Pétur Guðvarðarson: Nei, nei, nei

 

HVERS vegna var svona nauðsynlegt að koma íslenzku bönkunum í Bretlandi á kné?

Þessi fyrirtæki höfðu ekki brotið neitt af sér, þau höfðu fylgt lögum og reglum og haft gott samstarf við eftirlitsstofnanir o.s.frv. Allt í einu þótti bresku ríkisstjórninni tímabært að yfirtaka fyrirtækin með stjórnvaldsaðgerð en urðu að sækja lagaheimild til þess eins langt og komist varð, nefnilega hryðjuverkalögin sín. Þannig beittu þeir hryðjuverkalögum til að fremja efnahagslegt hryðjuverk.

 

En með því að beita slíku ofbeldi tóku þeir líka á sig alla ábyrgðina á málinu, alla eins og hún leggur sig. Íslendingar gátu ekki ráðið neinu þarna og bera því enga ábyrgð, þeir eru lausir allra mála og Tryggingasjóður innistæðueigenda getur ekki tryggt neitt gagnvart stjórnvaldsaðgerðum. Það kallast tryggingasvik að krefjast bóta fyrir tjón, sem maður hefur sjálfur valdið. Það er rétt eins og maður kveiki í húsinu sínu og heimti svo tryggingabætur. Slíkt er, að sjálfsögðu, refsivert.

 

Það verður hver að bera ábyrgð á sínum gerðum, ekki sízt þeir, sem valdið hafa.

 

Það er nokkuð seint að heimta peningana til baka eftir að búið er að loka bönkunum og útiloka þannig að nokkur maður geti fengið sína innistæðu lausa. Menn geta verið með alls konar ágizkanir og fordóma um að þeir hefðu ekki getað skilað öllum peningunum ef allir innistæðueigendur hefðu krafist þess samtímis. En þetta er bara ef og aftur ef, marklaust með öllu.

 

Það er erfitt að skilja þá kröfu, að íslenzka þjóðin eigi að skila þessum peningum nema meiningin sé sú að fara með Íslendinga eins og farið var með Þjóðverja eftir fyrra stríðið. Þeir voru neyddir til að skrifa undir uppgjafasamning og gert að borga óheyrilegar fúlgur fjár í „stríðsskaðabætur“. Ætlunin var að halda landinu fátæku um alla framtíð svo það hefði ekki efni á að hervæðast aftur. Þarna voru Betar og Frakkar að verki og þessi fólska þeirra kom þeim í koll rúmum tuttugu árum síðar.

 

Nú eru það Bretar og Hollendingar, sem í hlut eiga gagnvart Íslandi og það virðist eiga að leika sama leikinn, hrifsa allan hagvöxtinn út úr landinu jafnóðum og hann myndast, svo við getum aldrei aftur skarað fram úr, svo við getum aldrei aftur haslað okkur völl í ríki þeirra á viðskiptasviðinu. Og peningunum ætla þeir að stinga í sinn eigin vasa!

 

En við Íslandingar höfum ekki verið í neinu stríði, við höfum alls ekkert til saka unnið svo við þurfum ekki að samþykkja neina nauðarsamninga. Víð látum ekki þessa menn arðræna okkur og næstu kynslóðir fyrir ekki neitt. Við látum þá ekki hrifsa bitann frá munni barna okkar fyrir ekki neitt. Við viðurkennum ekki rétt þeirra til að leggja á okkur refsiskatta. Við verðum nú að fylgja neiinu frá því á laugardaginn var og neita að borga eina einustu krónu vegna þessara aðfara Breta.

 

Ef Jóhanna Sigurðardóttir ætlar að halda áfram að verða landinu til skammar með undirlægjuhætti sínum þá verður að gera viðeigandi ráðstafanir. Austurvöllur er ennþá opinn og eitthvað hlýtur að vera til af pottum og pönnum. Hrindum af okkur þessari atlögu í eitt skipti fyrir öll.

 

Við getum vel látið Alþjóðagjaldeyrissjóðinn lönd og leið. Það bara lengir kreppuna að taka stór lán ofan á aðrar skuldir. Þá fer hagvöxturinn í vexti af þeim og það er lítið betra. Það verður að minnsta kosti að kanna hvort ekki sé hægt að semja um „greiðsluaðlögun“ á þeim skuldum, sem falla í gjalddaga næst. Síðan er hagstæðast að byggja efnahagslífið upp af eigin rammleik á okkar forsendum og okkar auðlindum. Íslendingar hafa gert það mörgum sinnum áður. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem efnahagsörðugleikar koma upp. Lífskjör hljóta að versna eitthvað hvort sem er, en þau þurfa ekki að verða svo slæm fyrir því, á meðan atvinnuvegirnir eru í lagi. Raunar nægir að gera ráðstafanir til þess að atvinnulífið verði sæmilega arðbært, þá koma peningarnir, sem nú eru í „felum“, í ljós af sjálfu sér og allt fer að snúast og lífskjörin þurfa ekki að versna neitt. Menn verða að hafa leyfi til að afla tekna og menn verða að hafa leyfi til að græða, því aðeins með gróðanum er hægt að borga skuldir.

 

Enginn borgar skuld með eldhúspeningunum.

Höfundur er lífeyrisþegi.

Pétur Guðvarðarson