739 803
Birt í Mbl. 7.1.2021
 
Það fór illa um daginn
 
Smitum snarfjölgaði, farsóttarhús og sjúkradeildir fylltust, dauðsföll, þegar þetta er ritað, eru orðin tuttuguogníu. Landspítalinn fór á neyðarstig. Skólastarf langt frá því sem eðlilegt getur talist og félagslíf . . . hvað er nú það?
Eftir að hafa dansað þennan línudans, sem virðist bæði vera orsök og afleiðing, eru margir orðnir þreyttir - og er þá vægt til orða tekið. Eðlilega spyrja því margir: Er ekki hægt hætta þessum dansi þar sem sífellt er verið að slaka og herða á sóttvörnum. Er ekki hægt að loka landinu - í alvöru - og beita miklum prófunum og ströngum sóttvörnum - finna smit innanlands, sem fyrst, og taka á þeim af festu? Eiginlega þurrka veiruna upp innanfrá?
Ef þetta er gert af fullri einurð losnum við þá ekki að mestu - eða með öllu - við veiruna á td. einum mánuði - jafnvel minna? Blessuð börnin geta þá gengið í skóla eins og þeim er eðlilegt - og ljúka þá vonandi prófum í vor. Þeir sem hafa, eða fá atvinnu, geta gengið til starfa sinna. Samkomustaðir geta opnað, svo og íþróttamiðstöðvar. Trúræknir geta fjölmennt í kirkjur. Svo er  nú tími vetraríþrótta, þorrablóta og árshátíða. Ef þetta gengur þá komum við lifandi og að mestu laus við mismunandi þunglyndi undan snjóum í vor - beint í páskafríið.
 
Mér er vel ljóst að harðar sóttvarnir munu valda leiða, reiði og jafnvel þunglyndi. Samt minni en ef við erum að herða og slaka til vors. En, við skulum vera meðvituð um slíkar tilfinningasveiflur og tiltæk ráð. Annað væri ósanngjarnt gagnvart þeim sem við vitum að kann að líða illa.
Ég tel nauðsynlegt að reyna þetta, illa nauðsyn, sem við höfum ekki óskað eftir,  en hefur vaxið svo hætta stafar af. 
 
Ég hef nokkrum sinnum heyrt fjármálaráðherra og fleiri nefna að það sé dýrt að loka landinu. En eins og stjórnmálamanna er siður eru ekki nefndar fastar tölur - eða úr hvaða vösum krónurnar munu tapast. Enn síður er gerð tilraun til að bera þær tölur saman við annað tap þjóðarinnar og einstaklinga: Hvernig verðmetum við dauða sjúklings, fráfall ættingja t.d. barnabarns eða ömmu og afa, brottfall úr skóla, þunglyndi, sjálfsvíg? Eða kostnað við endurmenntun nemenda. Margt af þessu og fleira til, tengist beint eða óbeint, þeim vágesti sem þessi faraldur er - og ekki sér fyrir endann á. 
Gleymum því ekki að við getum lifað góðu lífi á Íslandi þó að við skellum tímabundið í lás. Við höfum gnægð vatns, rafmagns og hita. Heilan bústofn, ein stærstu fiskimið í heimi og full gróðurhús til að sjá okkur fyrir matvælum. Þá höfum við allan nútíma búnað til fjarskipta og flutninga, þannig að við getum flutt inn það litla sem okkur vantar, ss. olíu, varahluti og lyf - þmt. bóluefni - sem heibrigðisstéttirnar hafa þá líka tíma til að gefa allri þjóðinni.
 
Ekki eru nema ellefu ár síðan reynt var að hræða okkur með því að Ísland yrði “Kúba norðursins” ef við greiddum ekki Icesavekröfuna frægu. Látum ekki slíkan áróður hafa áhrif á okkur nú þegar við tökum ákvarðanir.
 
 
Öryggismál
 
Mestalla starfsæfi mína hef ég unnið við margskonar öryggismál og vil koma að atriði frá þeim sjónarhóli séð í sambandi við faraldurinn: Eitt af grunnatriðum öryggismála er, að ef nauðsynlegt er að láta eitthvað gerast, eða að einhver persóna sýni af sér ákveðna háttsemi, framkvæmi eitthvað á ákveðinn hátt og/eða á ákveðnum tíma - þá þarf að tryggja að það sé gert. Gulltryggja.

 

Skoðum landamæragæslu Íslands á Keflavíkurflugvelli fyrr á árinu 2020 - svona sem dæmi:
Ákveðið var að opna fyrir erlenda ferðamenn. Skimunarbásar settir upp með hraði. Komufarþegar skimaðir og síðan sagt að fara beint á hótel sitt og bíða eftir hringingu um hvort skimunin hafi reynst jákvæð eða hvort þeim sé frjálst að fara út, en ella bíða eftir að verða fluttir í sóttkví.
Síðar sama dag kemur í ljós að einhverjir eru ekki þar sem þeir kváðust ætla að vera, og fáeinir aðrir voru á rölti í miðbænum með ferðatöskurnar sínar, spyrjandi borgarbúa til vegar.
Nú spyr maður: Skildu komufarþegar þau fyrirmæli sem þeir fengu
í skoðunarbásnum? Skildu þeir alvöru málsins. Hvernig er það vitað? Fengu þeir fyrimælin skrifleg, með refsiákvæðum, og þurftu þeir að staðfesta móttöku þeirra í básnum? Fór öryggisvörður eða lögregluþjónn með í rútunni og fylgdist með hverjir fóru úr henni og hvar. Og loks að allir tækju bíla frá lokastöð rútunnar, hver að dyrum síns hótels?
Var hótelum sagt að staðfesta komu þeirra við miðstöð landamæragæslu eða sóttvarna. Og hvernig ?
 
Ég vænti þess að öllum sem sendir eru í einangrun sé gert ljóst að þeir eiga að halda sig á sínum herbergjum. - ekki heimsækja fólkið í næsta herbergi, ekki skreppa á barinn, ekki nota neina hluti úr öðrum herbergjum og aðeins nota snyrtingu í eigin herbergi. 
 
Ég held að flestir skilji þetta. En það virðist vanta aga, eftirfylgni, refsiákvæði og etv. skýr, sannanlega skilin og óumdeilanleg fyrirmæli.  
Að útskýra reglur og biðla til fólks að fara eftir þeim eða hvetja fólk til fara nú varlega og muna að spritta o.sv.frv. hrífur ekki alla.
Fleiri munu taka “fyrirmæli” gild en “ábendingar”. Ekki síst ef viðurlög eru ljós, td. sekt eða brottvísun úr landi. Enn betur ef farþegar fá reglurnar afhentar við komu til landsins af lögregluþjóni og þurfa að kvitta á afrit og skilja eftir í vörslu hans. “Þessum Íslendingum er greinilega alvara”.
 
 
Að lokum
 
Þær ábendingar og dæmi sem ég gef hér má ekki taka sem tæmandi tillögur. Aðstaða og vinnulag eru háð aðstæðum og verkefnum. 
Nú þarf að horfa fram á veg og tryggja að þjóðin sé sem best búin undir að mæta af öryggi, áföllum af ýmsu tagi.
Það verkefni bíður stjórnvalda og eftir atvikum Þjóðaröryggisráðs.
 
Nú fréttist af nýju afbrigði veirunnar t.d. í Bretlandi. Sú er sögð “bráðsmitandi” og illvígari en upprunalega veiran. Þrátt fyrir að Bretar búa nú við ströngusti sóttvarnarreglur síðan í mars sl. er svo komið að “þar er heilbrigðiskerfið að kikna undan álaginu” að sögn RÚV kl.19 í kvöld, daginn fyrir þrettándann. Boris Johnson, fsrh. telur kerfið geta sprungið eftir þrjár vikur. Ekki er langt síðan um 20.000 nýsmit greindust daglega í Bretlandi - nú hefur sú tala meira en tvöfaldast og er nú 50.000 nýsmit á dag.
Við íslendingar höfum engar afsakanir ef við beitum ekki hverri þeirri aðferð sem hugsanlega gæti haldið veirunni frá ströndum landsins.
Alls engar afsakanir.
 
Við erum í stríði við mannskæða veiru, Covid 19. Við höfum þegar orðið fyrir nokkru mannfalli. Munum orð hershöfðingjans sem sagði: “Vísasta leiðin til að tapa stríðinu er að vanmeta aðstæður og styrk andstæðingins”. 
Við viljum ekki tapa þessu stríði, þetta er dauðans alvara.
 
 
 
Baldur Ágústsson
Höf. er fv. forstj., flugumferðarstjóri og forsetaframbjóðandi