Það var húsfyllir í Laugardalshöll í síðustu viku þegar Hátíð vonar var haldin ekki aðeins einu sinni heldur tvö kvöld í röð. Trú, von og kærleikur fyllti þetta stóra hús.
Fólk úr hinum ýmsu söfnuðum og deildum kristinnar kirkju kom þarna saman til að biðja og syngja. Til þess að treysta trú sína og heiðra þríeinan Guð sinn. Meðal góðra ræðumanna voru biskup Íslands og Franklín Graham, sonur Billy Graham sem í áratugi var einhver þekktasti og vinsælasti predikari heims, en býr nú í hárri elli í Bandaríkjunum. Hann má hinsvegar sjá og heyra á gömlum kvikmyndum sem fást keyptar en eru einnig oft sýndar á sjónvarpsstöðinni Omega.
Franklin sonur hans hreif gesti hátíðarinnar með ræðu sinni. Það gerðu líka kórar hinna ýmsu safnaða sem þarna lögðust á eitt og sungu saman svo sómi var að. Reyndar hafði Franklin á orði að helst vildi hann taka kórana með sér heim til Bandaríkjanna svo hrifinn varð hann af þeim!
Mest voru sungin falleg og lífleg trúarlög, svo lífleg að sumir dönsuðu við þau. Það fór vel á því að beðið var fyrir landi og þjóð og sungið Ísland er land þitt... Það hljómaði tignarlega í flutningi eitthundrað söngvara auk margra samkomugesta sem tóku undir. Þetta fallega lag og ljóð veitir fólki innblástur trúar og ættjarðarástar hvar sem það er sungið. Laugardalshöllin var þarna vissulega umgjörð við hæfi.
Margir eru þeir sem finna dýrmætan frið og öryggi í trú sinni. Þá sækir fólk styrk og samveru í iðkun trúar. Hátíð vonar var þar engin undantekning og mætti gjarnan verða árviss atburður og víðar á landinu en í Reykjavík.
Skipuleggjendum hátíðarinnar og starfsfólki öllu sé þökk.
Höfundur er fv. forstjóri og forsetaframbjóðandi.
baldur@landsmenn.is
www.landsmenn.is
Baldur Ágústsson