Nýlega átti ég leið framhjá biðskýli strætó. Á endavegg skýlisins, eins og á þeim mörgum, var auglýsing: Ekki ólagleg ung kona og fyrir neðan hana stóð stórum stöfum: Hverjum treystir þú? Konan er formaður Vinstri Grænna, nú í kosningaátaki - eða atkvæðasmölun. Textinn er auðvitað pen aðferð til að segja:

"Þú getur treyst mér í komandi kosningum - kjóstu mig."

 

 

 

 

 

 

Sporin hræða

Skömmu eftir að "Hrunið" skall á árið 2008 í stjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðismanna sprengdi Samfylkingin það samstarf og bauð Vinstri Grænum að skríða uppí til sín. Meðal stefnumála Samfylkingarinnar var að koma Íslandi í Evrópusambandið. VG höfðu hinsvegar mjög ákveðnar skoðanir gegn því: Aldregi skyldi það verða.

 

Báðir voru þessir flokkar sammála um að íslenskur almenningur yrði ekki látinn greiða skuldir íslensku bankanna enda væru þeir einkafyrirtæki. Sérstök áhersla skyldi lögð á að halda hjólum atvinnulífsins gangandi og að slá skjaldborg um heimilin.

 

Kosningar fóru svo að Samfylkingin og VG fögnuðu sigri og mynduðu ríkisstjórn. Kjósendur önduðu léttar um stund og töldu sig hafa gert það besta í stöðunni; fengið ríkistjórn sem gengi ekki erinda ríkisbubba og erlendra kröfuhafa heldur legðu áherslu á réttlæti, jöfnuð, heiðarleika og gegnsæja stjórnarhætti. Þá fór það orð af VG að þeir væru verndarar þeirra sem minna mættu sín, auk þess að þau mundu að sjálfsögðu koma í veg fyrir að Esb hrifsaði okkur til sín - en sum Evrópuríki fóru fljótt að láta dólgslega - td. með kröfum um að þjóðin greiddi, eða amk. ábyrgðist -, umdeildar Icesave kröfur.

 

 

 

 

Forsetisráðherra  hinnar nýju stjórnar var Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Formaður VG var Steingrímur J. Þorsteinsson og var hann fjármálaráðherra ríkisstjórnarinnar. Hann beitti sér mikið fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Utanríkisráðherra var Össur Skarphéðinsson, Samfylkingunni, sem var ákafur stuðningsmaður inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Konan á strætóskýlinu sem áður er nefnd, Katrín Jakobsdóttir, var í stjórnar-þingflokki VG frá upphafi. M.a. sem ráðherra.

Esb. er einhver mesta hætta sem stafar að Íslendingum - nú og um langa framtíð - eins og sjá má á erlendum fréttum nær daglega.Minnugir þess munu margir kjósendur sem annt er um afkomu og framtíð barna sinna og barnabarna greiða þeim flokkum atkvæði sitt sem undanbragðalaust  eru gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið.. 

 

 

 

Fyrirheit og framkvæmdir

Eins og fyrr er getið batt fólk vonir við hina nýju stjórn landsins, vonir byggðar á kosningaloforðum og fyrirheitum stjórnvalda. Fljótlega komu þó brestir í traust þjóðarinnar.
Steingrímur, formaður VG var strax lagstur í tíð ferðalög til Esb í Brüssel. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sömuleiðis. Stefnan hafði augljóslega verið tekin á Esb. - hvað sem það mundi kosta.

 

Svo mjög sóttu ráðamenn að hraða inngöngunni að sumar Evrópuþjóðir töldu lag á að neyða okkur til að greiða eða ábyrgjast greiðslu á Icesavekröfunum - og þeir höfðu rétt fyrir sér. Nefnd eftir nefnd fór utan til að reyna að semja og erlend lögfræðiaðstoð var keypt dýru verði. Hvert nýtt uppkast var lofað í hástert sem einstaklega gott, gullgæs sem rétt væri að grípa, svo vitnað sé í utanríkisráðherrann.

 

Svo mikil var harðneskjan innan flokkanna að nokkrir stjórnarþingmenn hrökkluðust af þingi, einhverjir með tár á hvarmi. Reynt var að fá alþingi til að samþykkja samninga óséða og þeir máttu ekki koma fyrir almannasjónir. Loks greip almenningur til ákvæðis í stjórnarskránni og skoraði á forseta Íslands að neita að samþykkja lög um greiðslu Icesave svo þau færu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fullyrða má að þetta hafi komið í veg fyrir gjaldþrot Íslands. Framgöngu stjórnvalda, Samfylkingar og Vinstri Grænna er hinsvegar ekki hægt að kalla neitt annað en landráð.

 

Hjörleifur Guttormsson, einn af stofnendum VG og virtur fræðimaður, sagði sig úr flokknum. Kveðjubréf hans til flokkssystkyna sinna má lesa í greinasafni á vefsíðunni - landsmenn.is.
Þar eru einnig bréf til þings og þjóðar og fleira samtímaefni. Undirrituðum er ljóst að sumt er í minni margra kjósenda en þarna er efni til upprifjunar og fræðsla fyrir ungt fólk sem hefur etv. ekki fylgst mikið með þjóðmálum frá hruni - eða lengur. Fyrir þau ykkar er líka upplagt að leita skýringa og upplýsinga hjá eldri vinum og ættingjum.

 

 

Hverjum treystir þú?

Mér finnst að lokum sjálfsagt að svara konunni á strætóskýlinu.

Hún, Katrín Jakobsdóttir, var á þingi og ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir Vinstri Græna, með Samfylkingunni 2009-2013. Hún er því meðábyrg öðrum alþingismönnum í þáverandi stjórnarmeirihluta. Sú ríkisstjórn hafði vinnulag sem ég leyfi mér að kalla landráð. Þá var misfarið með fjármuni ríkisins á sama tíma og innviðir þjóðfélagsins liðu. Alþýða fólks var beitt órétti sem beint og óbeint flæmdi þúsundir úr landi.

 

Nú stígur þessi þingmaður í ræðustól Alþingis eins og hvítþveginn engill, veitist að núverandi stjórnarmeirihluta og ber hann sökum fyrir langt um smærri afglöp en þau sem voru viljaverk í hennar stjórnartíð, sem stórglæpir væru. Ekki er að sjá að hún telji nokkuð hafa verið athugunarvert í stjórnartíð hennar sjálfrar.

 

 

Svar

A Ég treysti ekki Katrínu Jakobsdóttur

 

B Ég treysti ekki Samfylkingunni

 

C Ég treysti ekki Vinstri Grænum

 

Þeirra skömm er tvöföld: Auk kosningaloforða sviku þeir grunnhugsjón flokksins og félaga sem trúðu því að VG bæri sérstaklega umhyggju fyrir þeim sem minnst mega sín.

 

Baldur Ágústsson

 

Höf. er fv. forstj., flugumferðarstjóri og forsetaframbjóðandi

baldur@landsmenn.is - www.landsmenn.is