Alþingismaður spurði fyrr í mánuðinum hvað ég teldi vera til ráða í skuldavanda heimila og einstaklinga. Svar mitt var eftirfarandi:

 

Það eru tveir valkostir í stöðunni:

 

1. Að stjórnvöld láti reka á reiðanum.

2. Að stjórnvöld grípi til afgerandi aðgerða.

 

Hér er hugmynd um slíkar aðgerðir – tæknilega einfaldar ef vilji og þor er til staðar.

 

A. Alþingi heimilar stofnsetningu Skjaldborgarsjóðs heimila – Skjaldborg.

 

B. Skjaldborg tekur yfir allar skuldir heimila og einstaklinga innan við t.d. X milljónir að nafnvirði við flutning úr Gömlu bönkunum til Nýju bankanna.

 

C. Nýju bankarnir yfirfæra til Skjaldborgar ákveðið hlutfall af öllum innstæðum yfir ákveðnu lágmarki að nafnvirði samtals X milljónir á sama tíma.

 

D. Skjaldborg skuldbreytir yfirteknum innstæðum með útgáfu langtíma skuldabréfa með árlegum afborgunum og lágum – t.d. 2.5% – ársvöxtum.

 

E. Nýju bankarnir yfirfæra til Skjaldborgar innheimtar afborganir og vexti af viðkomandi skuldum heimila og einstaklinga frá flutningi þeirra.

 

F. Skjaldborg endurgreiðir Nýju bönkunum mismun þeirrar yfirfærslu og afslætti frá nafnvirði umræddra skulda við flutning þeirra til Nýju bankanna.

 

G. Skjaldborg skuldbreytir yfirteknum skuldum heimila og einstaklinga til samræmis við ofangreint þannig að núvirði þeirra jafngildi núvirði yfirtekinna innstæðna í D.

 

Fljótt á litið sýnist mér að ENGIN önnur úrræði séu til staðar til að komast út úr þeirri sjálfheldu sem verðtryggingin hefur skapað íslenzku samfélagi. Sjálfheldu, sem má jafna til þess að samfélagið hafi lögbundið að við hrun eins og varð 2008 skyldi samfélaginu rústað efnahagslega til framtíðar.

 

Gunnar Tómasson, hagfræðingur.