Óskar Jóhannsson, kaupmaður:

 

BYLTINGIN ÉTUR BÖRNIN SÍN

 

\"Við sem enn tórum, af þeim sem upplifðu 17. júní 1944, hristum okkar gráu kolla og spyrjum án þess að vænta svars: Var þetta þá allt misskilningur?\"

 

Á Kópavogstúni er lítið áberandi og flestum gleymdur minnisvarði. Við hann er neðangreind áletrun á spjaldi: „

 

Sá atburður í sögu landsins og Kópavogs sem verður minnst þó að annað gleymist er Erfðahyllingin í Kópavogi 28. júlí 1662. Þá neyddi danski höfuðsmaðurinn Hinrik Bjelke íslenska forystumenn til að undirrita einveldisskuldbindingu og að sverja Friðriki III. Danakóngi hollustueiða meðan hermenn hans hátignar stóðu yfir þeim alvopnaðir.“

 

Sextán ára gamall upplifði ég undirritaður, 17. júní 1944 á Þingvöllum, ásamt tugum þúsunda Íslendinga, mesta hamingjudag í sögu þjóðarinnar þegar Ísland varð frjálst og fullvalda ríki.

 

17. júní 2010, á 66 ára afmælisdegi fullveldisins, var við völd fyrsta ríkisstjórn Íslands sem eingöngu er skipuð „flokkum hinna vinnandi stétta“, sem Búsáhaldabyltingin treysti einum til að ráða landsmálunum.

 

En ríkisstjórn íslenska lýðveldisins fagnaði þó öðru en afmælinu, meir og innilegar þann dag. Stjórn Evrópusambandsins, ESB, samþykkti þann dag að taka til jákvæðrar afgreiðslu eindregna ósk stjórnar íslenska lýðveldisins um að losa hana og komandi kynslóðir Íslands undan þeim hörmungum að þurfa að stjórna málefnum þjóðar sinnar því núverandi stjórn getur það ekki og enn síður treystir hún öðrum Íslendingum til þess. Samkvæmt beiðni hafði ESB sent íslensku ríkisstjórninni nokkurra þúsunda blaðsíðna reglur sem hún á að ábyrgjast að Íslendingar fari eftir um alla framtíð. Enginn veit hvað þar stendur enda treystir stjórnin þessum höfðingjum fullkomlega og er ekkert að kíkja í pakkann. Hún veit að þeir vilja okkur allt það besta. Svo er það allt á útlensku.

 

Auk samþykktarinnar jók það enn á gleði utanríkisráðherrans 17. júní að ESB menn lofuðu að sjá til þess að afgreiðsla málsins gengi fljótt fyrir sig. Þá sá hann í anda að ekki væri útilokað að íslenskir forystumenn, undir hans forsjá, gætu undirritað einveldisskuldbindingu og svarið ESB hollustueiða á 350 ára afmælisdegi erfðahyllingarinnar í Kópavogi 28. júlí árið 2012!

 

Er þetta ekki stórkostlegt? Og eftir það verður nýja þjóðhátíðin um hásumar!

 

Þeir íslensku forystumenn sem undirrita hina nýju einveldisskuldbindingu og sverja ESB hollustueiða munu ekki vera beygðir og kúgaðir, heldur sigri hrósandi því ráðherranum mun hafa tekist að sannfæra hina nýju húsbændur um hvað Íslendingar eru merkileg þjóð og ESB-stjórnin hefur fallist á allar sérkröfur þeirra, bæði til lands og sjávar.

 

Öflugt og gjafmilt styrkjatrúboð færustu sérfræðinga sem ESB sendi okkur með þúsundir milljóna króna og nú þegar er tekið til starfa á Íslandi, mun þá hafa lokið við að sannfæra nokkrar vantrúaðar sálir með alls konar styrkjum og öflugri aðstoð fjölmiðla, vinveittra ríkisstjórninni, svo ekki þarf að óttast að þjóðaratkvæðagreiðsla tefji fullgildingu samningsins. Þeir verða ekki vopnaðir hermenn, fulltrúar hinnar virðulegu stjórnar ESB sem standa glottandi yfir íslenskum forystumönnum við undirritun hollustueiðanna því þeir munu vita að um leið og hinn óafturkallanlegi samningur gengur í gildi verða allar undanþágur frá meginreglum ESB felldar niður enda samræmast þær ekki lögunum.

 

Hvað er að gerast?

 

Er nú svo komið að íslenska þjóðin trúi því að hlustað verði á raus dvergríkis sem heimtar réttlæti, með minna en 1% atkvæða á móti hagsmunum rúmlega 99% stórþjóðanna? Ekki dugar þá að fara í fýlu og segjast vera hættur því engar útgöngudyr munu vera í lögum ESB.

 

Við sem enn tórum, af þeim sem upplifðu 17. júní 1944 hristum okkar gráu kolla og spyrjum án þess að vænta svars: Var þetta þá allt misskilningur? Við sem munum fátæktina og erfiðleikana í æsku, höfum tekið þátt í og upplifað trúlega mesta framfaraskeið nokkurrar þjóðar sem frjálst og fullvalda ríki. Við trúum því að lífsskilyrði á Íslandi séu með því allra besta sem þekkist í heiminum. Við trúum því að aðrar þjóðir hafi fulla ástæðu til að öfunda okkur af 200 mílna fiskveiðilögsögunni, öllu heita og kalda vatninu og fjölmörgum öðrum kostum lands og þjóðar. Við trúum því að ESB muni beita öllum brögðum til að plata þetta allt út úr óvinsælustu ríkisstjórn sem þjóðin hefur kallað yfir sig.

 

Við trúum því að öllum samskiptum við aðrar þjóðir, og þar á meðal ESB, sé best borgið í okkar eigin höndum, á jafnréttisgrundvelli, hér eftir sem hingað til en þó því aðeins að rétt sé á málum haldið. Og þrátt fyrir uppgjöf og ráðaleysi núverandi valdhafa get ég fullyrt að við erum öll sannfærð um að íslenskum mönnum og konum sé best treystandi til að stjórna íslenska lýðveldinu frjálsu og óháðu, komandi kynslóðum til heilla og blessunar.

 

Höfundur er kaupmaður.