Baldur Ágústsson:

 

Íslenskar þjóðsögur eru hluti menningar okkar. Mann fram af manni hafa þær lifað með okkur, verið skemmtun, fróðleikur og brú sem tengt hefur unga og aldna – kynslóð við kynslóð. Þá hafa þær, með öðru, mótað mat okkar á lífinu, verðmætum þess, og viðhorf til yfirnáttúrulegra afla, hverra tilvist verður hvorki sönnuð né afsönnuð með þeim aðferðum sem nútíma-vísindi beita, heldur byggist á trú og tilfinningum – sem enginn skyldi gera lítið úr. Í dag, 17. júní 2010, þegar við fögnum frelsi þjóðarinnar og stofnun sjálfstæðs lýðveldis 1944, skulum við velta fyrir okkur stöðu þjóðfélagsins og lífsmati okkar – og líta á eina þjóðsögu.

 

„Sjaldan hef ég flotinu neitað“

 

Þessi setning, sem allir þekkja, kemur úr þjóðsögunni Krossgötur og segir frá þeirri þjóðtrú að á ákveðnum nóttum ár hvert geti menn setið á krossgötum og flykkist þá að álfar sem bjóða gull og gersemar hverjum sem þeim vill fylgja. En – engu má svara og ekkert þiggja, heldur standa upp þegar dagar og segja: „Guði sé lof, nú er dagur um allt loft“. Fara þá álfarnir og skilja eftir allar þær gjafir sem þeir buðu.

Saga þessi segir frá manni er Fúsi hét og sat á krossgötum á jólanótt. Hann sá við gylliboðum og stóðst allar freistingar þar til álfkona kom og bauð honum flotskildi. Það stóðst Fúsi ekki, heldur sagði: „Sjaldan hef ég flotinu neitað“ og beit bita úr einum skildinum. Varð hann þegar vitstola og trylltist.

 

Þó hlutverkaskipan sé ekki jafn einföld, getum við heimfært þessa sögu upp á nútímann. Hún fjallar í raun um svikráð, græðgi, sigur hins illa og fall þess er býður freistingu heim. Saga Fúsa rúmast á hálfri blaðsíðu í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. Nútímaútgáfan fyllir nær tug þykkra bóka sem tók fjölda fóks heilt ár að undirbúa og færa í letur. Þar má lesa hvernig krossgötur svikráða voru fundnar eða lagðar. Þangað komu margir „álfar“. „Fúsar“ reyndust all-fjölmennir – og gráðugir. Flestir þeirra eiga nú hvorki flot né heldur vita þeir hvað skuli til bragðs taka – frekar en Þjóðsögu-Fúsi.

 

Við getum gefið okkur að vitfirring Fúsa hafi bitnað á fjölskyldu hans þótt ekki sé þess getið. Á sama hátt hefur framferði, græðgi, siðleysi og veik lund okkar „álfa og Fúsa“ valdið stórfjölskyldu þeirra – okkur öllum – óbætanlegu tjóni af ýmsu tagi.

 

Senn blasa aðrar krossgötur við okkur Íslendingum. Munum við reynast snjallari Fúsa eða munum við falla fyrir svikráðum og gylliboðum „álfa“ – og glata því sem dýrmætast er?

 

Lýðræði og gegnsæi

 

Fyrir rúmu ári kaus þjóðin tvo flokka til valda í stað þeirra tveggja sem sagðir voru sekir um einkavinavæðingu, bruðl, aðgerða- og eftirlits-leysi svo og að dansa árum saman kringum gullkálf, jafnt í vinnutíma sínum sem utan. Fyrir kosningarnar fordæmdu þessir „nýju“ flokkar framferði fyrri valdhafa fyrir auðmannadekur, bruðl og þjóðsvik. Þeir lofuðu okkur heiðarleika, óskertu sjálfstæði, eign þjóðarinnar á auðlindum, gegnsæjum stjórnarháttum og verulegri aukningu beins lýðræðis á kostnað fulltrúalýðræðis. Tiltekinn hluti þjóðarinnar, t.d. 20%, skyldi geta kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um öll stórmál, krafist þingrofs og nýrra kosninga. Síðast en ekki síst skyldi slegin skjaldborg um heimili landsmanna og hjólum atvinnulífsins haldið gangandi í þeim þrengingum er við blöstu.

 

En – því miður; ríkistjórn heiðarleika og gegnsærra stjórnarhátta á sér önnur markmið: ESB. Til að ná því segir hún ósatt, fer á bak við þjóð og þing – og leynir upplýsingum. Þessir boðberar aukins lýðræðis samþykkja á Alþingi að við skulum ekki spurð hvort við viljum leggja í aðildarviðræður við ESB og jafnframt, að náist samningur skuli hann ekki borinn á bindandi hátt undir þjóðina. Við ráðum engu. Sakir áhugans á ESB vill stjórnin ekki styggja erlenda ráðamenn og gengur því eftir þeim með grasið í skónum að fá að borga hina alþekktu Icesave-kröfu. Á sama tíma falla fyrirtækin, fjölskyldur missa atvinnu sína og heimili, opinber gjöld hækka og lágar bætur til aldraðra og öryrkja eru skertar. Þegar a.m.k. 20% þjóðarinnar leggur fram áskorun um að krafan sé ekki borguð, enda ósönnuð, þverskallast stjórnin við. Stjórnarskrárbundin þjóðaratkvæðagreiðsla, fyrir íhlutun forseta landsins, leiðir svo í ljós að meira en 90% þeirra sem kjósa er andvígur Icesave-áformum stjórnvalda – sem þau máttu reyndar vita fyrir af tíðum skoðanakönnunum. Stjórnmálamenn bregðast ókvæða við og segja tímabært að setja forsetanum verkreglur er takmarki völd hans og verksvið!

 

Þjóðaratkvæðagreiðsla

 

Þegar ríkisstjórnin nær samkomulagi við ESB um innlimun Íslands mun það lagt fyrir þjóðina til umsagnar – sem ekki er bindandi, eins og fyrr segir. Síðan getur stjórnin skrifað undir. – Málið afgreitt. Auðvitað er það þægilegra fyrir stjórnmálamennina að geta bent á jákvæða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þessvegna verður okkar freistað, sérstaklega síðustu mánuðina. Þá sitjum við á krossgötum líkt og Fúsi forðum.

Ég vona, lesandi góður, að þjóðin þrauki nóttina og þú verðir meðal þeirra sem að morgni geta sagt: Guði sé lof, nú er dagur um allt loft.

 

Höf. er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningum 2004 –

www.landsmenn.is – baldur@landsmenn.is