Hvert ár rennur þessi dagur upp og minnir á sig með lúðrablæstri og bumbuslætti. Fánar blakta allstaðar og fólk streymir um göturnar í skrúðgöngum. Dagur samkenndar og gleði. Dagur okkar allra frjálsra íslendinga. Ef nokkurntíma er ástæða til að fagna og gleðjast saman þá er það á þessum merkisdegi afmælisdegi Jóns Sigurðssonar frelsishetju sem afar okkar og ömmur völdu sem fullveldisdag þegar Ísland varð loks frjálst og fullvalda árið 1944.
Það er gott að vera Íslendingur raunar hrein forréttindi. Víðátta, fegurð, gnótt matar, hreint vatn og friðsæld eru hlunnindi okkar og hlutskipti. Það sama verður því miður ekki sagt um fjölda annarra þjóða víða í heiminum. Á Íslandi er ekkert að sem við getum ekki bætt úr sjálf. Minnumst þess sérstaklega í dag, en gleymum því aldrei.
Ef við lítum yfir þann stutta feril sem við höfum átt sem sjálfstæð, fullvalda þjóð sjáum við framfarir, þrek og dugnað í 68 ár. Stöðugt höfum við bætt og byggt um allt land.
Við höfum stórbætt vegakerfið, fært landhelgina úr 4 sjómílum í 200 og búum nú að einum bestu fiskimiðum heims. Menntakerfið er gott, heilbrigðisþjónusta sömuleiðis. Þá erum við svo tæknivædd að fáar þjóðir standa okkur á sporði. Allt þetta og meira til höfum við framkvæmt sjálf á einum mannsaldri - og megum vera stolt af.
Valdið, og ábyrgðin, er okkar.
Ekki skal ég halda því fram að á Íslandi sé allt fullkomið og ekkert þurfi að bæta. Síður en svo. Hér er hinsvegar flest sem við þurfum og þekking til að njóta þess og nota. Ef til vill snýr nú það sem brýnast er að okkur sjálfum, einstaklingum og þjóðarheildinni. Við megum ekki missa sjónar á því að við erum öll á sama báti. Velgengni okkar veltur á því að við stöndum saman um hag og velferð allra, allt frá ungabörnum til aldraðra. Að við gerum ekki óhóflegar kröfur á aðra og á þjóðarbúið, heldur sníðum okkur stakk eftir vexti. Við þurfum að hafa hugfast að velmegunarárin fyrir hrun koma ekki aftur enda voru þau aldrei til í raunveruleikanum. Þau voru glapsýn byggð á draumórum og að hluta á óheilindum. Lærum af þeim og byggjum framtíðina á traustari grunni. Jöfnum lífsgæðin og treystum á eigin færni. Til lengdar verður það affarasælast.
Hengjum ekki framtíðarsýn okkar á að erlendir fjárfestar, ríkissjóður eða aðrar þjóðir fylli vasa okkar af ókeypis gulli. Við erum lítil þjóð sem ekki þarf að gleypa heiminn. Föngum hamingjuna á okkar eigin forsendum og eigin hraða. Styrkjum innviði þjóðfélagsins, ráðumst gegn óréttlæti og hverskonar böli. Búum við mannúð, gleði og öryggi, laus við þá firringu sem stöðugt sækir fram. Og leggjum rækt við menningu okkar, tungu og listir.
Á tímum fjölþjóðahyggju og fjölmenningar dvínar metnaður og virðing fyrir menningararfinum og heilbrigðum lífsgildum sem gætu skilað okkur langt á veg. Í staðinn kemur alvald peninganna og sinnuleysi okkar almennings. Leyfum okkur aldrei að vanrækja það sem íslenskt er til að lepja upp það sem verra er með öðrum þjóðum við eigum betra skilið.
Gleðilega þjóðhátíð.
Baldur Ágústsson