Svavar Gestsson fyrrverandi alþingismaður, ráðherra, sendiherra og um tíma aðalsamningamaður ríkisstjórnarinnar í Icesave-málinu, skrifaði sérkennilega grein í Fréttablaðið þann 30. nóvember síðastliðinn.
Mér finnst nauðsynlegt að svara þessum fyrrum baráttumanni alþýðunnar sem, eftir að hafa klifrað metorðastigann eins og stjórnmálamönnum er best lagið, snýst nú gegn alþýðu landsins undir því yfirvarpi að hann sé að gagnrýna stjórnkerfið og forseta Íslands.
Eins og menn muna kom Svavar heim frá Bretlandi með Icesave-samning sem ríkisstjórnin sagði afburða góðan fyrir Íslendinga, betur yrði ekki gert. Einhverjir höfðu reyndar á orði að Svavar hefði hætt samningaviðræðum þegar hann, að eigin sögn, nennti ekki að hafa þetta mál hangandi yfir sér lengur en hver trúir slíku? Hvort það var þessi samningur eða annar þar á eftir sem hrinti af stað öldu áskorana á forsetann um þjóðaratkvæði má einu gilda. Forsetinn hlustaði á þjóðina og synjaði undirskrift.
Stjórnvöld reyndu að malda í móinn með fullyrðingum um að nú hillti í enn betri samning (!) en allt kom fyrir ekki. Þar með fóru lögin sem heimiluðu greiðslur og ríkis- ábyrgð í þjóðaratkvæðagreiðslu, skv. stjórnarskrá okkar. Eins og lengi mun í minnum haft, hafnaði þjóðin þessu alfarið yfir 90% þeirra sem kusu sögðu nei.
Enn við sama heygarðshornið
Þrátt fyrir þessa afdráttarlausu höfnun þjóðarinnar er ríkisstjórnin aftur á fullri ferð í nýjum Icesave-viðræðum við erlenda menn, sjálfsagt undir nýju laga-frumvarpsnúmeri eða greiðslu í öðru formi. Hvort sem er, kýs ríkisstjórnin nú enn að ganga gegn vilja þjóðar sinnar.
Til sjós héti þetta uppreisn og lægju þungar refsingar við.
Eins og allir vita er ástæðan sú að ESB ætlar Íslendingum að greiða Icesave sem er ósannað að við berum ábyrgð á áður en við fáum innlimun. Ríkisstjórnin, sem er fyrst og fremst að vinna að innlimuninni, er því meira en tilbúin að binda þjóð sinni skuldabagga, sem hún ekki vill, til þess að koma henni í Evrópusambandið, sem hún heldur ekki vill!
Trúnaðarmenn okkar eru þannig enn að vinna að hagsmunum sínum og Evrópusambandsins, gegn sinni eigin þjóð.
En, aftur að grein Svavars Gestssonar alþingismanns, ráðherra, sendiherra og sérlegs sendimanns stjórnvalda. Nú hefur forseti Íslands látið það heyrast að komi Icesave-greiðslur aftur upp á borðið sé eðlilegt að bera það mál undir þjóðina. Ég leyfi mér að fullyrða að þorri landsmanna telji það líka.
Svavar Gestsson er nú ekki aldeilis á því máli. Hann virðist telja það eðlilegt að hafni þjóðin einhverju megi klæða málið í nýjan búning og láta það taka gildi án þess að spyrja hana. Þetta álit Svavars sýnir viðhorfið í fílabeinsturni margra stjórnmálamanna: Vilja þjóðarinnar má virða að vettugi ef hann er í vegi fyrir hagsmunamálum stjórnvalda. Svavar segir að forsetinn geti tekið sér þetta vald því Alþingi sé svo óvinsælt. Þetta vil ég leiðrétta: Hann tekur sér ekki þetta vald hann hefur það. Og Alþingi er ekki bara óvinsælt núna, það hefur nær óslitið verið neðst á traust-lista okkar í áratugi líka þegar Svavar Gestsson sat þar.
Svavar bætir því við að svona embættisfærsla sé ekki bönnuð í stjórnarskránni þó að það hefði raunar mátt gera. Spyrja má: Af hverju var það ekki gert. Var ástandið e.t.v. þannig eins og oftar að þingmenn voru með hugann við annað t.d. ráðherrastól eða sendi- herrastöðu eða eftirlaunin sín?
Hitt er umhugsunarefni hvaða afgreiðslu þetta mál og önnur hefðu fengið, hefðu hendur forseta verið bundnar, eða embættið lagt niður eins og sumir vilja?
Um eitt er ég sammála Svavari Gestssyni; það væri sérkennilegt ef Alþingi þyrfti að spyrja forseta fyrirfram hvort hann féllist á hvert mál. En það er ekki þannig og svo lengi sem Alþingi vinnur af heilindum fyrir þjóðina og eftir vilja hennar þarf það og ríkisstjórn ekki að hafa áhyggjur af afskiptasemi forseta. Meðan svo er hinsvegar ekki, þakkar þjóðin Guði fyrir að hér er forsetaembætti með þessi völd.
Það vita flestir að ég hef um margt verið ósáttur við framgöngu og embættisfærslu Ólafs Ragnars það svo að ég hef boðið mig fram á móti honum sem er nær óþekkt þegar um sitjandi forseta er að ræða. Í Icesave-málinu tel ég hins vegar að hann hafi staðið með þjóð sinni og það ber að virða. Þegar landsölumenn, fullir græðgi og sérhagsmunagæslu, vilja selja fullveldi okkar, koma og leita stuðnings hjá Alþingi og íslenskri þjóð vona ég að á Bessastöðum verði líka forseti sem þorir að segja nei.
Baldur Ágústsson