Helgi Helgason, stjórnmálafræðingur

 

Þekkt erlent þjófagengi í boði Schengen og stjórnvalda „

 

Þar urðum við varir við hóp af þekktum erlendum brotamönnum sem að við snérum við og komum í burtu.“

Þessi ummæli má lesa á visir.is þann 23. mars og eru höfð eftir yfirlögregluþjóninum á Hvolsvelli. Tilefnið er að lögreglan hafði rýmt heimili næst gosstöðvunum og sett upp vegatálma til eftirlits.

 

Það sem slær mig og marga aðra sem ég hef talað við er að þekktir erlendir brotamenn skuli geta komist upp með það að athafna sig hér á landi og með blessun yfirvalda! Hversvegna var þessum mönnum ekki vísað úr landi þegar þessi vitnneskja lá fyrir?

 

Svarið virðist, enn og aftur, Schengen og samningar tengdir því. Það er með ólíkindum hversu lengi íslenskir stjórnmálamenn ætla að láta það vera að ræða þá þjóðfélags ógn sem Schengen hefur fært íslensku þjóðinni. Hvernig skyldi standa á því? Fólk vill fá svar við þessu.

 

Hvaða hagsmunir íslenskra stjórnmálamanna liggja að baki því að þeir hafa búið svo um stjórnsýsluna að hún getur ekki brugðist við jafn augljósum aðstæðum og segir frá í umræddri frétt með því að vísa þessum „þekktu erlendu brotamönnum“ úr landi án tafar?

 

Í aðdraganda þess að við gegnum í Schengen birtust í fjölmiðlum greinar eftir fólk úr öllum stjórnmálaflokkum þar sem skynsemi þess að ganga í Schengen var dregin í efa. Sumir vöruðu beinlínins við því að það ástand gæti skapast sem núna er orðið staðreynd. Varnaðarorðum þessa fólks var vísað á bug af stjórnmálamönnum sem voru hlynntir inngöngu sem óábyrgum og barnalegum, þar væri á ferðinni fólk sem sæi ekki út fyrir torfkofann, þetta voru jafnvel útlendingahatarar.

 

Þessi sömu orð eru nú notuð um þá sem vara við ESB aðild.

 

Í umfjöllun um Schengen og kosti þess má sjá ýmislegt fróðlegt á vefnum logreglan.is. Áður en ég kem að því vil ég minna á að embættismenn og stjórnmálamenn hafa, sem dæmi, notað svo svo kallað SIS kerfi sem mikilvæga röksemd fyrir hversu þarft það er að vera í Schengen. SIS kerfið er kerfi þar sem yfirvöld í Schengen löndunum geta skráð ýmislegt t.d. þekkta og eftirlýsta brotamenn til upplýsinga fyrir önnur samstarfslönd.

Á vefnum logreglan.is segir: Kemur landskerfi SIS þar að góðum notum en lögreglumenn allsstaðar á landinu munu hafa aðgang að því og geta flett upp nöfnum útlendinga sem þeir hafa afskipti af, hvort heldur er vegna venjubundins eftirlits eða af einhverju öðru sérstöku tilefni og kannað hvort þar séu að finna upplýsingar um viðkomandi einstakling. Er eftirlit sem þetta hjá lögreglu einn af lykilþáttum þess að Schengen samstarfið virki sem skyldi og því mjög mikilvægt að því sé sinnt af kostgæfni.

 

Hér er svo sannarlega þörf á að staldra við! Með vísun til fréttarinnar sem ég vitnaði til hér í upphafi er rétt að spyrja hvað það er sem virkar? Ég get ekki séð að það hafi komið að gagni fyrir íslenska þjóðfélagið að yfirlögregluþjóninn á Hvolsvelli gat farið í SIS kerfið og flett upp þessum erlendu glæpamönnum og fengið það staðfest að þarna voru á ferðinni erlendir glæpamenn! Því hvað segir í fréttinni að hann hafði gert þegar þessi vitneskja lá fyrir? Jú, hann kvaddi þá og beindi þeim annað!

 

Miðað við fréttina eru „þekkt erlend glæpagengi“ hér með blessun stjórnvalda.

 

Dómsmálaráðherra hefur viðurkennt opinberlega (mbl.is 23.02’10) að úrsögn úr Schengen myndi „…vissulega auka möguleika íslenskra yfirvalda til að framfylgja endurkomubönnum…“

 

Í hinu orðinu segir dómsmálaráðherra, í sama viðtali, að ekki sé ráðlegt að ganga úr Schengen því „að íslensk yfirvöld stæðu samt sem áður berskjölduð gagnvart margfalt stærri hóp erlendra glæpamanna sem hér gæti hlaupið í skjól frá handtökuskipunum sem skráðar hafa verið i SIS-kerfið…“ Bretar og Írar eru ekki Schengen. Þeir fá samt aðgang að þessu „frábæra“ SIS kerfi.

 

Bretar hafa aldrei tekið það í mál að ganga í Schengen. Af hverju? Það er vegna þess að Bretland er eyja, segja þeir. Lögmál Schengen eiga ekki við um eyju, segja þeir.

 

Komum aftur að fréttinni sem minnst var á hér í upphafi. Ég spyr aftur: Hvers vegna var þessum þekktu erlendu brotamönnum ekki strax vísað úr landi? Eða, hvernig stendur á því að þessir erlendu brotamenn komust inn í landið yfir höfuð?

 

Öll rök hníga að því að Ísland eigi að segja sig úr Schengen. Við eigum að halda uppi virku landamæra eftirliti. Bretar og Írar hafa aðgang að SIS kerfinu þótt þeir séu ekki í Schengen. SIS kerfið er í þeirra augum bara enn einn gagnabankinn sem hjálpar þeim að halda uppi lögum og reglu. Það er ekkert sem bendir til annars en við gætum líka verið í samstarfi um lögreglumál við evrópuþjóðir og fengið aðgang að gagnabönkum eins og SIS þótt við séum ekki í Schengen.

 

Við getum vel bætt löggæsluna og eftirlit á Íslandi þannig að erlent glæpahyski sjái takmarkaðan tilgang í því að koma hingað. Það eina sem skortir er vilji íslenskra stjórnmálamanna. Hvernig stendur á því?

 

Helgi Helgason, stjórnmálafræðingur