Karl Jónatansson:

ESB-hættan

 

Óneitanlega eru það gleðifréttir að meirihluti íslenskra bænda og sjómanna hefur áttað sig á hættunni sem mun bíða íslenskrar þjóðar við innlimun í Evrópusambandið. Ég er hins vegar undrandi á viðhorfum allt of margra verka- og iðnaðarmanna. Græðgi virðist ráða ferðinni hjá þessum stéttum og einmitt þess vegna grunar mig að þeir sjái ekki hættuna hinumegin við lækinn. Sumir úr þessum stéttum hafa mátt sæta því að vera án vinnu og lifa á bótum mánuðum eða jafnvel árum saman. Ef þetta blessaða fólk heldur að innganga í ESB muni bjarga því þá er það heldur betur á villigötum.

 

Innan ESB ganga u.þ.b. 30 milljónir manna atvinnulausar og fer fjölgandi. Þetta þýðir í stuttu máli að í stað þess að innlimun í ESB muni færa okkur vinnu fyrir alla á silfurfati þá getum við átt von á að fá nokkra tugi ef ekki hundruð þúsunda örvæntingarfullra ESB-borgara yfir okkur sem búið er að svelta til nægjusemi sem við þekkjum ekki á eigin skinni. Þetta fólk verður tilbúið að vinna hvaða starf sem er fyrir helming þess sem við teljum í raun ósanngjarnt. Eftir inngöngu í ESB hefði þetta fólk nákvæmlega sömu réttindi og Íslendingar til að sækja um vinnu hér á landi. Ég sé hreint út sagt ekki hvernig þetta myndi hjálpa. ESB-agentar íslenskir hamra mikið á þeim tollafríðindum sem við fengjum við innlimun. Þessi smáfríðindi yrðu aðeins smáaurar samanborið við það sem ESB hyggst sjúga út úr Íslendingum í staðinn, fyrst og fremst af okkar auðlindum s.s. fiski, vatni og hugsanlega jarðgasi og olíu.

Til að byrja með fengjum við „tímabundnar undanþágur“ en þær myndu aldrei halda lengur en í 10 ár í mesta lagi, svo mikið er víst. Samanlögð tollafríðindin myndu í mesta lagi dekka 5-10% af því sem okkur yrði gert að fórna á altari ESB.

 

Við erum nú þegar búin að sjá og finna fyrir því hvernig ESB-þjóðir (svokallaðar „vinaþjóðir“ okkar) koma fram við okkur í peningamálum, sbr. Breta og Hollendinga með Brussel að bakhjarli í Icesave-deilunni.Þessum gömlu nýlendukúgurum finnst við líklega nú þegar vera ein af nýlendum þeirra sem er ekki óeðlileg ályktun af þeirra hálfu ígrunduð á augljósum og móðursýkislegum áhuga ráðandi flokks í sitjandi ríkisstjórn á að gangast undir vald þeirra. Vitaskuld er ekkert vit í að við tökum að okkur að greiða risaskuld, sbr. Icesave, sem við höfum ekki stofnað til, heldur var um að ræða einkabanka í eigu Íslendinga sem rekinn var á erlendri grundu og ábyrgð á því hvernig fór alfarið á ábyrgð þarlendra stjórnvalda sem trössuðu að framfylgja því að lögbundnar tryggingar væru fyrir hendi til að fyrirbyggja það sem gerðist. Bretar og Hollendingar með Brussel að bakhjarli eru því hér í hlutverki handrukkara og aðferðirnar eru nákvæmlega þær sömu – þ.e. að innheimta skuldir sem aldrei var stofnað til með hótunum um ofbeldi ef fórnarlambið neitar að borga.

 

Þetta eru þjóðirnar sem reynt er að telja okkur trú um að séu í raun vinir okkar og bandamenn sem okkur beri að afhenda sjálfstæði okkar og rétt til að nýta auðlindir okkar eins og okkur sýnist best. Ég segi: Flestir núverandi óvinir okkar eru samansafnaðir í ESB. Vinir okkar eru annars staðar.

 

Neitum að greiða skuldir óreiðumanna og höldum sjálfstæði okkar og reisn með því að hafna innlimun Íslands í ESB.

 

Höfundur er fv. tónlistarkennari.