Íslenskir skátar fagna því þessa dagana að eitt hundrað ár eru liðin frá því skátastarf hófst á Íslandi. Það gera þeir undir einkunnarorðunum “ævintýrið heldur áfram”.

 

Sem ég nú óska skátahreyfingunni til hamingju með þennan áfanga, þá hvarflar hugurinn, til þeirra ára sem ég átti sjálfur í hreyfingunni frá níu ára aldri.– fyrst sem ylfingur en síðan sem skáti og skátaforingi. Margt rifjast upp s.s.: Útilegur, skátamót, varðeldar, gönguferðir, söngur og leikir. Ég kynntist nýjum félögum, strákum og stelpum – ungum og öldnum. Svo komu fullorðinsárin og lágu spor okkar víða. Einn er nú læknir, annar smiður, þriðji sálfræðingur, fjórði leikari og einn stofnaði virt stórfyrirtæki. Þannig mætti lengi telja. Sumir eru fallnir frá, “farnir heim” eins og við kölluðum það, en eru engu að síður skýrir og nálægir í minningunni.

 

Leikur og þroski

 

Lítið vissi ég sem ungur strákur að skátastarf er annað og meira en leikur einn. Að skilaboðaleikur ylfinga var þjálfun í að hlusta, taka eftir og skila því sem manni var trúað fyrir. Sömuleiðis að gjaldkerastarfið í skátaflokknum tæki mann fyrstu skrefin í því að umgangast peninga af ábyrgð og innrætti heiðarleika og nákvæmni.

 

Að læra þjóðsönginn og allt um íslenska fánann jók virðinguna fyrir landi okkar og þjóð. Að vera síðan foringi flokks og sveitar þroskaði m.a. ábyrgðartilfinningu, mannleg samskipti, umhyggju og stjórnunarhæfileika. Á námskeiðum lærðum við skipulagningu, kennslutækni, stjórnun við varðeld, samstarf við foreldra, kortalestur, umgengni við náttúruna, ótal hnúta og skyndihjálp – sem þá kallaðist “hjálp í viðlögum”.

 

Hér er stiklað á stóru og fátt eitt nefnt. En, þegar saman fór leikur og skemmtilegur lærdómur voru áhrifin merkjanleg: Samheldni, sjálfsöryggi, áræðni, heiðarleiki, hjálpsemi og jákvæðni urðu meira og meira áberandi í fari og persónuleika ungra drengja og stúlkna sem fyrr en varði urðu fullorðin og að hefja þátttöku í hringiðu þjóðfélagsins.

Sjálfur veit ég að tíma mínum í skátunum var vel varið. Þeim er að þakka að ég kom betri og sterkari inn í fullorðinsárin, betur undir nám og störf búinn. Ég veit að mín gömlu skátasystkini eru á sömu skoðun. Það sem meira er; samkenndin og gagnkvæmt traust er enn til staðar. Margt sem ég lærði í skátunum hefur oft komið að gagni. Þörf fyrir skyndihjálp hefur komið upp, reynt hefur á frumkvæði og oft hafa hnútarnir komið sér vel, ekki síst “pelastikk” sem ég kann enn áratugum síðar – bæði einfalt og tvöfalt!

 

Æskan – framtíð þjóðarinnar

 

Foreldrum ræð ég heilt þegar ég segi:

Kynnið ykkur skátastarf fyrir börn ykkar og unglinga. Það er heilbrigt, skemtilegt og þroskandi. Ef þið voruð ekki sjálf í skátunum á margt eftir að koma ykkur gleðilega á óvart. Góð byrjun gæti verið að skoða vefsíðu bandalags skáta – www.skatar.is Skoðið þar hvað skátar hafa fyrir stafni og lesið skátaheitið og skátalögin. Næsta skref er svo að hafa samband við skátafélagið í bænum ykkar eða – á höfuðborgarsvæðinu – félagið í ykkar hverfi. – Það verður tekið vel á móti ykkur.

 

Stjórnvöld, ríki og sveitafélög

 

Ég hvet stjórnvöld til að mæta vel fjárhagslegri þörf skátahreyfingarinnar og annarar heilbrigðrar æskulýðsstarfsemi. Á tímum efnahagsþrenginga er nauðsynlegt að tryggja börnum og unglingum jákvæð, holl og þroskandi viðfangsefni fjarri hættulegum og spillandi freistingum okkar tíma – unga fólkið er framtíð þjóðarinnar.

 

Baldur Ágústsson