Óli Björn Kárason:

\"Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ætlar að koma málum þannig fyrir að íslensk þjóð telji sig ekki eiga annan kost en að ganga í Evrópusambandið.\"

 

Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna er of upptekin af umsókn um aðild að Evrópusambandinu samhliða því að kollvarpa stjórnkerfi fiskveiða, til að átta sig á þeim gríðarlegu möguleikum sem Ísland hefur í framtíðinni með samvinnu við aðrar þjóðir í Norðurhöfum. Íslensk utanríkisstefna er í molum og miðast við það eitt að komast undir verndarvæng Brussel-valdsins.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ætlar að koma málum þannig fyrir að íslensk þjóð telji sig ekki eiga annan kost en að ganga í Evrópusambandið. Aðrir möguleikar, sem flest bendir til að séu efnahagslega og pólitískt miklu fýsilegri, eru ekki kannaðir eða ræddir. Stefnan er að stilla þjóðinni upp við vegg.

 

Fríverslun í Norðurhöfum

 

Í grein sem birtist hér í Morgunblaðinu 25. október á síðasta ári hélt ég því fram að fríverslun í Norðurhöfum væri mun fýsilegri kostur fyrir okkur Íslendinga en aðild að Evrópusambandinu. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur komið æ skýrar í ljós að hagsmunum Íslands er betur borgið með samvinnu við Noreg, Kanada, Bandaríkin, Færeyjar og Grænland, en með því að ganga til liðs við Evrópusambandið. Margt bendir einnig til að skynsamlegt sé að Rússland verði með í samstarfi þessara ríkja.

Ef utanríkisstefna Íslands tæki eingöngu mið af hagsmunum lands og þjóðar væri utanríkisráðherra þegar búinn að óska eftir viðræðum við stjórnvöld í áðurgreindum löndum um sameiginlega hagsmuni landanna vegna breytinga sem hafa og eru að verða í Norður-Íshafi. Markmiðið er að koma upp formlegum vettvangi landanna vegna sameiginlegra viðskiptahagsmuna, nýtingar auðlinda, náttúruverndar og öryggishagsmuna. Jafnframt að löndin geri með sér fríverslunarsamning og kanni hvort og þá með hvaða hætti það sé skynsamlegt fyrir ríkin að gera með sér samning um frjálst flæði fjármagns og vinnuafls. Utanríkisráðherra á einnig að óska eftir skipulegri samvinnu landanna á sviði vísinda, lista, mennta og menningar.

 

Með fríverslunar- og samstarfssamningi af þessu tagi getur orðið til eithvert mesta hagvaxtarsvæði heimsins. Standi Íslendingar frammi fyrir því að velja á milli aðildar að Evrópusambandinu, með því afsali fullveldis sem því fylgir, eða frjálsu og opnu samstarfi ríkja í Norðurhöfum, er ég sannfærður um að Íslendingar velja síðari kostinn. Þetta veit utanríkisráðherra og því er ofuráhersla lögð á aðildarviðræður við Evrópusambandið og allt annað látið sitja á hakanum. Pólitísk fjárfesting ráðherrans og Samfylkingarinnar í Evrópusambandinu er orðin of mikil.

 

Ekki liggur fyrir hvort pólitískur vilji er meðal umræddra landa að mynda fríverslunarbandalag líkt og hér er lagt til. Þó er ljóst að ráðamenn í löndunum gera sér æ betri grein fyrir mikilvægi norðurslóða. Í síðustu viku var haldinn fundur Norðurskautsráðsins í Nuuk í Grænlandi. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mætti til fundarins og það sýnir betur en flest annað gjörbreytt viðhorf bandarískra stjórnmálamanna til þessa heimshluta. Í Bandaríkjunum gera sér æ fleiri grein fyrir þeim gríðarlegu hagsmunum sem eru í húfi.

 

Ekkert bendir til þess að íslensk stjórnvöld hafi hugað að því hvort og með hvaða hætti breytt stefna bandarískra stjórnvalda hafi áhrif á hagsmuni Íslands. Utanríkisráðherra er blindur og vill ekki sjá eða kanna þá möguleika sem eru fyrir hendi. Utanríkisstefnan er í molum.

 

Áhrifaleysi

 

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía, hefur sagst ætla að „selja“ ESB-ríkjunum aðild Íslands að sambandinu með þeim rökum að Ísland opni leið að auðlindum á norðurslóðum. Evrópusambandið hefur gert ítrekaðar tilraunir til að fá áheyrnarfulltrúa á fundi Norðurskautsráðsins. Í Brussel gera menn sér betri grein fyrir efnahagslegum og öryggislegum hagsmunum en Össur Skarphéðinsson gerir fyrir Íslands hönd. Björn Bjarnason segir í pistli á Evrópuvaktinni 14. maí að það sé engin „tilviljun að norðurslóðaþjóðir vilji ekkert með ESB eða aðild að ESB hafa. Sjónarmið ráðandi afla innan sambandsins stangast alfarið á við hagsmuni þessara þjóða. Þau taka mið af allt annars konar menningu og hefðum. Samræmingarárátta ESB-valdamanna í Brussel fær útrás í því að brjóta allt sem sjálfstætt er og sérstætt undir hið sameiginlega forræði.“

 

Þær breytingar sem eru að verða á norðurskautssvæðinu munu hafa í för með sér gríðarlegar „geopólitískar“ og efnahagslegar breytingar. Íslensk utanríkisstefna miðast við að leiða þessar breytingar hjá sér og láta Evrópusambandinu það eftir að hafa þar áhrif. Mola-stefna utanríkisráðherra miðast við að gera Íslendinga áhrifalitla um þróunina á norðurslóðum og fórna um leið gríðarlegum fjárhagslegum, menningarlegum og vísindalegum hagsmunum. Mola-stefnan felst í því að mæta í myndatöku með öðrum utanríkisráðherrum Norðurskautsráðsins en fljúga síðan til Brussel til að semja um að fulltrúi Evrópusambandsins verði á næstu ljósmynd.

 

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.