Mánudaginn 29. mars, 2010 - Aðsent efni

Björgum íslenska heilbrigðiskerfinu

Eftir Öddu Sigurjónsdóttur

 

Adda Sigurjónsdóttir

Eftir Öddu Sigurjónsdóttur: "Á allra næstu mánuðum er hætta á því að Ísland tapi góðri stöðu sinni í samkeppnisfærni í veitingu heilbrigðisþjónustu yfirleitt."

 

VG FER bæði með heilbrigðisráðuneytið og formennsku í heilbrigðisnefnd en VG hefur lýst yfir harðri andstöðu við framkomnar hugmyndir um bæði einkarekstur í heilbrigðisþjónustu sem og lækningatengda ferðaþjónustu. Undirrituð getur ekki varist því að örvænta um möguleika Íslands til endurreisnar þegar annar stjórnarflokkurinn og hluti af hinum virðist alltaf vilja eitthvað „annað“ þegar hugmyndir koma upp um nýja þjónustugeira sem eru atvinnu- og gjaldeyrisskapandi. Tala nú ekki um þegar Suðurnesin koma þar að.

 

Samkeppnisstaða Íslands bæði hvað varðar verð og staðsetningu í lækningatengdri ferðaþjónustu er afbragðsgóð eins og stendur. Helsta hættan að mati undirritaðrar er að gluggi tækifæranna fer að lokast þar sem yfirvofandi er mikill landflótti fagaðila sem Ísland þarf á að halda til þess að þessi þjónusta nái fram að ganga. Enda gengur VG fram með mjög gamaldags og afturhaldssama stefnu sem er til þess fallin að hrekja fært fagfólk í heilbrigðisstétt úr landi á allra næstu mánuðum.

 

Höfundur vill vekja bílstjórann á þessari ríkisstjórnarrútu með köldum staðreyndum: Rannsóknir sýna að þau ríki sem eru samkeppnishæf um lækningatengda ferðaþjónustu en hindra hana missa fagaðila sína úr landi. Þau þeirra sem loka ekki á lækningatengda ferðaþjónustu heldur beina henni eingöngu til sér- og einkarekinna stofnana tapa fagaðilum til einkaaðilanna. Þau þeirra sem taka greininni fagnandi en stýra henni og beina til bæði einkarekinna og opinberra stofnana koma best út.

 

Undirrituð vill enn fremur benda á þá staðreynd að Ísland hefur þegar tekið yfir lög ESB sem leyfa frjálst flæði sjúklinga milli landa og lúta að frelsi þjónustuaðila til þess að veita og selja þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Í því felst m.a. að nokkrir dómar hafa fallið innan ESB þar sem heimaríkjum er gert að greiða kostnað sem sjúklingur ber við að sækja þjónustu annað þrátt fyrir að hann hafi ekki beðið á biðlista í heimaríki. Yfirvofandi á allra næstu mánuðum er reglugerð þar sem ESB setur þau skilyrði að sjúklingur geti án þess að hafa beðið á biðlista farið í aðgerð hvar sem er innan ESB/EES og heimaríki ber þá að greiða það sem álíka aðgerð hefði kostað þar. Ísland mun sjálfkrafa þurfa að lúta þessari reglugerð.

 

Viðbrögð heilbrigðisráðherra gegn einkarekstri, lækningatengdri ferðaþjónustu, synjun á útleigu ónýttrar aðstöðu eða með ákvörðunum í sparnaði þar sem ráðist er á einkareknar stéttir umfram aðrar, vekja því furðu undirritaðrar sem telur nokkuð seint í rassinn gripið hjá ríkisstjórn sem stefnir að fullri aðild að ESB.

 

Ekki aðeins er gamaldags stefna ráðherra tekjulækkandi og takmarkandi fyrir fagaðila heldur stefnir hún faglegu sjálfstæði þeirra almennt í voða og í átt að meiri miðstýringu sem gerir greinina óásjálega hér á landi og skerðir enn frekar samkeppnishæfni opinberra stofnana á Íslandi í samkeppni um bestu fagaðilana sem og samkeppnisfærni Íslands alls.

 

Ástæða þess að undirrituð skrifar þessa grein núna er að svo virðist sem tími tækifæranna sé að renna úr hendi því ljóst er að yfirvofandi er gríðarlegur landflótti þeirra aðila sem veitt geta þessa þjónustu, jafnt innlendum sjúklingum sem erlendum, ef ekkert er að gert hið snarasta. Telur undirrituð að tíminn sem sé til stefnu sé innan við ár. Eftir það hefur Ísland fyrirgert samkeppnisstöðu sinni, ekki hvað varðar lág laun heldur mun það hafa tapað þeim mannauði sem gæti starfað í greininni til annarra landa. Þegar þar að kemur munu Íslendingar jafnframt vera farnir að leita að heilbrigðisþjónustu til landa innan ESB og senda reikninginn til Sjúkratrygginga Íslands.

 

Ísland hefur ekki efni á því að sleppa þessum möguleika til gjaldeyrisskapandi atvinnurekstrar, tækifærinu til þess að þjálfa fagaðila sína og halda sínum mannauði sem stíft er boðið í núna af löndum sem eru samkeppnisfærari um launagreiðslur og frelsi til faglegra athafna. Önnur lönd láta ekki pólitíska öfgarétthugsun hindra þjónustu við íslenska sjúklinga og munu með bros á vör senda Íslandi reikninginn. Þjóðir sem telja milljónir, en hafa samkeppnisgetuna, eru fúsir þátttakendur í lækningatengdri ferðaþjónustu með það að markmiði að halda fagfólki sínu í þjálfun. Hvers vegna eru önnur lögmál hér á landi?

 

Með von um að meirihluti sé til staðar meðal þingmanna um jákvæð viðhorf gagnvart þessari þjónustugrein biðla ég því til þingheims um að taka fram fyrir hendurnar á heilbrigðisráðherra og bjarga íslensku heilbrigðiskerfi frá yfirvofandi hruni. Það er ekkert lögmál að líta beri á heilbrigðiskerfi eingöngu sem kostnaðarlið, það getur líka verið tekjuskapandi ef tækifærin eru notuð. Góður heilbrigðisráðherra gæti notað orku sína til að stýra og hafa áhrif á framkvæmd lækningatengdrar þjónustu á jákvæðan hátt til hámörkunar á verðmæti hennar og til takmörkunar á ókostum hennar.

 

Vanhæfur ráðherra tekur ekkert tillit til laga og reglna og tekur hlutdrægar og rangar ákvarðanir.

 

Höfundur er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun í heilbrigðisþjónustu og gerði meistararitgerð um möguleika Íslands til lækningatengdrar ferðaþjónustu.