Upphaf varnarsamstarfs við Bandaríkin var í júlí 1941 þegar hingað kom 6. herfylki landgönguliðs ameríska flotans og kunngerður var samningur um varnir Íslands sem hafði verið í undirbúningi. Bandaríkjamenn taka þar með við vörnum Íslands hálfu ári áður en þeir urðu stríðsaðili. Bandaríkin eru með öðrum orðum sem hlutlaust land að vernda hagsmuni sína með hernaðarlegri aðgerð vegna mikilvægis legu Íslands. Árið 1949 verður Ísland aðili að Atlantshafsbandalaginu og nýtur samkvæmt V. grein stofnsamningsins verndar aðila þess. Þá tóku Bandaríkin á sig tvíhliða skuldbindingu um að bregðast Íslandi til varnar með varnarsamningnum frá 1951 og er það eini slíki samningur þeirra við erlent ríki. Bandarískur herstyrkur var samfleytt á Íslandi frá 1951 til 2006. Herstöðin í Keflavík hefur áfram afgerandi geostrategíska þýðingu í kalda stríðinu. Hörð andstaða gegn varnarsamvinnunni var fyrst og fremst hugsjónamál öfgaafla til vinstri, með Þjóðviljann að málgagni.
Eftir fall Berlínarmúrsins 1989, sameiningu Þýskalands og aðild Póllands, Ungverjalands og Tékklands að NATO, hverfa þau mál sem þrætuepli úr stjórnmálaumræðu á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hafði fullan sigur í harðri baráttu fyrir aðild Íslands að NATO og veru Bandaríkjahers í landinu.
Á árinu 2006 verða afdrifarík kaflaskipti í varnarmálasögu Íslendinga. Bandaríkjaher hverfur þá að fullu frá Íslandi en um árabil hafði verið dregið úr herstyrknum. Ríkisstjórnir leiddar af Sjálfstæðisflokknum höfðu af fremsta megni reynt að fá því framgengt að haldið yrði áfram lágmarksstyrk til loftvarna. Þetta var líka talið þeim mun líklegra að Bandaríkjamenn höfðu þá lokið mjög kostnaðarsömum endurbótum og viðhaldi á herstöðinni. En því miður var varnarmálaráðherrann Donald Rumsfeld misvitur um fleira en stríðsreksturinn í Írak og fyrirskipaði brottför alls liðsins í Keflavík í október 2006.
Eftir brottförina kom ríkisstjórn Geirs H. Haarde á fót Varnarmálastofnun. Stofnunin sá um rekstur loftvarnakerfis með fjórum öflugum ratsjám, gagnaflutningskerfi, sérstakri stjórnstöð í Keflavík og alla öflun og greiningu hernaðarsamskipta við NATO og aðildarríkin. Sömuleiðis veitti hún nauðsynlegan stuðning við loftrýmisgæslu sem aðildarríki NATO hafa fallist á halda uppi á Íslandi. Þá skyldu haldna árlegar Northern Viking-heræfingar á Íslandi en þær hafa sum árin fallið niður.
Þegar ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við 2009 var Varnarmálastofnun því miður lögð niður og verkefnum hennar dreift á ýmsar stofnanir. Varnarmálastofnun var skref í þá átt að Ísland sem fullvalda ríki leitaðist við að hafa sjálfstæð tök á öryggis- og varnarmálum. Það skref var stigið til baka, væntanlega vegna andúðar annars stjórnarflokksins á varnarmálum. Um þau er engin almenn umræða á Íslandi svo sem tíðkast í öðrum löndum okkur tengdum.
Stefna varðandi Norðurskautsráðið var mörkuð í þingsályktunartillögu frá 2011. Svo sem þar segir m.a. að hagsmunir Íslands skulu tryggðir með að efla og styrkja ráðið sem mikilvægasta samráðsvettvanginn um málefni norðurslóða. Ekki ber að einblína á þrönga landfræðilega skilgreiningu heldur líta á norðurslóðir sem víðtækt svæði í vistfræðilegum, efnahagslegum, pólitískum og öryggistengdum skilningi. Og þá myndar Hafréttarsamningurinn hinn lagalega ramma.
Áhugi Evrópusambandsins fyrir málefnum norðurslóða fer vaxandi í kjölfar aukins mikilvægis auðlinda svæðisins og opnun þess fyrir siglingum. Þannig yrði aðild að Evrópusambandinu líklega til þess fallin að stuðla að evrópskum fjárfestingum á Íslandi á sviði norðurslóðarannsókna, í orkumálum, flutningum í tengslum við auðlindanýtingu á Norður-Íshafi og opnun nýrra siglingaleiða til norðurs. Ekkert bólar að sjálfsögðu á því á meðan aðildarmál okkar eru óútkljáð. Hins vegar virðist allt slíkt nú í boði Kínverja vegna strategískrar stöðu landsins.
Kína hefur 2,3 milljónir manna undir vopnum og er Þjóðarfrelsisherinn þar með sá stærsti í heimi. Hann styðst við öflugan flugher og strategískan kjarnavopnabúnað. Vígbúnaði þeirra fleygir fram, sérstaklega að því er varðar sterkan sjóher, langdrægari með flugvélamóðurskipum. Þessi nýja stefna að verða meiriháttar sjóveldi var tilkomin vegna ósættis við grannríki um lögsögu á hafinu. Kína á í deilum við Japan um lögsögu í Austur-Kínahafi og suður eftir öllu hinu víðfeðma Suður-Kínahafi við Víetnam, Malasíu, Filippseyjar og Brunei. Kínverjar segja að hafsvæði þessi varði þjóðarhagsmuni sem siglingaleið og öryggissvæði. Grannþjóðirnar hafa áhyggjur af að Kínverjar reynist ekki viljugir að leysa deilumál friðsamlega. Velji Kínverjar þá leið að sýna styrk sinn með flotaæfingum í Suður-Kínahafi er eins víst að þar byrji vígbúnaðarkapphlaup. Þar hafa Bandaríkjamenn aukið sína viðveru vegna samningsbundinna varnarskuldbindinga við þjóðir á svæðinu og óttast er að ekki beri að útiloka árekstra.
Nýtt áhersluatriði Kínverja snertir norðurskautið vegna opnunar nýrra siglingaleiða og jarðgass- og olíuauðæfa á hafsbotni á svæðinu. Í nýafstaðinni heimsókn forsætisráðherra Kína, Wen Jiabo, kom hann fyrst til Íslands á leið sinni til Evrópulanda. Kínverjar virðast líta svo á að aðild að Norðurskautsráðinu skipi smáríkinu Íslandi í flokk með hinum stærri. Þeir reyna sem ákafast fyrir tilstilli Huangs Nubo að fá yfirráð yfir landrými á Grímsstöðum á Fjöllum.
Obama og ráðherrar hans hafa tekið undir það sjónarmið að Kyrrahafssvæðið og Asía sé orðin þungamiðjan (e. pivot point) í strategískum hernaðaráætlunum. Sé eitthvað til í þessu gætu vesturveldin verið að nálgast tímamót varðandi mat á eigin stöðu. Ísland og Bandaríkin hafa átt samleið síðastliðin 80 ár vegna gangkvæmra hagsmuna og svo verður vonandi eftirleiðis. Enn sem komið er hafa Bandaríkjamenn verið tregir í taumi varðandi sameiginlega hagsmunagæslu á norðurslóðum. Nú er tími til kominn að líta til nýrra verkefna. Þar mætti nefna samstarf um mengunareftirlit og björgunarstarfsemi í Keflavík milli landhelgisgæslna landanna. Það yrði að minnsta kosti til þess að Bandaríkin hefðu einhvern sýnileika á Íslandi annan en hlutdeild í loftrýmisgæslunni. Hinn kosturinn gæti verið að hægt og bítandi kæmu Kínverjar sér fyrir hér og Ísland yrði þeirra útvörður gegn Bandaríkjunum. Hlutverki Íslands yrði snúið við frá því sem var í kalda stríðinu. Er það ekki 99 ára draumur stuðningsaðila Huangs Nubo?
Höfundur er fyrrverandi sendiherra.
Eftir Einar Benediktsson