrrverandi nýlenduveldum að fara fram gegn smáþjóð eins og þau hafa gert. – Segja má að „brostið hafi á með blíðviðri“! Hversu lengi það varir er mest undir okkur sjálfum komið.

 

Erlendum bandamönnum fjölgar

 

Ólafur Ragnar stóð sig vel í viðtali við Jeremy Paxman á BBC Newsnight. Þá var ágætt viðtal við Steingrím J. Sigfússon á Channel 4 í Bretlandi. Þeim skal þakkað, svo og 60.000 undirskrifendum áskorunar og hundruðum greinaritara og óþreytandi bloggara Á mbl.is, sd. 10. janúar er frétt sem nefnist „hvorki geta né eiga að borga“. Þetta er stutt grein en athyglisverð sem vitnar í breska blaðið The Times. Á síðunni má einnig finna margar bloggfærslur um fréttina, sem eru ekki síður athyglisverðar. „

Nú er lag“ segir annað gamalt máltæki úr sjómennsku. Nú njótum við meiri skilnings erlendis og margnefnd nýlenduveldi sæta vaxandi gagnrýni. Það stendur hins vegar ekki lengi nema við fylgjum því eftir með sterkri kynningu fyrir fjölmiðla, almenning og ríkisstjórnir í Evrópu og víðar.

 

Í bréfi sem ég sendi öllum alþingismönnum þ. 28.12. 2009 – og sjá má í greinasafni á www.landsmenn.is – minnti ég á að enginn ber virðingu fyrir lyddum. Það hefur verið ógeðfellt að sjá ríkisstjórnina leggja sig fram um að semja af okkur á sama tíma og hún talar um að virðingu okkar og traust, í samfélagi þjóðanna, verði að endurheimta! Nú hefur það sýnt sig að með því að stinga við fótum, dreifa upplýsingum og sýna heiminum lýðræði okkar – sem margir öfunda okkur af – höfum við eignast fleiri bandamenn og mætt meiri skilningi á einni viku en heilu ári fram að því. Þessu verður að fylgja vel eftir.

 

Þjóðaratkvæðagreiðslan verður að fara fram. Hún sýnir heiminum á afgerandi hátt hversu ofboðið allri þjóðinni er. Það er ólíkt áhrifameira en enn ein leikflétta stjórnmálamannanna. Íslendingar þurfa að fjölmenna á kjörstaði og þjóðir heims munu fylgjast með af áhuga

 

Hvað næst?

 

Við þurfum án tafar að auka faglegt kynningarstarf, birta staðreyndir og bjóða hingað erlendum fréttamönnum, stjórnmálamönnum og fulltrúum almennings. Sýna þeim landið og kynna þá fyrir þeim vaxandi fjölda sérfræðinga sem á rökstuddan hátt halda því fram að Icesave sé ekki á ábyrgð íslensku þjóðarinnar. Afla þannig bandamanna og auka kynningu á því sem landið hefur að bjóða. Skipuleggja dagskrá að ógleymanlegri viku á landi íss og elda.

Þar geta flugfélög, hótel, rútufyrirtæki, leiðsögumenn o.fl. lagt sitt af mörkum. Öll sýnum við auðvitað íslenska gestrisni og kurteisi. Árangurinn verður jákvæðni í garð Íslendinga og drjúg aukning í ferðaþjónustu.

 

Þetta er búið

 

Icesave hefur aldrei verið á ábyrgð íslensku þjóðarinnar – umfram það að stofna tryggingasjóð skv. reglum ESB – sem við og gerðum. Á því skulum við standa bjargföst og hafna kröfunum alfarið. Gallað regluverk ESB svo og fyrirkomulag og atvik í málinu öllu staðfesta það. Þar lýkur þessu máli og ríkisstjórnin – þessi eða önnur – snýr sér af alefli að vernd og uppbyggingu þjóðfélagsins, sem dregist hefur alltof lengi. Göngum ákveðin til þjóðaratkvæðagreiðslu og látum ekki hræðsluáróður stýra gerðum okkar. Tími hrossakaupa, hótana, frekju, blekkinga, ósanninda og leynimakks er liðinn. Það þurfa stjórnmálamenn skilja. Ísland er ófrávíkjanlega og að fullu eign þjóðarinnar og ekki til sölu – hvorki fyrir aðgang að ESB, niðurfellingu ímyndaðra skulda né nokkuð annað.

 

Varðandi aðild okkar að ESB skulum við líta til nýliðins árs. Í deilu okkar við tvær ESB-þjóðir hafa þær allar 27 tekið afstöðu gegn okkur, auk þess að beita AGS fyrir sig. Allt til að svelta okkur og hræða til hlýðni. Hlutlaus sáttamaður kemur ekki þaðan. Það vantar enda engan sáttamann í Icesave-málið. Höldum rétt á spilunum og því er lokið.

 

Hvað varðar þátttöku okkar í fjölskyldu þjóðanna og vinskap við ESB má minna á að vinátta er gagnkvæmt fyrirbæri. Svo eru meðlimir stórfjölskyldunnar 195 en ekki 27. Ég tel ákveðið að okkur vanti ekki þessa 27 „vini“ – hvað segir þú lesandi góður?

 

Íslendingar, verum stoltir, stöndum þétt saman og munum að „sókn er besta vörnin“.

 

Höfundur er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningum 2004 – www.landsmenn.is – baldur@landsmenn.is

 

Baldur Ágústsson