Birt í Mbl. 22.4.2021
 
Þann 7. janúar sl. birti Morgunblaðið grein mína "Grimmur óvinur".
Þar vakti ég athygli á nokkrum grunnatriðum öryggismála sem þurfa að vera í lagi ef nauðsynlegar ráðstafanir eiga að skila þeim árangri sem stefnt er að.
Ég benti líka á hið svokallaða breska afbrigði veirunnar sem þá þegar lék lausum hala í Bretlandi og vitað var að væri bæði bráðsmitandi og sýnu illvígari en hin upphaflega gerð hennar. Ljóst var því að bærist hún til Íslands myndi smitum fjölga enn hraðar og veikindi verða mun alvarlegri. Ég leyfði mér að segja að ef þetta afbrigði kæmist inn í landið ættum við íslendingar enga afsökun - alls enga.
Hún kom nú samt. Ef ég man rétt, var það rakið til eins ferðamanns, sem "einhvernveginn slapp í gegnum landamærin” - eins og það var orðað.
 
 
Þakkir austfirðingar !
 
Nú nýlega birtist brasiliskt afbrigði veirunnar á þröskuldi okkar - landamærunum. Það mun vera enn skæðara en það breska og ekki einu sinni fullvíst að þekkt bóluefni vinni á því. 
Þetta nýja afbrigði mun hafa komið með erlendu skipi til Reyðarfjarðar í mars sl.
Skipverjar voru skimaðir og reyndist um helmingur þeirra veikur með Covid 19. Einn var það veikur að honum var strax komið á sjúkrahús en öllum hinum gert að sæta sóttkví um borð í skipinu.
Í tuttugu daga var skipið vaktað til að koma í veg fyrir óviðkomandi umferð að og frá borði. Öll þessi árvekni, vinna og agi hefur skilað
árangri og því tímabært að segja: Þakkir austfirðingar, þarna var vel að verki staðið.
 
Skyldu-sóttkví
 
Athygli vakti þegar stjórnvöld tóku nýlega stórt hótel í notkun sem sóttvarnarhús og skylduðu þá sem til landsins komu til dvalar þar - á kostnað ríkissjóðs - til að hefta útbreiðslu Covid 19 veirunnar.
Ekki þekki ég til framkvæmdaatriða varðandi flutning fólks og annað sem til móttöku þessara ferðamanna heyrir. Hitt verð ég að segja að miðað við að biðja fólk að fara beint heim eða á hótel sitt og bíða þar niðurstöðu skimunar á landamærunum, þá eru þessir fólksflutningar og vistun undir eftirliti, framför - mikil framför. 
Ég hef sagt það áður og segi það enn: Ef miklu skiptir að allir fylgi settum reglum eða fyrirmælum, þá þarf einfaldlega að tryggja það með þeim ráðum sem nauðsynleg eru - og það þarf auðvitað að undirbúa vandlega.
 
En bíðum nú við!
 
Nú ber svo við að nokkrir komufarþegar vilja ekki ekki sitja í sóttkví yfirvalda heldur fara í sóttkví heima hjá sér. Yfirvöld segja nei enda misjöfn reynsla af slíku. Fólkið hefur hátt, vitnar í mannréttindi sín og telur að ekki sé stoð í lögum sem heimili þessa skylduvistun.  Stjórnvöld telja sig hafa allt á hreinu, enda sé nýbúið að ganga frá reglugerð sérstaklega til þess.
Þrír lögmenn, fh. ferðalanganna, bera málið undir Héraðsdóm Reykjavíkur sem kemst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld hafi ekki rétt til að skylduvista ferðamennina í margnefndu sóttvarnarhóteli.
Tveir ráðherrar koma í sjónvarpið og segja úrskurð Héraðsdóms
“valda vonbrigðum”! Reglugerðin pottþétta ekki nefnd framar !
 
Eftir að hafa barist við Covid 19 á annað ár og deilt um lögmæti margskonar aðgerða - boð og bönn - í margar vikur gætu margir ætlað að nægur tími hefði gefist til að “neyðarlög v/farsótta” með valdheimildum og öðru nauðsynlegu væru tilbúin til notkunar. En, nei!
 
Ég leyfi mér að segja að þjóðin á ekki skilið það orðspor sem hún fær af þessu máli.
Þá eiga landlæknir, sóttvarnalæknir og almannavarnir inni afsökunarbeiðni hjá stjórnvöldum fyrir að hafa falið þeim verkefni sem ekki stóðst lög. Það á þríeykið ekki skilið.
 
Hvað nú?
 
Fréttir herma að fjöldi erlendra flugfélaga stefni til Íslands strax í byrjun næsta mánaðar með ferðamenn til lengri eða skemmri dvalar. Þau sækja um “tímaleyfi” hjá íslenskum yfirvöldum og auglýsa Ísland sem áfangastað. Íslenskt ferðaþjónustufólk fagnar því auðvitað og undirbýr komu viðskiptavina eftir langt hlé. En hvað með íslensk yfirvöld?  Hvernig líst þeim á? Er langt komið í undirbúningi verklagsreglna, skipulagi móttöku á landamærunum, mannahalds/mannafla, húsnæðis og framkvæmd aðgangsstýringa. Hvað með kynningu á reglum, viðbrögð við reglubrotum o.sv.frv.
Textagerð, þýðingar, prentun/netvinna. 
Upplýsingar; öflun, staðreynsla, dreyfing, afturköllun, breytingar, vistun. 
Á að treysta erlendum heilsufarsvottorðum - og hverjum? - Hvernig  er það í framkvæmd? Ábyrgð flugfélaga varðandi flutning farþega til Íslands án fullnægjandi skilríkja ss. heilbrigðisvottorðs, vegabréfs ofl.
Þessi listi er hvergi tæmandi og vonandi er sem mest á honum þegar afgreitt og frágengið. 
Ég er ekki að reyna að draga kjark úr fólki, aðeins benda á að gott skipulag tryggir fumlaus handtök sem aftur eykur líkur faglegri landamæragæslu sem við getum öll verið stolt af.
 
Að lokum
 
Við gerum ráð fyrir að við verðum laus við veiruna þegar bólusetningum verður lokið. Vonandi gerist það. Í ljósi margra stökkbreytinga sem hafa reynst mis illvígar mun hinsvegar ekki útilokað að við fáum hana aftur. Stöndum því saman og höldum vöku okkar og vörnum.
 
 
Baldur Ágústsson
Höf. er fv. forstj., flugumferðarstjóri og forsetaframbjóðandi