Eftir Friðrik Georgsson

 

25. nóvember 2011

"En allt kemur fyrir ekki, engum alþingismanni eða ráðherra hefur dottið í hug að endurskoða afstöðu sína og koma með frumvarp sem segir okkur úr Schengen."

 

Til hamingju með afmælið, fyrrverandi ráðherrar og alþingismenn, þið sem tókuð þá ákvörðun að ganga í Schengen.

 

Aðalatriðið í ykkar málflutningi var að þurfa ekki að hafa vegabréfið meðferðis, því það væri svo íþyngjandi, nóg væri að hafa bara persónuskilríki. En því miður, við Íslendingar áttum engin önnur skilríki en vegabréfið. Og tíu árum síðar þurfum við enn að hafa vegabréfið með okkur til Schengen-landa og aldrei verið meiri þörf á því en einmitt nú.

 

Hver var þá ávinningurinn með inngöngu okkar Íslendinga í Schengen? Hefur einhver séð eða fundið þann ávinning, eða var þetta bara hégómagirnd fyrrverandi ráðamanna, svari nú hver fyrir sig.

 

Margir hafa skrifað góðar greinar um mistökin og vil ég nefna þá Hjörleif Guttormsson og Leif Jónsson auk fjölda annarra. En allt kemur fyrir ekki, engum alþingismanni eða ráðherra hefur dottið í hug að endurskoða afstöðu sína og koma með frumvarp sem segir okkur úr Schengen.

 

Ef við lítum til baka tíu ár aftur í tímann og veltum aðeins fyrir okkur hvaða afleiðingar það hafði að fella niður vegabréfaskoðunina. Í fyrsta lagi gátum við ekki lengur haft eftirlit með þeim sem hingað komu og skyldi einhverjum detta í hug að það hefði verið til bóta? Af hverju gengu Bretar ekki í Schengen? Svar þeirra var að þeir vildu fylgjast með þeim sem kæmu til landsins. Í öðru lagi hvað halda landsmenn að séu margir í landinu án leyfa þegar þúsundir landlausra einstaklinga voru í Schengen-ríkjunum þegar við gengum inn? Auðvitað var þetta fólk alsælt yfir því að þurfa ekki lengur að svara fyrirspurnum vegabréfaskoðunarmanna með innkomu til Íslands.

Þar með fluttist vandamálið yfir á lögreglumanninn sem var við sín lögbundnu störf úti í þjóðfélaginu. Glæsileg aðgerð, sem gaf misindismönnum tækifæri til að athafna sig í rólegheitum, en jafnframt sló þetta vopnin úr höndum tollgæslu með virku eftirliti.

 

Það má því segja að það sé eins og dropi í hafið að halda áfram upptalningu á þeirri óhagræðingu sem þessi aðgerð hafði fyrir okkar litla land. Nú mundi einhver álykta að þetta hlyti að hafa haft einhverja hagræðingu í för með sér, eins og t.d. sparnað fyrir ríkissjóð, en því miður, því var ekki að heilsa, heldur jukust útgjöldin um tugi milljóna og eiga enn eftir að aukast mikið í framtíðinni.

 

Þó að það sé ekki hægt í einni lítilli grein að upplýsa öll þau útgjöld, sem fólust í að fella niður vegabréfaeftirlit eða erfiðleikana sem fólust í því að víkka báknið út verð ég samt að minnast á lítið dæmi. Þegar fjölmiðlar segja, hann/hún skal sæta farbanni, hvað þýðir það? Dómarinn setur einhvern í farbann en hann hlýðir ekki skipuninni heldur fer beint í flug og lætur sig hverfa til annars Schengen-lands. Bíðið nú við? Setti dómarinn ekki á hann ökklaband eða eitthvað sem gæfi það til kynna að hann yrði hér um kyrrt á meðan mál hans væri skoðað. Nei, hann var frjáls eins og fuglinn því engin vegabréfaskoðun var til staðar við að hefta för hans úr landi, hún var lögð niður árið 2001. Þetta er bara lítið dæmi. Öll útgjöldin sem urðu til við inngöngu í Schengen, viðbótavinna fyrir löggæslu og erfiðleikarnir við margfalt kerfi gerir það að verkum að tíu ára prufutími sannar að við eigum ekki annað í stöðunni en að segja okkur úr Schengen.

 

Höfundur er fyrrverandi deildarstj. vegabréfaskoðunar.