Nú um helgina er boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla um stjórnarskrártillögur stjórnlagaráðs. Ætti kannske að kallast skoðanakönnun, því hún er aðeins ráðgefandi til hvers sem það svo er að biðja þjóðina ráða ef ekki er ákveðið að fara eftir niðurstöðunni !
Í núgildandi stjórnarskrá segir um trúmál og þjóðkirkju: Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Þetta ákvæði er ekki að finna í frumvarpi stjórnlagaráðs. Það er miður, því að í þúsund ár höfum við verið kristinnar trúar og þangað sótt viðmið í lög, siðferði og menningu. Ég hef sagt það áður og segi enn: Styðjum okkar kristnu kirkju og fáum henni fleiri verkefni td. á sviði líknar og mannúðarmála. Eins og hingað til hefur svo hver einstaklingur trúfrelsi.
Í 74. grein núgildandi stjórnaskrár er talað um félagafrelsi. Þar segir ma.: Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang . . . . Þetta er sterk yfirlýsing og getur verið lögreglu og ráðherra dómsmála styrkur og haldreipi í baráttu við glæpasamtök. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er þetta ákvæði ekki að finna. Það er til vansa að afnema þessa heimild nú þegar lögreglan hefur ítrekað bent á vaxandi ófyrirleytni og umsvif skipulagðra glæpagengja.
Eftir því er tekið að ákvæði í 72. gr, 2. mgr. núgildandi stjórnarskrár er sérstaklega nefndur sá möguleiki að takmarka rétt erlendra aðila til fasteigna- og fyrirtækja-kaupa á Íslandi. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er þessa ekki getið með jafnsterkum hætti. Hér skýtur skökku við þegar ásókn erlendra aðila í auðlindir Íslands, aðstöðu hér og áhrif hefur aldrei verið meiri.
Þessu þarf að breyta því meirihluti handhafanna er yfirleitt úr hinum ráðandi meirihluta Alþingis og gagnast því vart sem hlutlaus öryggisventill eins og við höfum litið á forseta Íslands. Frumvarp stjórnlagaráðs gerir hinsvegar ráð fyrir að forseti Alþingis verði eini handhafi forsetavalds. Semsagt, breyting sem ekki leysir vandann.
Flestir sjá að með gr. 111 er verið að opna leið til inngöngu í ESB nokkuð sem engum hugkvæmdist við stofnun lýðveldisins að nokkurntíma yrði á dagskrá nýfrjálsrar þjóðar - og því er ekki að finna neitt um slíkt í núgildandi stjórnarskrá. Nú er hinsvegar svo komið þó að ákafir landsölumenn muni þvertaka fyrir það. Hvað sem hver segir verður ekki framhjá því horft að hér eru menn að leika hættulegan leik með fjöregg þjóðarinnar frelsi hennar og fullveldi. Þeir fá ekki minn stuðning til þess. Ég segi nei hvað segir þú?