Hjörleifur Guttormsson:
Kveðjuávarp á flokksráðafundi VG
Fundarstjóri, góðir fundarmenn.
Það eru liðin 14 ár frá því við stofnuðum Vinstrihreyfinguna grænt framboð af bjartsýni og eldmóði. Framan af gekk vegferðin vel og félagsmenn lögðu mikið á sig við að byggja undir stefnuna og bæta við nýjum stoðum. Ég minni á Græna framtíð vorið 2007 og Hafið, bláa hafið 2009.
Veturinn 20082009 reyndi á íslenskt samfélag og við tók ríkisstjórn með þátttöku VG. Endurreisn efnahagslífs hefur að ýmsu leyti gengið vonum framar og fyrir því eru margar samverkandi ástæður. Gjörbreyting hefur hins vegar orðið á störfum flokksins til hins verra. Starfið hefur að mestu takmarkast við að uppfylla lágmarks formkröfur. Með valdboði hefur ágreiningi verið ýtt til hliðar. Ítrekað hefur verið brotið gegn yfirlýstri stefnu og kosningaloforðum. Afleiðingarnar blasa við okkur. Þingmenn hafa gengið úr flokknum eða hætt störfum og fjöldi óbreyttra félagsmanna. Í þessum hópi er Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, forystukraftur í fremstu röð, og nú nýverið Anna Ólafsdóttir Björnsson, fyrrverandi þingkona Kvennalistans. Ég ætla ekki að þreyta ykkur á langri upptalningu á hrapalegum mistökum og óverjandi ákvörðunum síðustu fjögur ár. Nú í ársbyrjun sendi ég þingflokki VG bréf og gerði að umtalsefni vinnubrögðin við aðildarumsókn að ESB og ákvarðanir um úthlutun sérleyfa til olíuvinnslu á Drekasvæði. Að vanda komu engin viðbrögð. En þau eru reyndar fleiri stóru málin sem hrúgast hafa upp; nú síðast vinnubrögðin í stjórnarskrármálinu.
Stærst er þó ákvörðunin um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Það er göróttasti kokteill sem blandaður hefur verið um langt skeið, óverjandi, siðlaus og eitraður fyrir flokkinn. Ég líkti þessu við tundurskeyti vorið 2009. Ómerkilegast var að láta líta svo út sem verið sé að sækja um ESB-aðild til að þjóðin gæti tekið ákvörðun um málið. VG sem flokkur bæri samkvæmt því enga ábyrgð á fyrirhuguðum aðildarsamningi. Enginn slíkur samningur gat hins vegar orðið til nema með samþykki beggja ríkisstjórnarflokka og þar með uppáskrift VG. Hér var ekki verið að sækja um aðild þjóðarinnar vegna, heldur til þess eins að halda ríkisstjórninni á lífi. Flokkurinn siglir nú inn í alþingiskosningar með frambjóðendur sem vilja ljúka aðildarviðræðum og skrifa upp á aðildarsamning við ESB. Boðaður hægagangur er augljós blekking, sem hentar Samfylkinguni ágætlega til að viðhalda ferlinu og halda VG áfram í gíslingu. Á meðan flæða milljarðar inn í landið frá ESB í formi svonefndra IPA-styrkja. Einhverntíma var sagt að ekki skuli bera fé í dóma, en sú tíð er löngu liðin. Og andstaða VG við aðild, hvernig birtist hún okkur? Á síðasta landsfundi var ályktað að það væri eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar. Ég spyr: Hvar sér þessa stað? Hvar eru ræður og greinar frá ráðandi forystu um ólýðræðislegt og yfirþjóðlegt eðli ESB?
Á landsfundinum 2011 var líka ályktað um norðurslóðir og að umhverfissjónarmið og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar ætti ávallt að leggja til grundvallar auðlindanýtingu þar, ekki síst með tilliti til loftlagsbreytinga. Í hrópandi mótsögn við þetta tók formaður flokksins sér nýverið fyrir hendur, óvænt og umræðulaust, að styðja leitar- og olíuvinnsluleyfi með möguleika á framlengingu til allt að 30 ára. Þannig eru refirnir skornir í flokki sem hefur sjálfbæra þróun að leiðarljósi á hátíðarstundum. Góðir fundarmenn. Svona þurfti þetta ekki að þróast, ef allt hefði verið með felldu. Því miður sé ég þess engin merki að Eyjólfur hressist. Þvert á móti er siglt hraðbyri upp í fjöru, með sömu áhöfn við stýri, forystu sem komið hefur flokknum í þessa dapurlegu stöðu. Ég kveð Vinstrihreyfinguna grænt framboð, hér og nú, með blendnum tilfinningum, reynslunni ríkari, og þakka um leið mörgum ykkar fyrir langa og um margt ánægjulega samfylgd. Lifið heil.
Hjörleifur Guttormsson