Jólin eru góður tími til að velta því fyrir sér hversu mótað íslenskt þjóðfélag er af kristinni trú – hve miklu hún hefur skipt okkur gegnum aldirnar. Að segja satt, standa við gefin loforð og sýna kærleika. Allt eru þetta mannkostir sem tryggja okkur betra líf er þeir fylla okkur af heilindum og leyfa okkur að vænta hins sama af öðrum. Kenningar biblíunnar eru um margt undirstaða þeirra laga sem við höfum sett þjóðfélagi okkar. Svona fylgir kristnin okkur fram eftir ævi og verður okkur viðmið um hvað er rétt og hvað rangt – og blessunarlega mörgum ljósið í lífi þeirra. Til kirkjunnar leitum við þegar sorgin knýr dyra, hátíðlegir gleðidagar ganga í garð, þegar við biðjum litlum börnum okkar Guðs blessunar og á sérstökum hátíðisdögum kirkjunnar – eins og um jól. Þegar við lítum til þess hverju kristin trú hefur áorkað og eins hins, ranglætis og mannvonsku sem hún hefur komið í veg fyrir, hlýnar okkur um hjartaræturnar. Þetta gerist því oftar sem við heyrum af þjóðfélögum með allt annað gildismat og önnur trúarbrögð sem verða þeim afsökun, ef ekki beinlínis ástæða fyrir grimmd og líkamsmeiðingum auk andlegrar kúgunar. 

Sorglegt er að sjá fólk, sem fyrir slíku hefur orðið, flutt til um hálfan heiminn til Íslands undir yfirskini björgunar og velgjörnings – sem í hinni stóru heildarmynd heimsins yfir þær milljónir sem bágt eiga, er ekki dropi í hafið. Ekki einn dropi – og samt með ófyrirsjáanlegum afleiðingum í marga ættliði, svo litið sé til reynslu annarra þjóða.

Víða heyrist líka minnst á ISIS og sagan af Trójuhestinum forna rifjuð upp. 

 

Fögur orð eru ekki nóg

Ósjálfrátt leitar hugurinn til orða forsætisráðherra: „Að vel þurfi að taka á móti þessu fólki.“ Vissulega falleg orð, en þó, sé til þess litið að stjórnvöld eiga að sjá um velferð Íslendinga sjálfra, þá hlýtur maður að spyrja: „Hvernig hafa þau tekið á móti öryrkjum og öldruðum, fátækum og sjúkum?“ Fólki af eigin húsi. Þarf e.t.v. að minna stjórnvöld á að þau eru í vinnu hjá íslenskri þjóð? 

Jafn fögur og trúin og kærleikurinn eru er ekki hægt að fylgja honum blindandi – það er að bjóða hættunni heim. Þannig er nú þessi heimur og auðséð að honum er enn ekki stjórnað af konungi konunganna. 

Þó að það flóttafólk sem hingað leitar sé ekki beinlínis á okkar ábyrgð er skiljanlegt að margir finni til með því og vilji hjálpa. Það, hins vegar, að flytja fólk inn í þeim mæli að gagn sé að – ef um „framtíðargagn“ er að ræða, er ekki bara hæpið heldur beinlínis ógerlegt. Þetta sjá þeir sem sjá vilja. Spurningin er eiginlega; fyrir hverja er þessi dropateljara flutningur? Er risinn vaxandi hjálpariðnaður á Íslandi sem þarf að sjá fyrir verkefnum? Starfar hér fólk sem ekki nægir, í nafnleysi, að rétta nauðstöddum hönd heldur hefur þörf fyrir að láta þakka sér fyrir – helst með tárvotum augum? Spyrji nú hver sitt hjarta og svari heilt. 

 

Sláandi er þegar formaður samtaka löggæslumanna talar hreint út frá reynsluheimi sínum og faglegri þekkingu þá sætir hann brigslyrðum, ásökunum og uppnefnum – sem raunar segja meira um þá sem slíku beita en þann sem fyrir verður. Hafi hann – Sigurður Magnússon – þökk fyrir sitt framlag. 

 

Kristin trú hefur fylgt Íslendingum í eitt þúsund ár. Það segir meira en mörg orð um hinn heiðna sið og trúarskiptin að forfeður okkar, víkingarnir, sem voru skiptir í afstöðu til þess hvort ætti að breyta um trú í landinu, settu Þorgeir Ljósvetningagoða til að taka ákvörðun og hétu allir að hlýða úrskurði hans. Ó, að við ættum slíkan stjórnmálamann í dag. Eftir allnokkra umhugsun tjáði Þorgeir þingheimi: „Það mun vera satt, er vér slítum í sundur lögin að vér munum slíta og friðinn.“ 

 

Þorgeiri var sem sagt ljóst að tvenn trúarbrögð í landinu myndu valda ófriði og styrjöldum. Fáein undantekningaratriði voru gefin ásatrúarmönnum til að milda þeim breytinguna – kristnum að meinalausu. 

 

Ýmsir hafa síðan tekið sér penna í hönd og hafa þar vinstri menn farið fremstir í lagasetningu um „trúfélög“ en aðrir setið mis-skömmustulegir hjá, þegar dýrar lóðir hafa verið gefnar fulltrúum fjarlægra trúarbragða sem refsa innfæddum og ferðamönnum fyrir að hafa svo mikið sem biblíu í farangri sínum. Nefndir vinstri menn nota hvert tækifæri til að mæra það sem þeir kalla fjölmenningarþjóðfélag en ég er ekki viss um að það sé til frekar en þorskýsa. 

 

Hafi þeir allir skömm fyrir en Þorgeir Ljósvetningagoði sérstaka þökk. Enginn hefur skrifað heilla orð um trúmál og af meira innsæi en hann – í þúsund ár. Meira að segja forystufólk hinnar lútersku kirkju sem í árhundruð var okkur sameiningartákn berst ekki fyrir styrk hennar og tilveru, heldur lyppast niður gagnvart framandi trúarbrögðum – haldandi að þannig geti „öll dýrin í skóginum verið vinir“. Þeir geta gert betur, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Eftir stendur, hvað getum og viljum við kristnir gera flóttamönnum til hjálpar? Undirritaður mun á næstunni leggja fram hugmynd hér í blaðinu sem verndar bæði hina landlausu og íslenskt þjóðfélag, menningu og tungu. 

 

Guð gefi okkur gleðileg jól og veiti landi og þjóð blessun sína.

 

Höf. er fv. flugumferðarstjóri, forstjóri og frambjóðandi til emb. forseta Íslands. baldur@landsmenn.is