Baldur Ágústsson skrifar:

 

Gleðilega þjóðhátíð !

 

Enn rennur upp þjóðhátíðardagur með lúðrablæstri og bumbuslætti, skemmtunum og dansi á götum og torgum. Við gleðjumst á mismunandi hátt en öll fögnum við því sama; frelsi og fullveldi – réttinum til að ráða lífi okkar í því einstaka landi sem Ísland er. Þessi réttur er ekki sjálfsagður eða sjálfgefinn; fyrir honum þurfti og þarf enn að berjast og um hann þarf að standa stöðugan vörð.

 

Ungt fólk, raunar allt fólk til 67 ára aldurs, hefur ekki upplifað annað en frelsi og sjálfstæði. Lifandi minning um erlend yfirráð er að hverfa og með henni etv. skilningur okkar á gildi frelsis og fullveldis. Þó að stundum hafi verið hart á dalnum þessi 67 ár, bætti framtaksemi þjóðarinnar og gleðin yfir sjálfstæðinu það upp. Það eitt að geta tekið stórar sem smáar ákvarðanir sjálf stælti okkur og fyllti metnaði. Á einum mannsaldri höfum við rifið okkur upp úr fátækt, stækkað landhelgina, komið hitaveitu í nær öll hús, stórbætt vegakerfið, menntun og heilbrigðisþjónustu – svo fátt eitt sé nefnt. Sjálfstæðið varð í senn áskorun, hvati og drifkraftur einhuga þjóðar til góðra verka.

 

Frelsi okkar og fullveldi getur glatast.

 

Nú, þegar minningin um líf í nýlendu dofnar, þarf að skerpa hana og kenna nýjum kynslóðum muninn á frelsi og ánauð. Einnig muninn á menningu, trú og tungu okkar og annarra þjóða og menningarheima. Gegnum áratugina höfum við vanist því að alltaf sé næg atvinna, matur í eldhúsinu og hiti í híbýlum okkar. Sömuleiðis lyf og læknisþjónusta ef við veikjumst. Allt getur þetta breyst á svipstundu ef við höldum ekki vöku okkar og skynjum inn í innstu vitund að ekkert af þessu er sjálfgefið. Meira að segja fullveldi okkar sem þjóðar getur glatast – að því er nú þegar sótt úr mörgum áttum. Við þurfum að stjórna lífi okkar, sem ein samstillt þjóð, af skynsemi og festu. Það er ekki kvöð heldur réttindi, raunar forréttindi sem margir ekki njóta. Kennum ungu fólki söguna. Lærum af því sem vel tókst og því sem illa tókst. Skoðum hvorttveggja með stækkunargleri reynslunnar. Lítum til nágrannaþjóða okkar og lærum af reynslu þeirra.

 

Þær hafa margar gefið eftir stóran hluta fullveldis síns, opnað landamæri sín á milli, tekið upp \"fjölmenningu\", leyft tungu sinni og menningu að \"þynnast út\", lagt herafla til styrjalda í fjarlægum löndum, og glímt við vaxandi glæpatíðni og fíkniefnaneyslu. Ætlum við að ganga stíg vandamála í takt við \"fjölskyldu þjóðanna\" eða höfum við krafta og kjark til að stýra okkar málum í annan farveg þar sem það á við? Við þurfum að forgangsraða verkefnum, jafna lífskjör, útrýma fátækt og tryggja öllum þjónustu og öryggi í ellinni þegar starfsævi lýkur. Við verðum að úthýsa græðgi og einkahagsmunum á kostnað þjóðarinnar. Ísland, uppbygging þjóðfélagsins og stjórnun þess á að þjóna þeim íslendingum sem hér vilja búa og starfa, sér og sínum til framfæris og þjóðinni til framdráttar. Ísland má aldrei aftur verða stökkpallur þeirra sem í græðgi sinni og siðblindu einblína á eigin hag og draga efnahag og orðspor þjóðar sinnar í svaðið. Við þurfum að úthýsa stjórnmálakenningum og stjórnsýslu sem leyfir slíkt. Sem þjóð þurfum við samstöðu, heilindi, trú og kjark til að verða það sem við viljum vera.

Í dag fögnum við, vitandi að okkar bíða einstök tækifæri.