Kjörsókn skiptir miklu

Lýðræði byggir algerlega á að borgararnir fái að taka þátt í ákvarðanatöku. Áhugaleysi um kosningar og síminnkandi þátttaka í þeim er vaxandi vandi í lýðræðisríkjum. 

Eftir því sem sinnuleysi kjósenda eykst færast völd - og auður - sífellt á færri og færri hendur -hendur þeirra sem spila á stjórnmálin, kjósendur og "kerfið". Þetta er m.a. það sem kyndir undir óréttlæti, græðgi og margskonar misferli. Þetta er sú leið sem getur endað með uppreisn. Henni er hinsvegar hægt að "fresta" með, loforðum, eingreiðslum og fríðindum sem eiga að koma til framkvæmda"eftir kosningar og lenda því á næstu ríkisstjórn sem telur sér þau óviðkomandi !! Eða valda verðbólgu sem aftur hækkar útgjöld þeirra sem skulda verðtryggð lán.

Sumir kjósendur hafa lítinn áhuga - eru skiljanlega langþreyttir á árangurslausum "lausnum". Aðrir gefa sér ekki tíma til að kryfja framboð og málflutning frambjóðenda eru auðtrúa, auðblekktir og finna til vanmáttar gagnvart "kerfinu". Er þetta ekki einmitt það sem hentar þeim sem seilast til meiri og meiri valda? - Og höfum við ekki séð þetta ganga svona á Íslandi í áratugi?

Munum að það er ekkert rangt við að sumir búi  við betri efnahag ef um heiðarlega fengið fé er að ræða. Ofurlaun, arðgreiðslur fyrirtækja sem skálda taprekstur þarf hinsvegar að hafa stíft taumhald á þannig að þúsundir fólks þurfi ekki að sækja ölmusumat og eigi ekki fyrir heilbrigðu heimilishaldi þar sem sjúkir fá ummönnun og börn geta stundað það nám sem best ræktar hæfileika þeirra.

Ég vil eindregið leyfa mér að hvetja alla til að kjósa. Munum að við erum ekki bara að taka ákvarðanir fyrir okkur. Komandi kynslóðir erfa það sem við skiljum eftir okkur, hvort sem það er stjórnsýsla, mannvirki, siðferði og samúð með þeim sem eru aldraðir eða sjúkir. Hvernig þjóðfélag verður arfleifð okkar?

 

Fráls frambjóðandi 

Það er eindregin skoðun undirritaðs að forseti ætti alls ekki að koma úr stjórnmálaflokkunum, eða öðrum hagsmunasamtökum. Það mun trufla þegar taka þarf ákvarðanir sem etv. ganga gegn félögum og flokkssystkinum - og sömuleiðis gömlum andstæðingum. Hvorttveggja er slæmt.

Forseti Íslands verður að vera frjáls.

Forseti þarf að vera með hreint sakavottorð, njóta trausts og virðingar. Hann þarf að vera hreinn og beinn og hann stundar ekki pólitíska leiki. Hann er þjóðhöfðingi sem við lítum upp til og treystum. Hann þarf að tala gott mál,og vera stoltur af landi sínu - á jákvæðan og hógværan hátt.

Góður forseti heyrir hjartslátt þjóðar sinnar. Hann gleðst með okkur og syrgir með okkur. Hann þarf að vera alþýðlegur, hlýr, þjóðhollur ættjarðarvinur og líta á Ísland sem heimili sitt og vinnustað.

 

Verksvið

Verksvið forseta má sjá í stjórnarskrá Íslenska Lýðveldisins. Hann hefur meðal annars hlutverki að gegna við skipan ríkisstjórnar. Þá situr hann einnig í forsæti ríkisráðs og veitir þau embætti er lög mæla. Síðast, en ekki síst, samþykkir hann lagafrumvörp. Ljóst er að forseti þarf að hafa góða yfirsýn, gæta réttlætis og grípa í taumana ef borgararnir njóta ekki jafnræðis og heilinda af hendi yfirvalda.

 

Vert er að hafa í huga að þó að forseti geti lagt áhugaverðum hugmyndum og félagasamtökum eitthvert lið, t.d. verið "verndari" skátahreyfingarnar, þá getur hann ekki lofað framkvæmdum eða fjárveitingum líkt og við heyrum stjórnmálamenn gera fyrir allar kosningar - og við kjósendur föllum allt of oft fyrir. Slík loforð forsetaframbjóða yrðu því að teljast marklaus.

 

Hin hliðin

Á ýmsum stigum stjórnsýslunnar geta komi upp hnökrar.  Þá getur komið til kasta forseta Íslands að taka ákvarðanir og hafa bein afskipti af ýmsum málum.

 

Skv. stjórnarskránni, getur forseti beitt til þess nokkrum aðferðum, sem hafa stöku sinnum verið notaðar: Forseti getur td. frestað fundum Alþingis og kallað það saman. Hann getur einnig rofið þing og efnt til nýrra kosninga. Þegar Alþingi er ekki að störfum getur forseti gefið út bráðabirgðalög sem síðan skal leggja fyrir Alþingi til staðfestingar. Þá getur forseti náðað menn og veitt uppgjöf saka.

Öll hafa þessi ákvæði takmörkun í tíma og aðstæðum.

 

Rétt er að taka fram að sum völd forseta skv. stjórnarskrá eru umdeild og þarfnast túlkunar. Þetta er yfirleitt svo vegna þess að þeim hefur aldrei verið verið beitt. Ýmsir orða það svo að slík lög séu fyrnd -  komin hefð á að þeim sé ekki beitt - semsagt ekki í gildi. Þannig umræða varð m.a. um beitingu 26. greinarinnar, sem fjallað er um hér að neðan.

 

26. Greinin

Þessi grein, sem mest hefur verið í umræðunni, segir að þegar Alþingi samþykkir lagafrumvörp eru þau send forsetanum til samþykkis.

 

Forseti getur synjað lagafrumvarpi staðfestingar og er því þá vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessu ákvæði hefur sjaldan verið beitt; dæmi má þó nefna: Fjölmiðlafrumvarpið 2004 og tvö Icesave frumvörp á síðari árum. Til að koma á opnari stjórnsýslu og lýðræði væri gott að koma á beinu sambandi kjósenda við td. umboðsmann Alþingis. Það styttir boðleiðir. Forseti héldi 26. gr. óbreyttri.

 

Þegar við lesum þessi ákvæði um hlutverk forseta verður að segjast að þau eru harla góð. Þau setja varnagla við misnotkun td. Alþingis og sterkra hagsmunahópa á lagasetningu eða kúgandi misrétti - ef slíkt kemur upp. Það er gott. Mjög gott. Við höfum séð það gerast að forsetinn er síðasta varnarlína okkar á neyðarstundu - henni megum við ekki glata

 

Þegar slík tilfelli koma upp skiptir öllu að forsetinn bregðist fumlaust við og taki, eftir atvikum, stjórn mála í sínar hendur. Slíkt ástand kemur sem betur fer ekki oft upp. Það getur hinsvegar varað vikum saman

 

Tvíþætt hlutverk 

Vegna þessa þarf hinn “mjúki” forseti, hvers réttsýni og drengskap við treystum, að geta brugðið sér í líki baráttumanns fyrir og með þjóð sinni, með hagsmuni hennar að leiðarljósi.

Þá skyldi hann, Alþingi og ráðherrar rækta með sér jákvætt samstarf - öllum til góða.

 

Góður forseti heyrir hjartslátt þjóðar sinnar, gleðst með okkur og syrgir með okkur. Forsetinn þarf að vera alþýðlegur, hlýr, þjóðhollur ættjarðarvinur og líta á Ísland sem heimili sitt og vinnustað. Já - hann heyrir hjartslátt þjóðar sinnar og við eigum öll að geta treyst á réttsýni hans, drengskap og heilindi. Af því leiðir nauðsyn þess að við kjósum forseta sem í engu hefur hagsmuna að gæta, hvorki greiða að gjalda né harma að hefna.

 

Á kjarnyrtri íslensku getum við sagt:

Við þurfum forseta sem hefur hlýtt hjarta, er drengur góður og með bein í nefinu.

 

Baldur Ágústsson

 

Höf. er fyrrv. forstjóri, flugumferðarstjóri og
frambjóðandi í forsetakosningum 2004

Birt í Mbl. 5.4.2016 undir heitinu forsetakosningar.

Birt hér, lítillega uppfærð, 21.4.2016 undir heitinu forsetakosningar 2016

 

baldur@landsmenn.