Víst er fargi létt af fólki nú þegar fyrsta vinstri ríkisstjórn lýðveldisins sem haldið hefur út í heilt kjörtímabil er farin frá. Þegar hún var kosin 2009 var það vegna loforða um betri tíð og blóm í haga – margskonar „blóm“. Fátt blóma kom þó úr gróðurhúsi ríkisstjórnar alþýðunnar – og mest voru það frostrósir. En þetta vitum við öll og ekki skal fjölyrt hér um þann harmleik – aðeins nefnt að þeir sem lofa, ljúga síðan og svíkja, falla fyrr eða síðar. Það er lögmálið.

 

Ný ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks og þingmenn allir eru boðnir velkomnir til starfa. Margt ungt fólk, með nýfenginn veldissprota í höndum, stendur á krossgötum. Til annarrar handar liggur gamalkunnur slóði. Hann geymir sögu valdapots, hrossakaupa, leyndarhyggju, sérhagsmunagæslu, ósanninda og óheilinda. Til hinnar liðast lítt kannaður stígur heilinda, réttlætis, sanngirni, mannvirðingar, hógværðar, umhyggju og auðmjúks þakklætis fyrir traust þjóðarinnar og það tækifæri sem í því felst til að láta gott af sér leiða. Það er komið að því að velja leiðina.

 

Vonin Kosningaloforðin byggja upp vonina sem við síðan fáum fyrir atkvæðaseðilinn. Vonina um betra líf fyrir okkur og afkomendur okkar. Vonin breytist í væntingu og síðan í gleði og hamingju – eða í reiði og vonleysi ef hún ekki rætist. Það er sárt – mjög sárt. Okkur finnst við hafa verið svikin. Það sem verra er: Börn okkar og barnabörn hafa verið svikin um þá framtíð sem við reyndum að tryggja þeim. Fyrr eða síðar „fjúka hausar“ – með skömm. Það er lögmálið.

 

En eigum við ekki að hefja þessa vegferð okkar nú með Framsókn og sjálfstæðismönnum full vonar? Vonar um að Alþingi og ríkisstjórn feti síðarnefnda stíginn, full metnaðar og einlægs vilja til að standa undanbragðalaust við loforð sín og vinna okkur öllum allt það gagn er verða má. Að gleyma því aldrei að þjóna þjóðinni – ekki Mammon eða öðrum tálsýnum.

 

Og við landsmenn góðir, eigum við ekki líka að setja okkur markmið?

 

Thomas Jefferson, þriðji forseti Bandaríkjanna, sagði eitthvað á þessa leið:

„Fólk sem heldur að það geti búið í þjóðfélagi réttlætis, lýðræðis og jöfnuðar, án þess að hafa nokkur afskipti af þjóðmálum er að óska sér þess sem aldrei hefur verið og aldrei verður.“

Þetta segir okkur að ef við viljum búa í öruggu, heiðarlegu þjóðfélagi er ekki nóg að kjósa á nokkurra ára fresti. Við verðum að fylgjast með, benda á og gagnrýna ef kjörnir fulltrúar okkar standa sig ekki. Minnumst þess sem oft er sagt; völd spilla og algjör völd spilla algjörlega.

 

Sanngjarnt aðhald.

Það er ekki flókið að kveða sér hljóðs í okkar litla þjóðfélagi. Bloggsíður eru öllum opnar og landsþekktir – og óþekktir – einstaklingar eru þegar að gera þar mikið gagn. Flest blöð taka við greinum og útvarpsstöðvar, t.d. Saga, taka við innhringingum í þjóðmálaþætti þar sem hægt er að koma skoðunum sínum á framfæri. Fréttastofur taka líka við ábendingum, a.m.k. ef um stærri mál er að ræða. Þá má á Alþingi.is finna nöfn allra alþingismanna ásamt símanúmerum og netföngum. Ekkert er auðveldara en að senda þeim línu eða hringja.

Allir kannast við „nöldurstundir“ með vinnufélögunum í kaffitímanum. Þetta eru oft sterkar umræður sem e.t.v. skiluðu árangri ef hópurinn sendi tölvupóst til þingmanna með ábendingu, fyrirspurn, gagnrýni eða hrósi. Ísland er heimili okkar allra – því skyldum við ekki segja skoðun okkar á heimilishaldinu?

 

„Sjónvarp Alþingi“

Það var fróðlegt að sjá og heyra stefnuræðu hins nýja forsætisráðherra og ræður þingmanna úr öllum flokkum í beinni útsendingu. Þingmönnum til hróss lögðu margir áherslu á jákvætt samstarf allra þingmanna og flokka. Einn a.m.k. nefndi að allir þingmenn væru kosnir til að ráða málum til heilla fyrir alþjóð og annar taldi það ekki vera skyldu sína að berjast gegn ríkisstjórn eða þingmeirihluta þó sjálfur væri í „stjórnarandstöðu“. Hér kveður við nýjan tón á hinu háa Alþingi. Guð láti gott á vita.

Forsætisráðherra var yfirvegaður og mæltist vel sem oft áður. Þess saknaði ég þó að hann minntist ekki á þátttöku okkar í Schengen-samstarfinu sem þegar hefur reynst okkur dýrkeypt. Það er orðið hreint öryggismál fyrir okkur að ganga úr þessu samstarfi og taka sjálf upp fulla gæslu á landamærum Íslands – nú þegar. Það gera engir betur en íslenskir löggæslumenn og -konur. Þetta er einfalt að framkvæma – vilji er allt sem þarf.

Fjármál almennings tóku drjúgan tíma hjá forsætisráðherra enda hefur of lengi, og of nærri, verið höggvið nærri heimilunum í landinu. Mál er að linni. Þótt fullur vilji ráðherrans verði ekki dreginn í efa mátti samt skilja að fljótlegra og einfaldara yrði að lækka veiðigjöld útgerða og gefa ferðaþjónustunni eftir virðisaukaskatt. Það vil ég hinsvegar segja að óviturlegt er að draga úr tekjum ríkisins rétt á meðan ekki er ljóst hvernig koma á böndum á risavaxinn, uppsafnaðan vanda heimilanna. Ég vildi síður að hinir nýju trúnaðarmenn okkar á Alþingi fengju á sig stimpil sérhagsmunagæslu á kostnað mannúðar.

 

Það yrði blettur á íslenskri þjóð.

baldur@landsmenn.is www.landsmenn.is

Höfundur er fyrrverandi forstjóri og forsetaframbjóðandi.