Sagt var um þá sem allt vildu láta af hendi, fyrir peninga, að þeir mundu selja ömmu sína ef þeir gætu. Þetta orðalag var hástig þeirrar skömmustu sem segjandinn hafði á þeim sem í græðgi sinni fóru út fyrir öll velsæmismörk.

 

Er fjallkonan föl?

 

Fjallkonan, þessi fallegi persónugervingur Íslands og þjóðarinnar, sem á hátíðisdögum stígur fram og flytur ástarljóð okkar til landsins er því miður að taka við fyrrnefndu hlutverki ömmu gömlu – því miður þó á raunverulegri hátt. Eftir siðferðisbrest og græðgisvæðingu liðinna ára eru þeir orðnir margir sem falbjóða fjallkonuna - fyrir eigin ávinning. Hér verður aðeins tekið eitt dæmi, en þér, lesandi góður, látið eftir að finna hliðstæður vítt og breitt um þjóðfélagið.

 

Landsala – landráð

 

Mikið hefur verið fjallað um hugsanlega sölu á jörðinni Grímsstöðum á Fjöllum og sýnist sitt hverjum.

Talað er um að mikið fé fáist fyrir jörðina og síðan verði þar vinnu að fá.

Aðrir minna á að skv. EES samningnum eigi íbúar Evrópulanda þegar rétt á að kaupa land á Íslandi.

Því miður hafa stjórnamálamenn margsýnt sig að því að gera vafasama samninga og þegar óæskileg glufa finnst er henni ekki lokað heldur er hún notuð sem fordæmi fyrir undanslætti – oft við útlendinga.

 

Ögm. Jónasson innanríkisráðherra hefur látið heyrast að hann sé mótfallinn undanþágu frá lögum sem banna landsölu út fyrir EES. Undir hann heyrir málið og vonandi stendur hann við það. Heldur vekur það þó ugg að hann liggur enn á málinu. Auk þess mun hann eftir fréttum að dæma hafa fengið tilmæli frá viðskiptaráðherra að samþykkja sölu Grímsstaða til milljarðamærings frá Asísku stórveldi.

 

Viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, er eins og allir vita einn af ráðherrum Samfylkingarinnar. Fyrrverandi formaður hennar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og eiginmaður hennar eru nú ásamt fleirum í Asíu í boði milljarðamæringsins að kynna íslensk ljóð sem hann er áhugamaður um!

Öðrum íslendingum hefur hinsvegar verið sagt að maðurinn sé íslandsvinur og þyki harðfiskur og ísl. brennivín hreint hnossgæti – og gott ef ekki hákarl líka! Slíkum hljótum við að selja land.

 

Keðjan gæti semsagt verið svona: Milljarðamæringurinn – Hjörleifur Sveinbjörnsson (kunningi hans og aðstoðarmaður á Íslandi) – Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (eiginkona Hjörleifs og fv. formaður Samfylkingarinnar) – Árni Páll Árnason (viðskiptaráðherra Samfylkingarinnar) – Ögmundur Jónasson (innanríkisráðherra VG)

 

Hvað gerir Ögmundur?

 

Ég skora á innanríkisráðherra að veita ekki undanþágu frá lögum um landsölu – hvorki nú né í framtíð. Ég minni hann á grein hans um hvort ekki sé tímabært að ganga úr EES – allavega að stöðva landsölu þangað líka. Það er auðvelt og sjálfsagt að eiga margskonar viðskipti og menningarleg samskipti við aðrar þjóðir án þess að selja ættjörð sína.

 

Er hún einusinni okkar að selja? Við höfum hana aðeins að láni frá afkomendum okkar.

 

Ísland er ekki til sölu.

 

Íslenskri þjóð var gefin ein ættjörð. Hún er einstök. Landamæri eru skýr og geta hjálpað okkur við að byggja upp öruggt þjóðfélag. Við eigum matvæli, jarðhita og raforku. Við erum nær því að vera sjálfum okkur nóg en margar aðrar þjóðir. Innra stoð- og stjórnkerfi er með því sem best gerist. Við erum vel tæknivædd og menntuð á nær öllum sviðum. Við eigum ekki í styrjöldum, höldum ekki úti her. Hér eru einstök tækifæri – ef við þorum að nota þau og þorum að segja nei þegar það á við. Ef við berum virðingu hvert fyrir öðru og vinnum bug á græðgi og siðblindu.

 

Málið er einfalt: Engin þjóð með snefil af sjálfsvirðingu selur ættjörð sína; hvorki beint né óbeint; hvorki í bútum né heilu lagi. 

 

Höfundur er fv. forstjóri og forsetaframbjóðandi

 

Birt í Mbl. 23.11.2011