„Það versta við að búa í besta landi í heimi, eru allir þessir vitleysingar sem vilja stjórna því!“ Þessi orð fékk ég nýgræðingurinn að heyra í minni fyrstu kosningabaráttu síðastliðið vor. Maðurinn var öskureiður út af gjörgæsluástandi landsins. Hann taldi það ólíklegt að við gætum borið þess gæfu að stýra landinu okkar farsællega sökum eiginhagsmunaárekstra einstaklinga, fyrirtækja og stjórnmála. Ég gat líkt og aðrir ekki neitað því að illa væri fyrir okkur komið, hvað þá með AGS vafið um hálsinn. Þessi orð hafa dvalið með mér því hvað er til ráða í besta landi í heimi? Einn möguleiki er aðild að ESB. Ég hef lengi trúað því að ríkara land sé vart að finna og að fámennið sé styrkur.

 

Helst hef ég viljað kvarta undan veðrinu, en það hefur líklega gert það að verkum að við erum svakalega góð í „innileikjum“ sbr. blómstrandi hugverkaiðnað. Svo eru það aðrir sem vilja losna við það sjálfstæði sem við getum enn státað af í innan- og utanríkismálum. Þeir bursta burt rök gegn aðild með innihaldslausum frösum og upphrópunum. Umræða um þetta þarf að fara fram, en hún er á lágu plani í dag og lýsir ótta við að hafa hugsanlega rangt fyrir sér. Því er nauðsynlegt að hafa reynslu annarra til hliðsjónar á meðan afstaða er tekin.

 

Hingað koma gestir frá öðrum löndum sem naga sig í handarbökin yfir því hversu gjöfult landið er og hversu auðvelt er að koma nýsköpun og hugverkaiðnaði á framfæri. Þeir öfundast yfir því frelsi sem við búum við og stuttum boðleiðum. Reyndar þrengir nú að því frelsi dag frá degi og frjálshyggja er bannorð. Gestirnir reyta hár sitt yfir því hversu sljó þjóðin er gagnvart gjöfum landsins og að allri orku er eytt í að rífa þjóðfélagið niður frekar en að byggja það upp.

 

Einn slíkur gestur, Evrópuþingmaðurinn Daniel Hannan, hefur varað við inngöngu í það sem hann kallar staðlabandalagið ESB. Staðla- og tollabandalag sem stofnað var í þeim tilgangi að Evrópulöndin gætu átt í friðsamlegum viðskiptum. Hann telur að fjarlægð þingmanna í Brussel frá þegnunum geri það að verkum að spillingin grasseri þar sem annars staðar. Spillingin þar er bara öðruvísi og snýst helst um bjúrókratískan hóp sem þar ræður ríkjum. Þessi hópur er afar upptekinn af því að leggja til samræmd regluverk og staðla sem gera það að verkum að lítil fyrirtæki víðs vegar í Evrópu geta ekki staðið undir þeim og þau stóru losna þannig við leiðinda samkeppni án mikillar fyrirhafnar.

 

Það er hins vegar erfitt að mótmæla ákvörðunum ráðamanna í Brussel og krefjast breytinga. Slíkt hafa bændur í Evrópu til að mynda reynt og reyndist það algerlega árangurslaust. Fjarlægðirnar frá stjórnsýslunni þar eru einfaldlega of miklar og flóknar. Auðvelt er að gera sér í hugarlund árangurinn af íslenskum mótmælum þegar togarar ESB sigla inn í landhelgi Íslands vopnaðir veiðarfærum. Lýðurinn gæti allt eins staðið upp á Esjunni með gjallarhorn, potta og pönnur, eins og það þýddi fyrir hann að vísa til „sérákvæða“ í viðauka aðildarsamnings. Það var reynsla t.d. Breta.

 

Ég halla mér því frekar að íslenskri framtíð, sem er án hafta og landamæra ESB. Þannig að landið geti litið á heiminn allan sem sitt viðskiptasvæði en ekki afmarkaðan hluta hans. Í landi sem getur nýtt sér tækni og framfarir til þess að koma afurðum sínum til verðmæta, þjóðinni allri til góða. Þar sem má finna skýra fjárfestingarstefnu þegar kemur að því að laða að erlenda fjárfesta alls staðar úr heiminum. Að á þessu landi, Íslandi, fyrirfinnst fólk sem hefur lært af reynslunni og sætt sig við fortíðina til þess að hleypa framtíðinni að.

 

Ég kvaddi öskureiða manninn með eftirfarandi orðum: Þú hefur gefist upp heyrist mér. Ég hef ekki gefist upp, slíkan munað leyfi ég mér ekki. Því held ég áfram að reyna að taka ákvarðanir grundvallaðar á þeim upplýsingum sem við höfum í dag. En ég geri mér líka grein fyrir því að framtíðin ein getur staðfest ákvarðanir dagsins í dag sem góðar eða slæmar. Ég ætla því enn sem komið er að veðja á innlenda vitleysinga þar sem ég tel að þeir muni frekar bera hagsmuni mína og þjóðarinnar allrar fyrir brjósti en bjúrókratar ESB. Þeir eru vissulega ekki fullkomnir en fyrir þeim erum við ekki bara talin í evrum, skuldum, fiski og auðlindum. Það eru meiri líkur á að hagsmunir þeirra fari saman með restinni af þjóðinni.

Höfundur er með MS-gráðu í mannauðsstjórnun og BA í sálfræði.

Karen Elísabet Halldórsdóttir