KIRKJAN OG RÍKIÐ
Baldur Ágústsson
"Þjóðkirkjan hefur í það heila notið trausts umfram ýmsar stofnanir ríkisins og verið ómissandi þáttur í lífi þjóðarinnar." Í gildandi stjórnarskrá okkar er að finna eftirfarandi greinar:
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.
63. gr. [Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.]1) 1)L. 97/1995, 1. gr.
64. gr. [Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu. Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að. Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.]1) 1)L. 97/1995, 2. gr.
Á grundvelli þessara stjórnarskrárákvæða höfum við hér þjóðkirkju sem greiðir kostnað við kirkjur og klerka. Þar kemur á móti framlag okkar skattborgaranna og greiðsla til presta fyrir ákveðna einkaþjónustu ss. giftingar og skírnir.
Aðskilnaður?
Um nokkurn tíma hefur borið á umræðu gegn ríkisstuðningi við þjóðkirkjuna og kristniboð í skólum. Fer þar ma. fólk sem ekki trúir á Guð og hafnar því að börn þeirra séu látin sitja undir kristniboði og iðka kristna trú í skólum enda sé ósannað að Guð sé yfirleitt til. Rökstuðning og dæmi um þetta má td. finna á www.siðmennt.is Stundum er bent á að margir hafi undanfarið sagt sig úr þjóðkirkjunni og það talið vitna um minnkandi trúhneigð landsmanna. Ég leyfi mér hinsvegar að halda því fram að stór hluti þessa hóps hafi ekki fallið frá trú sinni heldur ofboðið æðsta stjórn kirkjunnar enda hefur hún fengið á sig alvarlega gagnrýni á síðustu árum. Það er von mín að sú þögla ádeila sem í úrsögnum felst verði stjórnendum hennar áminning og hvatning til endurbóta sem endurvekji traust þjóðarinnar á henni. Kirkjan verður að rísa undir eðlilegum væntingum þeirra sem þar vilja eiga sitt trúarlega heimili.
Þjóðkirkjan hefur í það heila notið traust umfram ýmsar stofnanir ríkisins og verið ómissandi þáttur í lífi þjóðarinnar. Nú bregður hinsvegar svo við að úr tveimur hornum hyllir undir að tengsl kirkju og ríkis verði rofin. Annarsvegar liggja fyrir drög að nýrri stjórnarskrá þar sem kveðið er á um trúfrelsi en ekki er minnst á þjóðkirkju. Hinsvegar má á vefsíðu innanríkisráðuneytisins finna Drög að frumvarpi til breytinga á lögum um skráð trúfélög til umsagnar. Í þessum laga-drögum er þjóðkirkju hafnað, td. með fyrstu grein: Staða skráðra lífsskoðunarfélaga verður jöfn stöðu skráðra trúfélaga. Þessi drög eru allítarleg og hvet ég lesendur til að kynna sér þau á www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27331 Þá vekur það athygli að nefnd sem mun vera ráðherra til ráðgjafar á þessu sviði, verður styrkt með viðbótar fulltrúa svo fjórir verði í nefndinni. Skal hinn nýji fulltrúi vera tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Ljóst er að ef ofangreindar stjórnarskrártillögur eða lög taka gildi er horfið frá þjóðkirkju og félög trúaðra og vantrúaðra sett undir sama hatt í lagalegum skilningi séð. Tekið skal fram að hér er ekki mótmælt skoðunum eða réttindum vantrúaða á nokkurn hátt.
Gildi þjóðkirkju
Ég ætla mér ekki þá dul að sanna eða afsanna að Guð sé til. Kristin trú er líka einmitt það trú en ekki vísindi. Hitt vil ég segja að trúuðum er mikils virði að eiga Guð í hjarta sínu og að ekki sé á nokkurn hátt sé gert lítið úr honum og kirkju hans. Kristin gildi leiða lög okkar og breytni og hafa þannig verið sterkur þáttur í uppbyggingu íslensks þjóðfélags. Kristin fræði hafa einnig verið hluti af uppeldi okkar grunnur sem hver einstaklingur hefur síðan byggt á að eigin vild. Barnatrúin býr í okkur flestum og stór hluti þjóðarinnar fyllir Guðs-hús á trúarhátíðum. Margir fara þangað miklu oftar. Í gleði, sorg og ótta leitar fólk einnig þjónustu presta í kirkju eða heima. Þjóðkirkjan og meðlimir hennar hafa að sjálfsögðu ekki amast við því að aðrar kirkjur og sérsöfnuðir starfi í landinu. Heldur ekki því að þeir sem það kjósa, standi utan hennar og stofni um það félög. Það er meira en leyfist í sumum löndum.
Ég leyfi mér að hvetja stjórnvöld til að vega hvergi að þjóðkirkjunni heldur styðja hana og vernda. Jafnframt væri rétt að endurskoða starf hennar með það fyrir augum að hún taki í auknum mæli að sér mannúðar- og líknar-mál svo og sálgæslu sem vaxandi þörf er fyrir.
Á Páskum 2012, Baldur Ágústsson
Fv. forstj. og forsetaframbjóðandi.
Baldur Ágústsson